Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skautasvell opnað í skrúðgarðinum í Reykjanesbæ
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 18. desember 2021 kl. 17:33

Skautasvell opnað í skrúðgarðinum í Reykjanesbæ

Reykjanesbær hefur opnað nýtt og glæsilegt skautasvell í Skrúðgarðinum í Keflavík og var það gert formlega að morgni 18. desember. Kjartan Már Kjartansson og rekstraraðilar undirrituðu samning þessa efnis við systurnar Elín Rós og Ljósbrá Bjarnadætur fyrir hönd Orkustöðvarinnar ehf.

Skrúðgarðurinn hefur í gegnum tíðina verði vinsæll áningarstaður bæjarbúa og m.a. stór hluti af hátíðarhöldum í tilefni þjóðhátíðardagsins ár hvert. Í fyrra vetur var tekin upp ný hefð til að glæða garðinn meira lífi yfir vetrartímann þegar Aðventugarðurinn var opnaður. Mikil ánægja hefur verið með Aðventugarðinn en markmiðið frá upphafi var að byrja smátt og láta hann stækka með árunum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ævintýralegur skrúðgarður

Í vor opnaði  íbúalýðræðisvefurinn „Betri Reykjanesbæ“ þar sem óskað var eftir hugmyndum frá íbúum til að auðga bæjarlífið. Hugmyndin um “Ævintýralegan skrúðgarð“ var meðal þeirra hlutskörpustu en í lýsingunni er m.a. talað um að setja upp leiktæki sem hvetja til aukinnar hreyfingar og henta fjölbreyttum aldri. Þá má með sanni segja að „skautar um jól“ hafi ákveðinn ævintýrablæ yfir sér. 

Íris Halldórsdóttir kennari í Myllubakkaskóla sendi inn hugmyndina um ævintýralega skrúðgarðinn á „Betri Reykjanesbæ“ og eru henni færðar kærar þakkir fyrir. Þess má geta að auk skautasvellsins fær hugmyndin um leiksvæði við hólinn í Innri-Njarðvík einnig fjármagn í gegnum íbúasamráðið en með vorinu verður sett þar ný þrautabraut sambærileg þeirri sem nú er í Njarðvíkurskógum. 

Umhverfisvænt skautasvell

Skautasvellið er 200 fermetrar að stærð og er umhverfisvænt þar sem það þarfnast hvorki raforku né vatns. Það samanstendur af sérhönnuðum plötum sem hafa sömu eiginleika og venjulegur ís og þá er einnig minni slysahætta þar sem plöturnar gefa aðeins eftir ólíkt hefðbundnum ís.

Vonir standa til að nýtt skautasvell muni auðga bæjarlífið og auka samverustundir, útiveru og hreyfingu barna og fjölskyldna í sveitarfélaginu, sem er í takt við markmiðin sem stefna  Reykjanesbæjar setur fram um að auka vellíðan íbúa og setja börnin í fyrsta sæti. 

Allar upplýsingar á vefsíðunni Aðventusvellið

Auglýst var eftir rekstraraðilum til að sjá um svellið og munu systurnar Elín Rós og Ljósbrá Bjarnadætur fyrir hönd Orkustöðvarinnar ehf. halda utan um reksturinn. Markmiðið er að opna skautasvellið samhliða opnun Aðventugarðsins ár hvert og það verði opið  a.m.k. út febrúarmánuð. 

Á vefsíðunni adventusvellid.is er að finna allar upplýsingar um opnunartíma, verð og tímabókanir en þar er einnig hægt að kaupa áskrift að svellinu á hagstæðu verði. 

Árný Alda Ásgeirsdóttir t.v. og systir hennar, Dagný eru vanar skautakonur. Árný Alda sendi fyrirspurn fyrr á árinu um hvort ekki væri hægt að opna skautahöll í bæjarfélaginu. Það gekk ekki en hún fékk skautasvell og Dagný systir hennar tók fyrsta rennslið á svellinu.

Skautasvell opnað í Reykjanesbæ