Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skátastarf endurvakið í Vogum
Miðvikudagur 3. febrúar 2010 kl. 08:49

Skátastarf endurvakið í Vogum


Sveitarfélagið Vogar og Skátafélagið Hraunbúar hafa gert með sér samkomulag um að endurvekja skátastarf í Vogum. Lögð verður áhersla á barna- og ungmennastarf og verður starfsemin rekin undir merkjum Vogabúa.

Markmiðið með samkomulaginu er að fjölbreytt barna- og ungmennastarf á vegum skáta komist á í Vogum. Skátafélagið Hraunbúar mun standa fyrir reglubundu skátastarfi auk þess að vera með útilífsnámskeið og mun mögulega hafa aðkomu að verkefnum á vegum Félagsmiðstöðvarinnar Borunnar. Þá munu skátar taka að sér verkefni fyrir sveitarfélagið s.s. að flagga í Aragerði á hátíðisdögum.

Skátastarf á sér nokkuð langa sögu í Vogunum, en hefur legið niðri síðustu ár. Með þessu samstarfi Skátafélagsins Hraunbúa og Sveitarfélagsins Voga er blásið nýju lífi í þessar gömlu glæður og markmiðið að skátastarf í Vogum verði lifandi og skemmtilegt á komandi árum. Starf skátanna fer af stað á næstu dögum og verður þá kynnt nánar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024