Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Skapandi og skemmtilegt starf sem tengist jólahaldi í Njarðvíkurskóla
Laugardagur 29. desember 2018 kl. 12:34

Skapandi og skemmtilegt starf sem tengist jólahaldi í Njarðvíkurskóla

Það er alltaf líf og fjör í grunnskólum landsins í desembermánuði. Þá finnst mörgum nemendum mjög gaman að taka þátt í öllu því skemmtilega og skapandi starfi sem tengist jólahaldinu. Þennan mánuð er óvenju mikið föndrað í skólum, sungnir jólasöngvar og helgileikur æfður. Svo endar þetta yfirleitt allt í einum stórum viðburði á sal skólans þar sem dansað er í kringum jólatréð, horft á helgileik eða það er alla vegana gert í Njarðvíkurskóla. Þangað fórum við og forvitnuðumst aðeins um jólahald skólans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gleði og eftirvænting

„Hér er mikið fjör í desember en við ákváðum að dempa okkur aðeins niður fyrstu vikuna í desember þetta árið til að halda nemendum einbeittum við námsefnið. Eftir annan í aðventu byrjuðum við svo með jólasöngva á sal í ár. Nemendur hafa svo gaman af jólastemningunni í skólanum í desember og taka virkan þátt. Verkefnin eru oft jólatengd en þá búa kennarar til sérstök vinnuhefti tengd hátíðarhaldinu. Það skiptir einnig máli að kennararnir séu jákvæðir gagnvart jólafjörinu í desember. Maður upplifir meira af anda jólanna þegar við erum í kringum börnin í desember, því þau eru svo spennt. Að vinna í skóla í desember skapar jólagleði fyrir börnin og okkur í leiðinni. Það er markmiðið að allir komist í jólaskap,“ segir Ásgerður Þorgeirsdóttir skólastjóri.



Jólalegasta jólahurðin

Margir gluggar í Njarðvíkurskóla eru sérlega fallega skreyttir með litríkum klippimyndum sem sýna ýmis tákn tengd jólum. Þessar gluggaskreytingar eiga sína sögu fékk blaðamaður að vita en Guðný heitin Þorsteinsdóttir, fyrrum myndmenntakennari við skólann, útbjó þær og hannaði árið 1985. Hún fékk nemendur til liðs við sig ásamt Helgu heitinni Magnúsdóttur sem einnig var þá kennari við skólann.

„Við fengum athugasemdir frá íbúum þegar við settum ekki upp þessar klippimyndir ein jólin því fólki finnst þetta svo hátíðlegt. Það finnst okkur einnig. Um jólin eru ákveðnar hefðir og þegar einhverri hefð er sleppt þá saknar fólk þess yfirleitt. Í desember erum við með gamlar, góðar hefðir og svo búum við stundum til nýjar. Ein af þeim nýrri er samkeppni sem við köllum jólalegasta jólahurðin en þá skreyta nemendur dyrnar að skólastofunni sinni eins flotta og þeim dettur í hug. Það skapast einskonar hópefli innan hvers bekkjar og mikill spenningur í nemendum um hvaða jólahurð vinnur það árið. Unglingunum okkar finnst þetta ógurlega gaman. Viðurkenning er veitt þeim bekk sem sigrar en úrslitin í ár eru ráðinn með rafrænni kosningu meðal starfsfólks,“ segir Ásgerður sposk.

Hefðirnar eru fleiri hjá Njarðvíkurskóla og ein þeirra er sérlega skemmtileg en það er hátíðarmatur á sal þegar kennarar þjóna til borðs.

„Við erum með mjög hátíðlegan dag rétt fyrir jól þegar allir nemendur setjast til borðs í tveimur hollum á matsal og við starfsfólkið þjónum þeim til borðs. Þetta er mjög skemmtileg stund. Svo erum við einnig með nýja hefð en það er þegar nemendur mæta í jólalegum fötum og það þurfa ekki að vera jólapeysur þó að margir mæti í þeim en þau mega teygja þetta hugtak og mæta í grænum eða rauðum sokkum ef þau vilja. Þeim finnst þetta mjög gaman. Jólasöngvar á sal nokkra morgna í desember er einnig vinsælt en það er undirbúningur fyrir jólaballið síðasta daginn fyrir jól þegar allir nemendur dansa í kringum jólatréð á sal. Gamaldags og skemmtilegt jólaball. Svo er ein hefð sem við höfum alltaf haldið inni en það er aðventustund í kirkjunni. Við sjáum að krökkunum finnst þetta hátíðleg stund og þau upplifa ró og frið.


Lesum fleiri bækur

Margir grunnskólar eru með allskonar átak í gangi til að fá nemendur til að lesa meira af bókum. Það er sagt að ef nemendur fá ekki ást á bókum þegar þau eru yngri þá verður seint hægt að fá þau til þess að sækja í bókalestur seinna. Bókalestur skiptir máli og að nemendur sjái foreldra sína blaða í bók skiptir einnig máli því þau eru fyrirmyndirnar sem börnin horfa til. Ef þau sjá foreldra sína bara hlusta á bækur þá vilja þau einnig bara vera með hljóðbók en undirstaðan verður að byrja í venjulegri bók og að lesa upphátt til að byrja með. Það er lestrarþjálfun sem skilar meiri árangri seinna meir.  

„Við erum búin að fá ótalmarga höfunda í heimsókn. Þetta fólk sem skrifar fyrir krakkana er svo skemmtilegt fólk og nær svo vel til nemendanna. Þetta eru hálfgerðir skemmtikraftar. Skólinn fær þessa höfunda í heimsókn því það hefur sýnt sig að nemendur vilja frekar lesa bækur eftir að hafa hlustað á höfundana lesa sjálfa upp úr bókum sínum. Þetta örvar og hvetur nemendur til að lesa meira af bókum og það viljum við að þau geri. Börn verða að þjálfast í lestri á meðan þau eru ung svo þau hafi góðan lestrargrunn í framtíðinni,“ segir Ágerður að lokum.