Sjúkraliði dúxar í fótaaðgerðafræði
Sandra Friðriksdóttir útskrifaðist í síðustu viku úr fótaaðgerðafræði Heilsuakademíu Keilis og hlaut hún 9,65 í meðaleinkunn sem er sú hæsta í sögu skólans meðal útskriftarnema fótaaðgerðafræðinnar. Sandra, sem er einnig lærður sjúkraliði, sagði að mikill áhugi á námsefninu, aðstoð kennara, hjálpsemi og skemmtilegur félagsskapur bekkjarfélaga hafi lagt grunninn að þessum árangri. Að auki krafðist þetta mikillar skipulagningar, sérstaklega í ljósi þess að Sandra er þriggja barna móðir.
Sandra, sem er fædd og uppalin á Akureyri, býr nú í Hafnarfirði ásamt manni sínum, fimm ára syni, sex ára dóttur og sextán ára stjúpsyni. Sandra útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2011 og kláraði hún stúdentinn að auki ári seinna. Hún starfaði sem sjúkraliði síðustu tvö árin áður en hún settist aftur á skólabekk til að læra fótaaðgerðafræði.
Heillaði mikið að geta ráðið sínum vinnutíma sjálf
Eftir að hafa unnið sem sjúkraliði í tvö ár langaði hana að læra meira.
„Laun sjúkraliða mættu vera mikið betri og að auki hentar vaktavinna ekki alltaf vel þegar maður á orðið stóra fjölskyldu. Þá var ekki annað í stöðunni heldur en að drífa mig aftur í skóla og láta verða að því að fara í fótaaðgerðafræðina, enda heillaði það líka mikið að geta ráðið mínum vinnutíma sjálf.“
Nám í fótaaðgerðafræði hafði lengi heillað Söndru eftir að hafa kynnst náminu í gegnum vinkonu sína sem lærði þetta fyrir nokkrum árum. Sandra segist jafnframt alltaf hafa verið meðvituð um að hana langaði til að læra meira. „Það var bara spurning hvenær ég færi og hvað það yrði nákvæmlega sem ég ætlaði að læra. Þetta snerist líka um það að ég hafði verið að fresta því að fara í skóla út af börnunum og var ekki tilbúin að fara í nám meðan þau voru lítil, því ég vildi geta einbeitt mér vel að náminu, en þetta nám er einmitt mjög hentugt þegar maður er komin með fjölskyldu.“
Krefjandi að byrja aftur í námi
„Það var mjög krefjandi að fara aftur í skóla eftir átta ára pásu, verandi komin með stóra fjölskyldu í þokkabót. Það hjálpaði mikið að námið væri kennt í lotum, eina vikuna ertu heima að læra og hina ertu uppi í skóla að læra. Þetta kemur sér rosalega vel þegar maður er komin með heimili. Auðvitað var maður smá stund að koma sér í rútínu og það þarf að skipuleggja sig mjög vel og vera með góðan sjálfsaga.“
Fjölbreytnin við fótaaðgerðafræði heillar
Fjölbreytnin við starfið og möguleiki til að ráða sínum vinnutíma heillar mest við það að starfa sem fótaaðgerðafræðingur að sögn Söndru. Fótaaðgerðafræði snýr vissulega ekki bara að því að klippa táneglur og taka sigg, eins og Sandra sjálf viðurkennir að hafa haldið áður.
Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina og meðhöndla þau fótamein sem ekki krefjast sérhæfðari læknisfræðilegrar meðferðar. Meðal verkefna fótaaðgerðafræðinga er hreinsun á siggi og nöglum, líkþornameðferð, vörtumeðferð, hlífðarmeðferð sem og ráðleggingar varðandi fótaumhirðu með þau markmið að minnka verki, dreifa álagi og bæta göngulag. Fótaaðgerðafræðingar útbúa jafnframt spangir, hlífar, leppa og innleggssóla.
„Við lærum einnig mikið um sykursýki og gigt enda getur verið gífurlega mikilvægt fyrir þessa hópa að koma reglulega í fótaaðgerð. Það sem heillar mig einnig við starfið er að vinna náið með fólki og kynnast því. Það er rosalega góð tilfinning þegar kúnninn labbar út frá þér og þú sérð hvað það getur breytt miklu fyrir viðkomandi að hafa komið.“
Samheldinn hópur það sem stendur mest upp úr
Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni í húsnæði Keilis á Ásbrú þegar nemarnir í fótaaðgerðafræðinni voru í húsi og mátti oft heyra hlátrasköll eftir göngunum. „Þó svo að ég sé rosalega þakklát fyrir námið mitt og yndislega kennara þá verð ég að segja að stelpurnar í bekknum mínum fá heiðurinn að því hvað stendur upp úr. Þarna eignaðist ég yndislegar vinkonur sem gerðu tímann minn í skólanum frábæran og það kom aldrei sá dagur sem ég hlakkaði ekki til að mæta í skólann, enda hlegið mestallan tímann. Við vorum langflestar að koma aftur í nám eftir mislangar pásur og meirihlutinn komin með börn líka. Þannig við vorum allar á svipuðum stað og komum held ég langflestar ef ekki allar með það í huga að hafa gaman og kynnast hvor annarri.“
Hefur störf á fótaaðgerðafræðistofunni Lipurtá
Sandra mun hefja störf á fótaaðgerða- og snyrtistofunni Lipurtá í Hafnarfirði um leið og hún fær starfsleyfið í hendurnar frá Embætti landlæknis. Hún stefnir jafnframt á frekara nám tengt fótaaðgerðafræðinni í framtiðinni, hvort sem það verður hér heima eða erlendis. „Svo er auðvitað freistandi að hafa á bak við eyrað að geta einhvern tímann farið í eigin rekstur,“ sagði Sandra að lokum.
Keilir bauð í fyrsta skipti upp á nám í fótaaðgerðafræði vorið 2017 og hafa síðan þá útskrifast samtals 40 fótaaðgerðafræðingar. Nám í fótaaðgerðafræði er viðurkennt starfsnám á þriðja hæfniþrepi samkvæmt reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Fótaðgerðafræðingur er lögverndað starfsheiti og veitir Embætti landlæknis útskrifuðum nemendum starfsleyfi.