Skautar inn í jólin í miðborginni

-Arnar Már Eyfells er verkefnastjóri skautasvellsins á Ingólfstorgi

„Það er fátt sem kemur mér í meira jólaskap heldur en skautasvellið og þegar ég byrja að stússast í þessu á hverju ári fæ ég einmitt þessa tilhlökkunar tilfinningu fyrir jólunum,“ segir Keflvíkingurinn Arnar Már Eyfells, en hann starfar sem verkefnastjóri í markaðsdeild Nova og sér um skautasvellið á Ingólfstorgi í miðborginni sem hefur verið sett upp í desember síðastliðin tvö ár.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt, en á sama tíma krefjandi. Fyrstu fjóra dagana tókum við á móti fleiri en 1.500 manns og ég vona að þetta haldi áfram svoleiðis. Draumurinn væri að fá 20.000 manns á torgið í ár, en ég fagna öllum sama hversu margir enda á því að koma.“

Að sögn Arnars er ekkert sem kemur honum í betra skap heldur en kakó, vöfflur, jólaglögg og skautasvell í desember, en hugmyndin að svellinu kviknaði árið 2015 í kjölfar þess að markaðsdeildin vann með Reykjavíkurborg að uppsetningu á svokölluðu „HM torgi“. „Okkur fannst því tilvalið að athuga hvort við ættum ekki að reyna gera eitthvað þarna í desember mánuði og þá kom einhver snillingur með þá hugmynd að þruma upp skautasvelli, sem er ekkert sérlega einföld framkvæmd, en það var ákveðið að kýla á þetta og í dag er þetta orðið töluvert stærri og flottari framkvæmd sem mun vonandi halda áfram á næstu árum.“

Opið verður á Novasvellinu á Ingólfstorgi frá hádegi til 22 á kvöldin alla daga fram að jólum og milli jóla og nýárs. Það kostar 990 krónur að leigja skauta, en þeir sem eiga sjálfir skauta frá frítt á svellið.