Mannlíf

  • Skapar heildstæðara samfélag
    Guðjón ásamt Taina Peltonen, skóla- og menningarfulltrúa vinabæjarins.
  • Skapar heildstæðara samfélag
Sunnudagur 24. maí 2015 kl. 09:00

Skapar heildstæðara samfélag

Sýning á samstarfsverkefni Finna og Íslendinga í Sandgerði:

Um skeið hefur staðið yfir samstarfsverkefni milli Sandgerðisbæjar og vinarbæjar í Finnlandi, Mänttä-Vilppula. Guðjón Kristjánsson, skóla- og menningarfulltrúi Sandgerðisbæjar hefur leitt verkefnið og var afrakstur þess kynntur á Listatorgi fyrir skömmu. Sandgerðisbær hlaut fyrir tveimur árum Comenius Regio styrk úr Menntaáætlun ESB til að vinna að verkefninu, sem kallast Development of curricula and teacher training. Víkurfréttir kíktu á sýninguna og ræddu við Guðjón. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þetta verkefni snýst um að búa til námskrá í náttúrufræði og mynd- og handmennt, þar sem námsgreinarnar eru tengdar saman. Þá eru einnig tengd saman skólastig í bæjunum og skólarnir tengdir við umhverfið og stofnanir í bænum, segir Guðjón og að verkefnið hafi gengið ótrúlega vel. „Við höfum verið í þessu í eitt og hálft ár og hérna hjá okkur eru það grunnskólinn og leikskólinn sem eru að auka samstarf sín á milli. Og kennarar í náttúrufræði og mynd- og handmennt sín á milli. Síðan höfum við fengið stofnanirnar á Þekkingarsetrinu, sem er náttúrustofa suðvesturlands og háskólasetur Suðurnesja, til samstarfs við okkur líka. Hérna er það Listatorg sem heldur utan um listahlutann af verkefninu. Við höfum tengt þessar stofnanir allar saman og einnig heimsótt Finnana.“

Í Finnlandi er framkvæmt og síðan gerð námskrá

Guðjón segir meira listalíf vera í Mänttä-Vilppula en Sandgerði því hann sé einn af sex listabæjum Finnlands en Sandgerði á móti líklega sterkari á náttúrfræðisviðinu. „Það er dálítið gaman að sjá hvernig aðrir hafa nálgast þetta verkefni eftir þjóðum, því á Íslandi er sest niður, fundað og skrifuð niður námskrá og reynt að framkvæma hana. Í Finnlandi er byrjað á því að framkvæma eitthvað og síðan er sest niður og skrifað hvað hefur verið gert.“ Spurður um hvort slík aðferð væri eitthvað sem hann gæti séð fyrir sér að taka upp segir Guðjón það alveg koma til greina. „Það hefur líka verið gert í samstarfinu. Við höfum skipst á hráefnum og farið með ull, horn, fiskroð og fiskbein til að gera listaverk úr. Þau hafa fært okkur tré, timbur, trjábörk og annað efni sem unnið er úr trjám eins og pappír. Bærinn þeirra snýst um að framleiða úr trjám.“

Guðjón segir verkefni sem þetta hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið í Sandgerði. „Mér finnst það auka vitund stofnana um skólana og skólanna um stofnanirnar; tengja saman fólk á stöðunum og skapa heildstæðara og samfelldara samfélag. Skólinn hefur stundum verið svolítið ríki í ríkinu, einangraður, lítið farið út en núna er þetta orðið mikið breyttara. Það er verið að vinna saman á mörgum sviðum.“

VF/Olga Björt