Skemmtanakóngur úr Keflavík
Keflvíkingurinn Valþór Ólason hefur farið mikinn að undanförnu í skemmtanaiðnaðinum en helgina fyrir páska mættu á þriðja þúsund manns á Hollywood ball á Broadway og 1. maí nk. verður hið árlega Bergás ball í Officera klúbbnum á gamla varnarsvæðinu. Þá stóð hann fyrir heimsókn hinna gamalkunnu Sledge diskósystra um páskana.
Valþór hefur í atvinnuleysi haft nægan tíman til að sinna ýmsum málum á Facebook og þar auglýsti hann upp Hollywood kvöldið sem á endanum fyllti Broadway skemmtistaðinn í Reykjavík.
„Þetta byrjaði allt með upprifjun á Fésbókinni með gömlum myndum úr Hollywood. Upp úr því var tekin ákvörðun um að halda sérstakt kvöld í framhaldi af stofnun sérstakrar Facebook Holly síðu og rifja upp gamla tíma en þetta var vinsælasti skemmtistaður landsins í nokkur ár. Mjög margir Suðurnesjamenn sóttu staðinn og það var gaman að sjá marga þeirra á kvöldinu núna,“ sagði Valþór Ólason.
Um páskana stóð Valþór í samvinnu við Broadway fyrir öðru diskókvöldi en þá fékk hann Systur Sledge til landsins og tróðu þær upp á Broadway við ágætar undirtektir. Valþór sýndi þeim vinsælasta ferðamannastað á Íslandi, Bláa lónið og var ekki annað að sjá en að þær nytu þess og spjölluðu m.a. við fréttafólk sjónvarpsstöðvanna.
Hið árlega Bergás ball verður svo haldið 1. maí í Offanum á Ásbrú sem er nýja nafnið á Vallarheiði eða gamla varnarsvæðinu. Valþór sagði að mikið stæði til og að kvöldið yrði veglegt. „Þetta verður bara alveg eins og í gamla daga,“ sagði Valþór en auk tónlistarinnar frá þessum tíma í kringum 1980 verða skemmtiatriði þar sem Herbert Guðmundsson mun taka nokkur lög, Jón Steinar, Simbi og Kolla verða með dansatriði og Alli diskó mun stjórna tónlist kvöldsins eins og undanfarin Bergás kvöld.
Forsala er hafin í Gallerí Keflavík og aldurstakmark að venju 30 ár. Boðið verður upp á fordrykk frá 21.30 til 23.30.
Fleiri myndir af Holly balli og heimsókn Sledge í Bláa lónið má sjá í myndasafni vf.is
Fjörið var mikið á Hollywood balli á Broadway og þar voru margir frá Suðurnesjunum í essinu sínu. Á neðri myndinni má sjá Sledge systur í Bláa lóninu og á efstu myndinni með Valþór Ólasyni í Broadway.