Skeggjaðir, stífir í baki og með stærri bumbu
Viðtal: Hjálmar fagna tíu ára afmæli
Reggíhljómsveitin Hjálmar fagnar 10 ára starfsafmæli sínu á þessu ári. Hljómsveitin varð til í Reykjanesbæ á sínum tíma en þá kynntust félagarnir Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson. Þeir Siggi og Kiddi voru fastagestir hjá Rúnari Júlíussyni á Skólaveginum en þar gæddu þeir sér á Villa-borgara og stofnuðu hljómsveitina Fálka frá Keflavík. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með Sigga og Kidda í Hjálmum í hljóðveri Geimsteins og fór yfir feril þessarar merku sveitar.
Hvernig lágu leiðir ykkar saman í tónlistinni?
Siggi: Við hittumst bara á Villabar held ég og í framhaldi af því byrjuðum við í hljómsveitinni Fálkar frá Keflavík.
Kiddi: Þá var ég að klára FS, seint en örugglega og þá ætluðu allir sem ég var með í hljómsveit á þeim tíma að fara í sitthvora áttina, einn ætlaði að verða flugmaður og annar organisti. Þá spáði ég í hvort ég ætti að hætta bara í tónlistinni og gerast líka flugmaður eða eitthvað slíkt eins og vinirnir voru að gera en þá hitti ég Sigga á Villabar og við stofnuðum hljómsveitina Fálka. Það var „instrumental“ hljómsveit, sem sagt enginn söngur. Ég veit ekki af hverju Siggi vildi aldrei syngja þá. Siggi: Ég var bara ekki búinn að fá almennilega rödd. Kúlurnar voru ekki komnar á réttan stað (hlær).
Siggi: Til að byrja með vorum við að æfa og taka upp í skúrnum hjá Kidda á Hringbrautinni.
Kiddi: Þar var ég með mitt fyrsta stúdíó á Hringbraut 60. Ég var nýbúinn að kaupa mér nýjustu upptökugræjur sem hétu Produce og Rúnar var ennþá að taka upp á teip og Júlli sonur hans bað mig um að koma með það yfir í Geimstein. Þá fékk ég aðstöðu þar og við eiginlega sameinuðum þessi tvö stúdíó. Þá fórum við að dvelja mikið hér og gerðum plötuna með Rúnari „Það þarf fólk eins og þig.“
Hvernig verða Hjálmar til?
Siggi: Þegar við gerðum þessa plötu með Rúnari þá heimtaði hann að hann vildi hafa einhver reggílög á þessari plötu. Við fórum því að skoða hvernig ætti að gera þetta, fórum á google þess tíma eða „ircið“ en fengum litlar upplýsingar þar. Við náðum samt að krafsa okkur í gegnum þetta. Í kjölfarið á þeirri plötu fæddist þessi hugmynd að þetta væri ekki svo galið að prófa þennan tónlistarstíl.
Kiddi: Þetta hentaði ágætlega, það var ekki erfitt fyrir mig að spila þennan rythmagítar og ég hugsaði með mér að það væri fínasta ævistarf. Við fórum því að prófa okkur áfram. Fundum „Best of“ reggí-plötu í hillunni frá 1975 og prófuðum að spila eitt lag af plötunni. Það varð svo lagið „Kindin Einar“. Þarna voru það bara ég og Siggi og strákur sem heitir Kiddi Agnars á trommur. Siggi spilaði eiginlega bara á öll hin hljóðfærin. Kiddi Agnars átti síðan vin að austan sem kemur með Steina inn í bandið. Þá fer þetta að verða alvöru hljómsveit. Seinna fengum við bassaleikarann.
Voruð þið reggí-aðdáendur fyrir þetta?
Siggi: Já ég hafði nú hlustað eitthvað á þetta en Kiddi hafði það ekki.
Þið blandið síðan inn í þetta alþýðu- eða þjóðlagatónlist?
Siggi: Já það kom með Þorsteini af því að hann var með þann bakgrunn. Hann var aðallega blúskarl en hafði gert plötu í Svíþjóð með reggí-ívafi. Þetta kom svo bara af sjálfu sér, þetta þjóðlagasánd með Steina enda er hann bara eitt þjóðlag út í gegn.
Nú fagnið þið 10 ára afmæli, hefðuð þið getað ímyndað ykkur það fyrir 10 árum?
