Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Skaðaminnkandi samfélag á Suðurnesjum
Jóhanna og Vala sjálfboðaliði í bíl Frú Ragnheiðar í Reykjanesbæ.
Þriðjudagur 7. desember 2021 kl. 15:26

Skaðaminnkandi samfélag á Suðurnesjum

Rauði krossinn á Suðurnesjum bauð nýverið fagfólki sem vinnur með heimilislausum einstaklingum og þeim sem nota vímuefni um æð, til fræðslu í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ. Svala Jóhannesdóttir, félags- og fjölskyldumeðferðarfræðingur, sá um fræðsluna en hennar sérsvið er skaðaminnkandi nálgun og meðferð. Svala hefur mikla reynslu í skaðaminnkun og er hún einnig fyrrverandi verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á höfuðborgarsvæðinu og Konukots.

Skaðaminnkandi hugmyndafræði er mannúðleg og gagnreynd nálgun í starfi með einstaklingum sem glíma við vímuefnavanda. Hugmyndafræðin viðurkennir að margir sem hafa þróað með sér vímuefnavanda treysta sér ekki til eða vilja ekki hætta notkun á tilteknum tíma, vegna margvíslegra ástæðna. Hugmyndafræðin leggur áherslu á að fyrirbyggja áhættu og skaða (afleiðingar) sem fylgir notkun löglegra og ólöglegra vímuefna, fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Skaðaminnkandi nálgun er viðbót við þau meðferðarúrræði og forvarnir sem eru til staðar í samfélaginu og vísar til stefnu, úrræða og verklaga. Hugmyndafræðin gagnast fólki sem glímir við vímuefnavanda, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi og samfélaginu í heild.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í skaðaminnkun er lögð áhersla á að mæta einstaklingum þar sem þeir er staddir hverju sinni, að virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra og að sýna þeim virðingu, skilning og samhygð. Lögð er áhersla á að virkja áhugahvöt og styrkja öll lítil skref í átt að jákvæðum breytingum hjá fólki. Kjarni skaðaminnkunar snýr að lýðheilsu og mannréttindum fólks sem notar vímuefni.

Frú Ragnheiður er þekkt verkefni í skaðaminnkun sem Rauði krossinn á Suðurnesjum hefur rekið í rúmlega eitt ár með góðum árangri. Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir fer fyrir verkefninu sem verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum.

Svala Jóhannesdóttir sem er fædd og uppalin í Keflavík er sérfræðingur í skaðaminnkun og hefur þróað og innleitt skaðaminnkandi inngrip hér á landi og stýrt skaðaminnkandi úrræðum, m.a. Frú Ragnheiði á höfuðborgarsvæðinu og neyðarathvarfi fyrir heimilislausar konur. Svala hefur starfað með fólki sem glímir við þungan vímuefnavanda og heimilisleysi frá 2007 og þekki vel stöðu hópsins hér á landi.

Víkurfréttir hittu þær Jóhönnu og Svölu eftir fræðslufundinn í Íþróttaakademíunni þar sem þær sögðu okkur frá skaðaminnkandi samfélagi á Suðurnesjum. Þá hittum við einnig þær Jóhönnu og Völu Ósk Ólafsdóttur, sem er sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði þegar þær voru að undirbúa bílinn fyrir verkefni Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum.

Jóhanna Sigurbjörnsdóttir og Svala Jóhannesdóttir.


Þurfum að nálgast fólk af virðingu og mannúð

Jóhanna, hvernig birtist Frú Ragnheiður á Suðurnesjum?

„Frú Ragnheiður á Suðurnesjum er búin að vera í þróun í nokkur ár. Við vorum búin að sjá að það væri þörf fyrir þetta hér á Suðurnesjum. Við byrjuðum fyrir ári síðan og voru með 138 heimsóknir á síðasta ári. Það voru tíu karlmenn og fimm konur sem nýttu sér þjónustuna, alveg frá tvítugu og uppúr. Frú Ragnheiður er á ferðinni tvisvar í viku á Suðurnesjum, á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 20 til 22. Þá eru tveir sjálfboðaliðar á ferðinni. Einn afturí og svo helst heilbrigðismenntaður einstaklingur.“

Hvað eruð þið að gera?

