Mannlíf

Skáldasuð
Gunnhildur Þórðardóttir, myndlistarmaður og ljóðskáld, hlýðir á ljóðaupplesturinn. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 15. mars 2024 kl. 06:03

Skáldasuð

– Lítil ljóðahátíð á Suðurnesjum

Ljóðahátíðin Skáldasuð var opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 7. mars síðastliðinn og stendur til 21. þessa mánaðar en þessi litla ljóðahátíð er hugarfóstur myndlistarmannsins Gunnhildar Þórðardóttur sem er einnig ljóðskáld.

Hátíðin hófst með opnun á myndverkum Gunnhildar tengdar ljóðaverkefnum hennar. Sýning Gunnhildar nefnist Kjarni þar sem listamaðurinn sýnir eins konar kjarna af sínum verkum en höfundur vinnur jafnt í texta sem listaverkum, bæði tví- og þrívíðum. Þá var einnig ljóðaupplestur með skáldunum Antoni Helga Jónssyni, Valdimar Tómassyni, Guðmundi Brynjólfssyni, Ólafi Sveini Jóhannssyni og þá las Gunnhildur Þórðardóttir einnig upp úr ljóðabók sinni Dóttir drápunnar ljóð úr djúpinu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Ljóðskáldin Guðmundur Brynjólfsson, Valdimar Tómasson, Gunnhildur Þórðardóttir, Anton Helgi Jónsson og Ólafur Sveinn Jóhannsson lásu upp ljóð eftir sig sem gestir kunnu vel að meta.
Gestir skemmtu sér hið besta yfir ljóðalestrinum.

Annað upplestrarkvöld verður haldið fimmtudaginn 14. mars nk. þar sem ljóðskáldin Draumey Aradóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Eygló Jónsdóttir og Guðmundur Magnússon koma fram.

Laugardaginn 16. mars frá kl. 12 til 14 verður svo haldin ljóðasmiðja fyrir börn og ungmenni en hátíðin er hugsuð fyrir börn jafnt sem fullorðna. Ljóðasmiðjan er í samvinnu við Reykjavíkurdætur, þær Steinunni og Ragnhildi, en það þarf vart að kynna þær þar sem Reykjavíkurdætur komu eins og stormsveipur inn í íslenskt tónlistarlíf fyrir nokkrum árum. Þær Ragga, sem er frá Keflavík, og Steinunn hafa unnið margar ljóðasmiðjur með grunnskólabörnum og nú munu þær koma til Keflavíkur. Ragga Holm er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og hefur haldið margskonar námskeið fyrir grunnskólabörn, unglingadeildir og menntaskóla.

Steinunn hefur síðan 2011 starfað sem tónlistarkona og danskennari og gert ýmsar smiðjur fyrir börn og ungmenni. 

Á sama tíma verða til sýnis ljóð í Sundmiðstöðinni Vatnaveröld. Þar munu koma fram ljóðskáld sem tóku þátt í öðru verkefni listamannsins Gunnhildar Þórðardóttur, Skáldaskápur, en það verkefni var leið til að kynna ljóðið og þar sem ný ljóðskáld frá Suðurnesjum bókstaflega komu út úr skápnum sem ljóðskáld. Skáldaskápur stóð yfir í hálft ár (2021–2022) og í hverju bókasafni á Suðurnesjum var kynnt ljóðskáld frá viðkomandi stað. Einnig verða til sýnis í sundlauginni ljóð eftir þekkt skáld frá Suðurnesjum, s.s. Erling Jónsson, Kristinn Rey, Þorstein Eggertsson og Sigvalda Kaldalóns.

Skáldasuð er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Skáldasuð