Skátar bjóða sumarið velkomið með skrúðgöngu
Löng hefð er fyrir því að halda Sumardaginn fyrsta hátíðlegan. Skátar um land allt setja hátíðlegan blæ á skrúðgöngur og er engin undantekning á þessu í Reykjanesbæ. Skátafélagið Heiðabúar bjóða ungum sem öldnum að koma í skrúðgöngu um bæinn og taka þátt í skátamessu og skemmtilegri skátadagskrá við skátaheimilið.
Skrúðgangan leggur af stað kl. 12:30 frá Skátaheimilinu við Hringbraut 101. Gengið verður um Hringbraut, Faxabraut, Hafnargötu, og Norðfjörðsgötu að Keflavíkurkirkju.
Skátamessan „Með sól í hjarta“ verður í Keflavíkurkirkju kl. 13. Þar verður söngur og gleði í fyrirrúmi. Arnór á píanóinu og ungmenni úr Vox Felix leiða söng.
Að lokinni messu verður skátafjör í skátaheimilinu þar sem boðið verður upp á skemmtilega skátadagskrá, leiki og hoppukastala fyrir krakka á öllum aldri.
Allir hjartanlega velkomnir og skátar á öllum aldri, virkir og óvirkir eru sérstaklega hvattir til að mæta og fagna sumrinu með okkur!