Skemmtigarður fyrir fullorðna
- segir tónleikahaldari ATP tónlistarhátíðarinnar
Það ætti heldur betur að lifna yfir Ásbrú á næstunni, já eða Suðurnesjunum öllum. Tónlistarhátíðin ATP verður haldin á Ásbrú dagana 10. -12. júlí en hátíðin vakti mikla lukku í fyrra þegar hún var haldin í fyrsta sinn. Keflvíkingurinn Tómas Young fer fyrir hátíðinni en hann sér fram á margar andvökunætur á næstunni. Það er ekki bara tónlist á heimsmælikvarða sem framreidd verður á Ásbrú, heldur verða margvíslegar uppákomur í boði fyrir tónleikagesti, s.s fótbolti, spurningakeppni og bóka-bingó.
Á ATP eru jafnan haldin fótboltamót þar sem hljómsveitarmeðlimir mæta gjarnan til leiks og reyna fyrir sér gegn gestum. Stundum mæta heilu hljómsveitirnar í takkaskónum og láta finna fyrir sér í fótboltanum. „Það einkennir að vissu leyti ATP, þessi nánd við tónlistarmennina, segir Tómas en fótboltinn er aðeins hluti af þeirri nánd.
Kvikmyndir eru sýndar á hátíðinni þar sem hljómsveitirnar fá að velja sínar eftirlætismyndir fyrir gesti. Hin vinsæla hljómsveit Portishead velur að þessu sinni dagskrána fyrir tónleikagesti. „Það er gaman fyrir gesti sem eru kannski aðdáendur sveitarinnar að fá smá innsýn í þeirra heim,“ segir Tómas og rifjar upp þegar hann fór á ATP hátíð erlendis þar sem hljómsveitin The National sá um kvikmyndaafþreyingu. Í fyrra mætti svo Dr. Gunni og reiddi fram spurningakeppni í anda Popppunkts en sá leikur verður endurtekinn í ár. Adrian McKinney (Lord Sinclair), mun sjá um keppnina í ár. Tónleikagestir mæta bara til leiks og mynda lið, þar sem svara þarf spurningum sem snúa að tónlist. Þar eru líkur á því að hitta hljómsveitarmeðlimi og er það dæmi um nándina sem fylgir hátíðinni.
Láta kvikmyndastjörnur sjá sig?
Svokallað bóka-bingó vakti mikla lukku í fyrra, en það gengur þannig fyrir sig að gestir mæta með bók úr einkasafni sem það svo leggur í pott. Þannig geta sigurvegarar bingósins eignast bækur frá öðrum en á sama tíma látið af hendi bækur sem þeir hafa jafnvel fengið leið á, eða vilja deila með öðrum. Leikkonan Tilda Swinton, sem var gestur á hátíðinni í fyrra, var víst ansi kappsöm í bóka-bingóinu og vildi ólm næla sér í ýmsar áhugaverðar bækur. Ekki er óalgengt að frægar kvikmyndastjörnur sem hún láti sjá sig á ATP hátíðunum en Tómas vill sem minnst gefa upp um það hvort von sé á stórstjörnum hingað á Ásbrú í næstu viku. „Það eina sem ég vil segja er að fólk getur prófað að googla nöfn maka þeirra sem eru í stóru hljómsveitunum,“ segir Tómas dulur. „Það verða einhver þekkt andlit þarna í hópnum,“ bætir hann svo við.
Nú þegar svo skammt er þangað til hátíðin hefst er skiljanlega nóg um að vera við undirbúning. Tómas hefur í nógu að snúast en hann hefur þó góðan kjarna af fólki í kringum sig sem hjálpar til við að gera hátíðina í hópi með þeim bestu í Evrópu. Þar sé fólk hvaðanæva að allt frá vinum og fjölskyldu til starfsmanna sem komið hafa að viðburðum sem þessum í fjölmörg ár. „Mamma og pabbi hafa verið að dreifa bæklingum á Ásbrú og pabbi var t.d. að mála barborð sem notað verður á svæðinu. Það koma svo að þessu ótal íslenskir sjálfboðaliðar sem sinna hinum ýmsu störfum,“ segir Tómas en einnig koma starfsmenn á vegum ATP erlendis frá. „Ég veit hreinlega ekki hvað þetta eru margir starfsmenn. Það eru líklega rúmlega 200 manns sem koma að þessu.“
Fyrir þá gesti hátíðarinnar sem ekki hafa komið á Ásbrú áður verður boðið upp á ferðir þar sem sýningin Íbúð Kanans verður skoðuð. Það er því ótalmargt í boði fyrir gesti en að sjálfsögðu er það tónlistin sem trekkir að. „Tónlistin vegur þyngst í þessu. Það eru þó þessir aukahlutir sem gera þetta að hátíð. Þetta verður nánast eins og skemmtigarður fyrir fullorðna,“ segir Tómas að lokum.