Skál í skúrnum
Hverjir kannast ekki við sneisafullan bílskúr af dóti og drasli, sem engin þörf er á en er samt algerlega ómissandi? Einhverjir að minnsta kosti. Ég komst að því þegar við hjónin ákváðum að klára að klæða skúrinn að innan, sem auðsjáanlega hafði orðið útundan þegar byggingin reis. Þessir rúmlega þrjátíu fermetrar voru öllu líkari lélegri vinnuaðstöðu verktaka en búsetu fyrir eðalvagninn. Kom reyndar bíldruslunni einu sinni inn í kofann með miklum forfæringum og það eingöngu til þess að berja í hjólaskálarnar, sem kvörtuðu sáran. Átti samt erfitt um vik enda dótið fyrirferðarmikið.
Ég ímyndaði mér að auðvelt yrði að ná í smið eða rafvirkja, þeir lægju á lausu og sætu verkefnalausir í hrönnum. Byrjaði að suða í smiðum síðastliðinn vetur og þegar vorið leið án sýnileika, sá ég mér þess kost vænstan að ráðast í verkið sjálfur. Óklæddur bílskúr er ekkert skrifstofujobb og þó ég telji mig slakfæran í ýmislegt, þá kveið ég verkefninu og fann mér önnur sumarverk í staðinn. Það haustaði snemma og ekki um annað að ræða en að hefjast handa enda fáir veiðitúrar í farvatninu. Fékk góð ráð hjá félögunum og engin þeirra eins. Blessunarlega áttu þeir þó einnig verkfæri til að lána mér. Fann rafvirkja á lausu sem vorkenndi vargnum. Betra að huga vel að öllu áður en skrifstofublókin mundar hamarinn.
Dótið fékk fararleyfi í geymslu svo hægt væri að aðhafast. Fimm kerrur kvöddu kofann og ein fór á haugana. Hefði átt að vera öfugt. Safnaði kjarki og hófst handa. Yndislegir laugardagar með Sigga Hlö og sunnudagar með Hemma Gunn. Verkið líður áfram og stefnan er tekin á að ljúka því á aðventunni. Þreytan og siggið í lófunum slagar í góða vertíð og með sama áframhaldi verður þetta minn sælureitur, þekki hverja þjöl og hvern þumlung. Gömlu Marantz hljómflutningsgræjurnar fá sinn heiðursess í byrginu og annað dót finnur sitt fleti aftur. Legg til við alla safnara að gera hreint fyrir sínum dyrum, skúrinn á það skilið!
Valur Ketilsson