„Við erum að hitta skjólstæðinga og veita þeim sálrænan stuðning. Við gefum þeim hreinar nálar og fræðum þau um hætturnar en allt á þeirra forsendum. Við gefum þeim box og fáum þau til að farga búnaðinum og við förguðum 47 lítrum af búnaði eins og nálum og öðru á síðasta ári. Þetta er búnaður sem annars gæti t.d. fundist í nærumhverfinu.“

Þið eruð ekki á þeim stað að gefa neysluskammta?

„Nei, við erum ekki að gera þess háttar. Við erum að fræða þau og við spyrjum að því hvort við megum spyrja hvað þau séu að nota því stundum eru mjög hættuleg efni í umferð. Ég fær skýrslu eftir vaktina og ég reyni að vera í sambandi við skjólstæðinga og þá sérstaklega yngri kynslóðina og konur sem við höldum sérstaklega vel utan um. Ég hef, alveg sama þó fólk sé að verða edrú, aðstoðað þau og komið þeim í viðtöl við félagsráðgjöfum og læknum. Við höfum nýtt okkur prestana á Suðurnesjum þegar það er verið að opna á sálræn áföll, því það er biðtími í sálfræðiþjónustu. Svo erum við að reyna að koma þeim sem vilja inn í Virk í starfsendurhæfingu. Þau komast þangað eftir að hafa verið edrú í þrjá til sex mánuði.“

Mannúðleg og gagnreynd nálgun

Svala, þú hefur nú heldur betur komið nálægt þessum málum. Segðu okkur um hvað þetta snýst.

„Skaðaminnkun er mannúðleg og gagnreynd nálgun í að reyna að aðstoða fólk sem glímir við vímuefnavanda. Í dag vitum við út frá rannsóknum og vísindum að það skilar mun betri árangri að koma fram við fólk af mannúð og skilningi og við erum svolítið í dag að færa okkur frá refsistefnu. Með því erum við að reyna að nálgast fólk á þeirra eigin forsendum og reyna að skilja hvers vegna aðilinn er að nota vímuefni og af hverju getur hann ekki hætt. Í því orsakasamhengi erum við að reyna að koma með inngrip þar sem við erum raunverulega að aðstoða þau við að lifa af og að þau verði fyrir sem minnstum skaða og áhættu. Við erum byrjuð að reyna að skoða hvað við getum gert til að aðstoða þau við að taka jákvæð skref í átt að bata. Markmiðið er alltaf umhyggja og hlýja og að mæta fólki án fordóma.“

Hver eru yfirleitt viðbrögð fólks sem er í þessari vímu og þið eruð að hjálpa?

„Þau eru bara nær alltaf rosalega jákvæð. Þegar ég segi jákvæð, þá er oft mikið þakklæti þegar maður nálgast fólk út frá skaðaminnkandi hugmyndafræði. Við erum að mæta þeim á þeim stað sem þau eru að alltaf að reyna að minnka áhættuna og skaðann. Að láta þau hafa hreinan búnað til að draga út áhættu á að þau fái HIV eða lifrarbólgu C smitum og alvarlegum sýkingum. Það sem skiptir líka svo miklu máli er að þegar þú hittir fólk á þess eigin forsendum þá getur þú veitt svo góða fræðslu. Þau hér á Suðurnesjum eru að eiga samtal um áhættuna og að aðstoða við að lifa þennan kafla af.“

Þetta er mun stærra svið á höfuðborgarsvæðinu?

„Verkefnið á höfuðborgarsvæðinu er töluvert stærra. Mér skilst að í dag séu það 600 einstaklingar á ári sem leita þangað og um 4.000 heimsóknir. Verkefnið á höfuðborgarsvæðinu er að ná í mjög stóran hóp af fólki sem er með alvarlegan vímuefnavanda og er líka að glíma við heimilisleysi, þannig að bíllinn er að keyra um allt höfuðborgarsvæðið og hitta á fólk og aðstoða þau.“

Mikilvæg hugmyndafræði

Svala var fyrirlesari á fræðslufundi um skaðaminnkun og Frú Ragnheiði sem haldinn var í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ á dögunum. Hún sagði mikilvægt að fá að koma og tala um mikilvægi þessarar hugmyndafræði að allir sem koma að málaflokknum geti komið saman og séu að vinna þetta í sameiningu. Þar á Svala við fólk í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu, sjúkraflutningamenn, lögreglumenn og presta sem geta komið saman og átt samtal.

Hvernig finnst ykkur staðan í dag, hefur orðið góður árangur?

