Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skátafélagið Heiðabúar með Útilífsskóla
Þriðjudagur 15. júní 2004 kl. 11:35

Skátafélagið Heiðabúar með Útilífsskóla

Fyrsta útilífsnámskeið Skátafélagsins Heiðabúa var dagana 7. –11. Júní í Sandgerði og tókst það mjög vel. Á þessu fyrsta útilífsnámskeiði voru átta eldhressir krakkar sem skemmtu sér vel í hinum ýmsu verkefnum og þrautum, s.s. í hellaferð, sundi, síga í klettum, elda yfir opnum eldi og á kajak svo fátt eitt sé nefnt.
Námskeiðið gekk mjög vel og hófst á því að við fórum í Kaldársel og skoðuðum helli, gengum nokkurn spöl að skógi og óðum svo í læknum að lokum. Námskeiðið endaði svo á einnar nætur útilegu sem heppnaðist mjög vel. Við fengum alveg æðislegt veður, sól og hita. Við tjölduðum við Háabjalla, fórum niður að Snorrastaðatjörnum og fórum á kajak og veiddum síli. Strákarnir blotnuðu "óvart" í fæturna og voru því komnir með ágætis ástæðu til að bleyta sig alla með sundi í tjörninni og sumar stelpurnar fylgdu á eftir!! Það var rosa gaman, enda veðrið frábært og tjörnin volg. Við veiddum rúmlega 30 síli og allir prófuðu kajakana.Þegar allir voru komnir í þurr föt  bökuðum við skonsur yfir varðeldi. Þær heppnuðust vel og drukkum við svala með.
Þá var komið að því að síga niður kletta! Sumir voru hræddari en aðrir en það gerðu samt allir tilraun til að síga.
Þegar allir voru búnir fundum við okkur greinar til að festa pulsurnar á, og hituðum við þær yfir eldi. Það var rosa sport og gaman og þá var komið kvöld enda kvöldmaturinn seint á ferðinni.
Eftir morgunmat fórum við aftur á kajakana þar sem allir fengu að róa tvisvar sinnum í viðbót. Strákarnir voru alveg búnir að finna út hvor kajakinn var hraðskreiðari og voru því að sjálfsögðu búnir að panta þann kajak sem strákakajakinn! Strákarnir voru samt svekktastir yfir því að það urðu að vera stelpa og strákur úti á vatninu í einu en ekki strákur og strákur, einmitt til að koma í veg fyrir spyrnur og jafnvel veltur!
Eftir skemmtilegar siglingar héldum við útí tjald og tókum saman allt dótið okkar, borðuðum nesti og héldum heim á leið.
Klukkan 2 komum við aftur í Sandgerði, þreytt eftir öfluga og skemmtilega útilegu!

Leiðbeinendur námskeiðsins eru Helgi V. V. Biering og Bergþóra Ólöf Björnsdóttir. Helgi starfar hjá skátafélaginu árið um kring en hann hefur einnig starfað í björgunarsveitum. Helgi hefur lokið Gilwellþjálfun og leiðbeinendanámskeiði 1. Bergþóra hefur starfað sem skáti í 9 ár og gegnt flokksforingja- sveitaforingja- ylfinga- og dróttskátaforingjastarfi. Hún hefur lokið skyndihjálpar- og útilífsnámskeiði hjá Bandalagi íslenskra skáta og árið 2002 hlaut hún forsetavörðuna.

Næstu útilífsnámskeið verða í:
Garðinum 21.-25. júní
Sandgerði 26.-30. júlí
Garðinum 3.-7. ágúst
Keflavík 9.-13. ágúst

Kveðja, Helgi V.V.  Biering

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024