Siggi: Ég er pínu svekktur að það sé búið að skipta um sófa hérna á Skólaveginum en að öðru leyti er allt voða svipað hérna í Geimsteini eins og það var fyrir 10 árum síðan. Við erum orðnir aðeins skeggjaðri, stífari í bakinu og með örlítið stærri bumbu.
Kiddi: En að vera hér ennþá í Hjálmum 10 árum seinna, Rúnar sagði eitt sinn við okkur að þegar þú ert orðinn þrítugur, þá ertu bara búinn. Þá snýrðu þér að einhverju öðru. Þannig var viðhorfið til poppara í gamla daga. En núna er Neil Young að fylla Laugardalshöllina og fólk heldur áfram, sem ég kann vel að meta. Bönd eins og GusGus hætta t.d. ekkert. Sama með okkur, við vissum þegar við byrjuðum að þegar hljómsveit byrjar að verða vinsæl að þá mun hún detta úr tísku. Eins og allt annað. Aðal málið er að halda áfram að gera það sem maður fílar og hefur gaman af, það skiptir mestu máli.
Rak hljómsveitina á heimilis Visa-kortinu
Árið 2006-2007, hvers vegna kom pása þá?
Kiddi: Þá voru þrír Íslendingar og þrír Svíar í hljómsveitinni og ég rak hljómsveitina á heimilis-Visa kortinu og Svíunum var flogið heim aðra hverja helgi. Þeir vildu vera í Svíþjóð þar sem þeir áttu börn sumir. Þegar þetta var orðið aðeins of mikið, búið að ganga svona í um þrjú ár, þá ákváðum við að taka pásu. Svíarnir vildu láta reyna á heimamarkaðinn og það gekk mjög vel hjá þeim í því sem þeir tóku sér fyrir hendur. Ástæðan af hverju við byrjuðum aftur er að skatturinn fann eitthvað athugavert við heimilisbókhaldið, ég skuldaði einhverja peninga vegna Hjálma. Þá sagði ég við strákana að við þyrftum að taka eitt gigg, alla vega til að borga upp skuldina. Við gerðum það og ég man að ég tók Bónuspoka með þessum 800.000 kalli eða svo sem við skulduðum og labbaði með hann í Skattinn. Eftir það hafa þeir bara verið ljúfir, þeir hjá Skattinum.
Hvernig er með drauminn um að meika það erlendis?
Siggi: Í rauninni var tekin ákvörðun í þessari hljómsveit að við ætluðum að vera íslensk hljómsveit og syngja á íslensku. Við vorum því eiginlega ekki að stefna neitt erlendis með þetta. Við vildum frekar gera þetta almennilega á Íslandi og við vorum í raun aldrei með neina „meik-drauma“.
Er einhver áhugi fyrir ykkur erlendis?
Siggi: Já, já, með tíð og tíma hefur þetta eflaust farið víðar en maður gerir sér grein fyrir. Það er alls konar fólk sem fylgir okkur hér og þar.
Kiddi: Við höfum farið víða og spilað á mörgum stöðum. Ég hef líka prófað að vera lengi úti að spila en að mörgu leyti er þetta bara skemmtilegra, að halda þessu að mestu heima fyrir en fara af og til að spila í útlöndum.
Þurfið þið alltaf að vinna saman þið tveir, m.a. í Baggalúti og Memphis mafíunni?
Siggi: Við höfum unnið mikið saman og það hafa alveg komið pínulitlir árekstrar. Kiddi: Við erum mjög ólíkir þannig að eðlilega koma stundum smá árekstrar.
Siggi: Sumir liðir þurrkast upp annað slagið og þá þarf að smyrja þá en við erum bæði góðir vinir og vinnum vel saman. Ég held að það sé okkar styrkur að við erum ekki mjög líkir, við vinnum t.d. á ólíkum hraða og notum mismunandi aðferðir. Ég kann alla vega mjög vel við að vinna með Kidda og vona að það sé gagnkvæmt.
Kiddi: Það er alveg sama hér. Það er eitthvað við þetta pródúserateymi sem við erum, við þurfum oft ekkert mikið að tala saman þegar við erum í stúdíóinu, þetta eru meira hugskipanir okkar á milli. Það er mjög þægilegt þegar allir eru farnir úr stúdíóinu og við erum bara tveir eftir, þá oft finnst mér þetta fara að ganga. Við höfum átt helvíti margar klukkustundirnar saman, sitthvoru megin við glerið.