„Við sjáum að þeir sem nýta sér skaðaminnkandi þjónustu að þar er góður árangur. Við sjáum að þeir sem mæta reglulega og taka á móti þjónustu og stuðningi, að heilsa þeirra er betri en ef þeir væru ekki að koma. Við sjáum líka að þessir einstaklingar eru að valdeflast í sínum aðstæðum og þeir hafa stað til að óska eftir aðstoð og leiðbeiningu þegar þeir vilja mögulega taka næsta skref í að hætta vímuefnanotkun, komast í geðþjónustu eða fá aðstoð við að fá mat. Við sjáum það bæði hér heima og erlendis að sú aðferð að refsa fólki fyrir að vera með vímuefnavanda er ekki að skila þeim árangri sem við vonumst eftir. Við þurfum að nálgast fólk af virðingu og mannúð og þurfum í raun að hætta að refsa veiku fólki. Þegar maður vinnur í svona mikilli nálægð við fólk sem við köllum í undirheimunum með alvarlegan vímuefnavanda, þá vitum við að það er í raun skaðlegt og hættulegt að refsa fólki fyrir að vera með vímuefnavanda. Við eigum að koma til móts við fólk af mannúð. Einu sinni fannst okkur eðlilegt að loka fólk inni og refsa sem er með geðraskanir. Einu sinni fannst okkur eðlilegt að refsa fólki sem er samkynhneigt og það er eiginlega það sama sem á við um vímuefnavanda. Við erum að færast frá þessu og vísindin og rannsóknir eru að sýna okkur að þetta er ekki að skila árangri. Ef við viljum hámarka árangurinn og viljum raunverulega aðstoða fólk sem er að glíma við alvarlegan vímuefnavanda, þá skiptir máli að sýna virðingu og mannúð. Við verðum að aðstoða þau á þeim stað sem þau eru og bjóðum þau velkomin í stað þess að ýta þeim út á jaðar samfélagsins.“

Jóhanna, hvernig eruð þið að nálgast þetta fólk?

„Það er með ýmsum hætti. Við höfum m.a. verið í samstarfi við Björgina, geðræktarmiðstöð Suðurnesja, og hún hefur komið á tengslum. Við erum í miklu samstarfi við Reykjavíkurdeildina. Við tökum vaktir í Reykjavík og ég fer þangað með sjálfboðaliða því þar fá þau ótrúlega mikla reynslu og innsýn í þennan heim.“

Gengur vel að fá sjálfboðaliða

Hvernig gengur að fá sjálfboðaliða?

„Það gengur bara nokkuð vel. Það hefur verið erfiðast með heilbrigðisstarfsfólkið en við erum með lækni og hjúkrunarfræðing. Læknar á HSS eru á bakvakt hjá okkur. Ef það kemur einstaklingur með sýkingu inn í bílinn til okkar þá sendum við oftast myndir og í sumum tilvikum fer ég með þau í sýklalyfjagjöf og það hefur reynst mjög vel. Við vitum að það er ennþá stór hópur þarna úti sem við erum að reyna að nálgast.“

Áður en verkefni Frú Ragnheiðar var hleypt af stokkunum á Suðurnesjum var gert mat á þörf fyrir þjónustuna. Þá var talið að 36 einstaklingar væru í þörf fyrir þjónustu eins og þá sem Frú Ragnheiður veitir. Jóhanna telur að í dag sé þetta jafnvel stærri hópur en það. Hún hafi sjálf hitt einstaklinga í Reykjavík sem séu héðan af svæðinu og þá sé erfiðara að hitta alla þegar bíllinn er bara á ferðinni tvo daga í viku. „Við getum hins vegar allt til að nálgast þennan hóp þó það sé utan þess tíma sem starfsemin er í gangi.“

Bílaleigan Geysir hefur verið Frú Ragnheiði innan handar með bíl fyrir starfsemina og hefur tryggt bíl í verkefnið út janúar næstkomandi. Notast er við húsbíl fyrir verkefnið og nú er verið að athuga með kaup á bíl fyrir Frú Ragnheiði á Suðurnesjum. Velferðarráðuneytið styrkti nýlega Frú Ragnheiði um tuttugu milljónir fyrir árið 2021 en verkefnin eru þrjú, á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Akureyri. Af þessum milljónum renna tvær til Suðurnesja.

