Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skemmtanalífið 1966–1979
Frá lokadansleik Hljóma í Glaumbæ í júní 1969. Rúnar Júlíusson í ham.
Sunnudagur 6. desember 2015 kl. 10:50

Skemmtanalífið 1966–1979

- í máli og þúsund myndum

Dansleikir og skemmtanir í Festi í Grindavík, landskunnar hljómsveitir og fegurðardrottning af Suðurnesjum eru meðal efnis í máli og myndum í nýrri bók, Öll mín bestu ár, eftir Kristin Benediktsson og Stefán Halldórsson.

Bókin fjallar um skemmtanalífið á árunum 1966-1979. Viðfangsefnin eru dansleikir, útihátíðir, skólaskemmtanir, tískusýningar, uppákomur, barnaskemmtanir, hljómleikar, fegurðar- og hæfileikasamkeppnir og aðrir viðburðir víða um land. Yfir 1.000 ljósmyndir Kristins eru í bókinni og ítarleg umfjöllun Stefáns um flytjendur, gesti, staðina og stemminguna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristinn Benediktsson var fyrr á árum ljósmyndari á Morgunblaðinu og Stefán skrifaði um popptónlist í blaðið í 10 ár frá 1967 til 1977. Þeir hófu samstarf um gerð bókarinnar árið 2011, en eftir að Kristinn lést árið 2012 eftir langa baráttu við krabbamein hélt Stefán verkinu áfram í samvinnu við dóttur Kristins og vin hans.

Hljómar, Júdas, Óðmenn, Trúbrot og Ábót eru meðal yfir 100 hljómsveita, þjóðlagaflytjenda og skemmtikrafta á síðum bókarinnar. Hjónin Rúnar Júlíusson og María Baldursdóttir prýða forsíðuna og þrír bræður Maríu, Þórir, Júlíus og Baldur, koma einnig við sögu.

Stefán Halldórsson er útgefandi bókarinnar, en bókaforlagið Salka annast dreifingu í verslanir.

Hápunkti náð og hætt

Lokaball Hljóma í Glaumbæ í júní 1969

(Kafli úr bókinni Öll mín bestu ár, eftir Kristin Benediktsson og Stefán Halldórsson)

 Eftir að nokkrir liðsmenn Hljóma og Flowers ákváðu að stofna nýja hljómsveit (sem varð Trúbrot) efndu hljómsveitirnar til eftirminnilegra lokadansleikja. Kristinn fór í Glaumbæ og þar var lokapunktur við hæfi í sögu Hljóma. Rúnar Júlíusson sveik ekki aðdáendur sína um að „taka æði“, þegar hann snaraðist upp á sillur og handrið og söng sig í (flug)ham áður en hann sveif niður á sviðið.

Vafalaust hefur verið fámennt annars staðar í Glaumbæ á þessari stundu. Salurinn er þéttstappaður, hvert sem litið er, og hljómsveitin kemst vart fyrir á sviðinu.

Rúnar Júlíusson var löngu orðinn landsfrægur fyrir æsilega sviðsframkomu þar sem saman fór:

— kröftugur söngur (gjarnan lengdir kaflar í rokk- eða „soul“-lögum),

— klifur og stökk að hætti öflugra íþróttamanna (enda var Rúnar áður afreksmaður í knattspyrnu),

— beraður efri hluti kroppsins (og Rúnar hafði bæði vaxtarlag og bringuhár sem prýði var að).

Í viðtali við tímaritið Samúel árið 1984 kallaði Rúnar sviðshegðunina „eðlishvatasystem“ og sagði:

„Þegar maður fer að spila í tvo þrjá tíma, og alltaf hitnaði meira og meira í kolunum, þá varð endirinn alltaf þessi sami í Glaumbæ. Þessi magngeggjun út um allt; fækka fötum, klifra út um allt og syngja samt allan tímann. Þetta var meira eins og trans. Þetta var ekkert skipulagt mál.“

Ólafur Laufdal veitingamaður á Broadway rifjaði þetta upp í viðtali í Morgunblaðinu:

„Ég man eftir síðasta ballinu sem Hljómar léku undir dansi. Það var á sunnudagskvöldi, og ég var þjónn í Glaumbæ. Troðið var í húsinu og í portinu voru tvö þúsund manns sem ekki komust inn“, sagði Ólafur Laufdal.

Mynd af forsíðu bókarinnar (hjónin Rúnar Júlíusson og María Baldursdóttir, þegar María var krýnd fegurðardrottning Íslands í maí 1969).

Mynd frá dansleik Júdasar í Festi 1975 þegar tekin var upp sjónvarpsmynd um hljómsveitina. Á henni eru Magnús Kjartansson, hljómborðsleikari Júdasar, og  Þorkell Jensson, rótari hljómsveitarinnar.



Lokadansleik Hljóma eru gerð góð skil í bókinni.