Hvað er í gangi núna annað en afmælistónleikarnir í Eldborg 26. september?
Kiddi: Við í Hjálmum gerðum plötu með norskum tónlistarmanni sem heitir Erlend Öye og við erum að fara að spila með honum á tónleikum í Noregi á næstunni. Siggi er búinn að vera að vinna með honum allt árið, spilandi með honum út um allan heim. Þegar maður gerir plötu fyrir alþjóðamarkað eins og við gerðum með Norðmanninum þá var þetta allt öðruvísi ferli en við erum vanir. Hér heima er það þannig að maður vinnur að plötu, hún kemur út og síðan er hún orðin gömul eftir þrjá mánuði. Þetta tekur allt miklu meiri tíma úti, eftir að hafa tekið upp plötu tekur kannski ár að „fínísera“ hana. Þegar hún er tilbúin tekur útgáfufyrirtækið kannski sex mánuði í að gefa hana út og síðan er henni fylgt eftir alveg í tvö, þrjú ár.
Annars fór ég nýlega í heimsókn í gamla stúdíóið hans Jimi Hendrix í New York. Ég á þann draum að Hjálmar fari þangað næst og taki upp næstu plötu. Hjálmar verða með „Best-of“ plötu sem heitir Skýjaborgin, Steini er að gefa út sólóplötu og svo koma Hjálmar út á plötu með Erlend Öye.
Hvað ætlið þið að vera lengi í þessu sem Hjálmar?
Siggi: Ég er ekki að sjá fram á að við séum að fara að hætta neitt á næstunni. Ég flutti mig reyndar um set og bý nú í Osló. Ég á mér þann draum að geta orðið eins og Rolling Stones, að þegar við verðum orðnir 65-70 ára getum við ennþá verið að þessu.
Kiddi: Reggíið er nefnilega frekar tímalaus stefna, hún hefur aldrei verið almennilega í tísku og dettur heldur aldrei alveg úr tísku. Það er kannski kosturinn við reggíið, eins og gospelið líka. Siggi: Ekki beinlínis töff. Kiddi: En samt svona, hefur samt alltaf sinn aðdáendahóp.
„Ef það væri ekki fyrir Geimstein hvað hefði þá orðið um Hjálma, Valdimar, Klassart og fleiri. Fyrir ungar hljómsveitir er það að koma í stúdíó og taka upp lag rosa mikið mál“
Tónlistarlífið á Suðurnesjum núna – hvað finnst ykkur um það?
Kiddi: Þegar við erum að alast upp, þá eru stóru hljómsveitirnar héðan Deep Jimi, Kolrassa Krókríðandi, Texas Jesú.
Siggi: Þá var Musterið á Hafnargötunni sem var æfingahúsnæðið okkar. Þá var rosa mikið að gera og margir í hljómsveitum. Ég verð hreinlega bara að viðurkenna að ég þekki ekki til hljómsveitanna sem eru starfandi hérna núna.
Kiddi: En hér í Geimsteini ræður nú ríkjum Björgvin Ívar, barnabarn Rúnars. Á meðan Geimsteinn er hér, þá kemur alltaf einhver ný músík héðan eins og t.d. var Klassart að gefa út nýja plötu sem var tekin upp hér. Á meðan Geimsteinn styður svona við bakið á tónlistarmönnunum sem byrja hér verður þetta í góðu lagi. Það skiptir svo miklu máli að það séu svona fyrirtæki starfandi hér í samfélaginu, ef það væri ekki fyrir Geimstein hvað hefði þá orðið um Hjálma, Valdimar, Klassart og fleiri. Fyrir ungar hljómsveitir er það að koma í stúdíó og taka upp lag rosa mikið mál.
Var þetta gott tónlistarlegt umhverfi til að alast upp í?
Siggi: Það var einstakur andi á meðan Rúnar var hérna í kringum okkur, teflandi í tölvunni. Þá sat ég oft einn hér að störfum, Kiddi farinn heim til fjölskyldunnar og þá var mér boðið í mat hérna fyrir ofan, á heimili Rúnars og Maríu. Svo var nú af og til tekinn blundur hérna í gamla sófanum sem náði fram á næsta morgun. Svo mætti Kiddi aftur um morguninn og vinnan hélt áfram.
Kiddi og Siggi á Kúbu þar sem þeir tóku upp plötu með Mephismafíunni.