Hvernig er tekið á móti skjólstæðingum Frú Ragnheiðar í bílnum? Jóhanna svarar því:

„Við bjóðum fólk velkomið og spyrjum hvernig dagurinn hafi verið. Það er opnunin hjá okkur og þá fáum við stundum að heyra að dagurinn hafi verið erfiður en það kemur líka fyrir að fólk eigi góða daga og deila því með okkur líka. Við erum fyrst og fremst að mæta fólki á þeim stað þar sem það er statt og það eru almenn mannréttindi. Við erum að reyna að draga úr þeim skaða sem af notkun fíkniefna getur orðið og halda fólki á lífi, það er líka markmið.

Það er ýmislegt sem er inni í skaðaminnkuninni og fellur undir hana.“

Verkefni sem vinnur að skaðaminnkun

Þið notið mikið þetta orð skaða­minnkun.

„Já, við erum verkefni sem vinnur að skaðaminnkun. Þá erum að að tala um að þessir einstaklingar eru jafnvel svolítið einir og hafa kannski lítið bakland. Þá erum við líka að reyna að draga úr þeim skaða sem getur orðið í samfélaginu af notkuninni hjá þeim. Þess vegna fá þau hjá okkur nálar og dælur. Við gefum þeim líka box til að ganga frá búnaðinum og við förgum því svo. Þau fá næringu hjá okkur, sálrænan stuðning og skaðaminnkandi samtal. Þau fá hjá okkur hlý föt og teppi og það er fullt af fólki sem er að prjóna fyrir okkur. Við fáum ullarpeysur, sokka og vettlinga.“

Talandi um nálar. Þið leggið áherslu á að þau noti nálar bara einu sinni?

„Já, við leggjum áherslu á það. Við það að stinga nál einu sinni inn í húðina þá getur hún rifið til og rofið æðina. Það er ótrúlegt að horfa á nálar í smásjá og sjá hvað gerist, svo við viljum að fólk hafi greiðan aðgang að nálum.“

Vala er sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði á Suðurnesjum og okkur lék forvitni á að vita hvað hafi drifið hana áfram í verkefnið.

„Bara að geta unnið með fólki. Þetta fólk á kannski ekki marga að og fær ekki þennan skilning. Að fá að vinna með fólki og mæta því á þeim stað þar sem það er og sýna því virðingu,“ segir Vala. Hún er menntaður sjúkraliði og er að læra félagsráðgjöf og segist vilja vinna með fólki og Frú Ragnheiður sé í raun áhugamál hjá henni.

Þið eruð að taka á móti fólki sem er í neyslu og vandræðum. Hafið þið lent í hættu í þessu starfi?

„Nei, aldrei. Ég man eftir einum sem varð svolítið reiður en hann ógnaði okkur ekki neitt. Hann hringdi daginn eftir og baðst afsökunar. Þau bera ótrúlega mikla virðingu fyrir verkefninu Frú Ragnheiði, það er óhætt að segja það,“ segir Jóhanna og Vala tekur undir þau orð. „Ég hef aldrei upplifað mig að mér væri ógnað eða að ég væri hrædd, bara langt því frá.“

Á ferðinni tvisvar í viku

Bíll Frú Ragnheiðar er á ferðinni á mánudögum og fimmtudögum milli kl. 20 til 22. Nafnspjöld með símanúmerinu í bílnum liggja víða frammi og þá er starfið vel kynnt á Facebook. „Þau bara hringja og við hittum þau bara einhverstaðar þar sem þau treysta sér til að hitta okkur. Sum fá okkur heim til sín. Við erum heppin að hafa þennan bíl frá Geysi og í honum er gott að eiga opið samtal við skjólstæðinga okkar. Stundum þurfum við að fara í sálrænan stuðning og það er ýmislegt sem gerist í lífi þessa fólks,“ segir Jóhanna.

Vala segir sjálfboðaliðastarfið í Frú Ragnheiði vera skemmtilegt og gefandi. Jóhanna segir skjólstæðinga verkefnisins bera virðingu fyrir starfseminni og þannig hafa sjálfboðaliðarnir ekkert að óttast. „Við berum líka virðingu fyrir þeim og mætum þeim sem manneskjum,“ segir hún.

Þið eruð ekki að ráðleggja fólki að hætta neyslu?

„Nei, það gerum við ekki enda nóg af öðru fólki í þeim málum. Við grípum boltann ef þau fara að tala um það og könnum þá hvort þeim sé alvara með þessu og þá aðstoðum við þau, ef þau vilja – en við gerum allt á þeirra forsendum.“

Texti og myndir: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson