Sjúkraliðanám opnar ýmsar dyr
Fjölmargar ástæður eru fyrir því að velja sjúkraliðanám eins og sést á viðtölum við eftirfarandi aðila. Sjúkraliðastarfið er gefandi og skemmtilegt. Starfsumhverfi sjúkraliða býður upp á tækifæri til að stýra starfshlutfalli og vaktafyrirkomulagi.
Starfsmöguleikar eru margvíslegir og óháðir búsetu því sjúkraliðar eru eftirsóttir um allt land. Góðir möguleikar á ná framgangi í starfi og um leið hærri launum.
Sjúkraliðastarfið er þroskandi og hvetjandi og gefur innsýn inn í fjölbreytileika mannlífsins.
Við Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur sjúkraliðabraut verið starfrækt frá árinu 1989 og þaðan hafa fjölmargir nemendur útskrifast, þeir sem starfa sem sjúkraliðar og þeir sem fóru seinna í hjúkrunarfræðinám eða annað.
Víkurfréttir höfðu samband við Ásu Einarsdóttur, fagstjóra sjúkraliðabrautar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, og spurðu hana út í námið, einnig voru tveir nemendur teknir tali sem stunda nám á sjúkraliðabraut.
Áhersla lögð á hjúkrun og heilbrigðistengdar greinar
Ása Einarsdóttir hefur starfað við sjúkraliðabraut FS síðan í janúar árið 1989. Sjálf er hún með BS próf í hjúkrunarfræði og MA próf í uppeldis- og menntunarfræði. Áður starfaði Ása sem hjúkrunarfræðingur á Landakoti, á gjörgæslu og skurðdeild, sjúkrahúsinu á Húsavík og við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sjúkradeild og heilsugæslu.
„Nám á sjúkraliðabraut hjá FS hefur verið í boði síðan árið 1989. Nemendur taka fyrst og fremst áfanga í hjúkrun, bæði bóklega og verklega, og aðra heilbrigðistengda áfanga í líffæra- og lífeðlisfræði, sjúkdómafræði, lyfjafræði, samskiptum, siðfræði, sýklafræði og sálfræði,“ segir Ása.
Vantar fleiri karlmenn
Verkleg þjálfun er stór þáttur í náminu og fer hún fram bæði á Suðurnesjum og í Reykjavík.
„Vinnustaðanám nemenda fer fram á Landspítala og HSS undir handleiðslu reynds sjúkraliða og hjúkrunarkennara frá skólanum. Nemendur okkar hafa aðallega verið af Suðurnesjum, langflestir eru konur, af rúmlega 180 útskrifuðum sjúkraliðum frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru aðeins fjórir karlmenn en það vantar mjög karlmenn í sjúkraliðastéttina,“ segir Ása og kallar eftir fleiri karlmönnum en einn karlmaður stundar nú nám á sjúkraliðabraut í FS.
Næg atvinna hér og erlendis
„Sjúkraliðanám er 206 eininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið tekur þrjú ár og lýkur með prófi af sjúkraliðabraut. Að loknu námi sækja nemendur um löggildingu starfsheitisins sjúkraliði. Nám á Íslandi gefur líka réttindi á Norðurlöndum ef fólk langar út fyrir landsteinana að vinna. Atvinnumöguleikar eru mjög góðir, eins og komið hefur fram á undanförnum mánuðum, þá vantar sjúkraliða til starfa um land allt,“ segir Ása og vísar til ástandsins vegna kóróna-veirunnar sem hefur skapað enn meiri eftirspurn eftir þessari mikilvægu starfsstétt í landinu en næg var eftirspurnin fyrir.
Mjög fjölbreytt starf
„Starf sjúkraliða felur í sér eftirlit og umönnun einstaklinga og fjölskyldna á heilbrigðisstofnunum eða á heimilum. Starfið er fjölbreytt, allt frá því að veita stuðning og hvatningu við athafnir daglegs lífs til þess að hjúkra mikið veikum einstaklingum á sérhæfðum deildum. Í starfi sjúkraliða eru algengir vinnustaðir sjúkrahús, hjúkrunarheimili, heilsugæslustöðvar eða aðrar heilbrigðisstofnanir. Sjúkraliðar taka þátt í þverfaglegri teymisvinnu um hjúkrun og meðferð, eiga samskipti við ólíka einstaklinga undir ýmsum kringumstæðum og þurfa að geta metið líkamlegt, andlegt og félagslegt ástand einstaklinga og fjölskyldna í samráði við hjúkrunarfræðinga, lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Sjúkraliði er lögverndað starfsheiti.“
Nýtt sjúkraliðanám fyrir þá sem eru í vinnu
„Á haustönn mun FS bjóða upp á sérskipulagða námslínu á sjúkraliðabraut sem ætluð er þeim sem eru starfandi eða hafa starfað við aðhlynningu á heilbrigðisstofnunum og vilja sækja sér menntun til að starfa sem sjúkraliðar. Nám og kennsla verður sambland af staðbundinni kennslu/námi, með dreif-og fjarnámssniði og mun taka mið af þörfum fólks sem er í vinnu með námi.“
Fordæmalaus kennsla á tímum veirunnar
Nú hafa allir framhaldsskólar landsins verið lokaðir nemendum vegna kórónaveirunnar frá 13. mars, hvernig hefur Ása leyst málin með nemendum sínum?
„Á meðan á samkomubanni stendur leysum við málið þannig að við höldum okkar striki og sinnum náminu samkvæmt stundaskrá um fjarfundabúnað. Okkur hefur fundist þetta fyrirkomulag takast nokkuð vel, þó mikið vanti þegar bein mannleg samskipti vantar. Ekki liggur fyrir núna hvernig önninni verður lokið – en henni mun ljúka og þeir nemendur sem eiga að útskrifast munu útskrifast þó ekki sé ljóst á þessari stundu hvernig það verður gert,“ segir Ása að lokum og hvetur þá sem eru að íhuga nám á sjúkraliðabraut í haust endilega að kynna sér brautina á vef skólans.
Gaman og gefandi að hjálpa fólki
Alda Björg Sveinsdóttir er 36 ára nemandi á sjúkraliðabraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Ég valdi sjúkraliðabraut af því mér finnst gaman og gefandi að hjálpa fólki. Ég er að klára fyrsta árið. Námið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Hjúkrun er spennandi og áhugaverð. Ég hef bæði starfað á sjúkrahúsi og við umönnun aldraðra og er mjög spennt að fá að starfa sem sjúkraliði en stefni ekki á áframhaldandi nám í náinni framtíð en hver veit. Mig er búið að langa að læra sjúkraliðann í mörg ár, svo þetta er draumur að rætast. Ég er mjög ánægð í FS, þar erum við lítill, samheldinn hópur með frábæra kennara og gott andrúmsloft, krakkarnir taka mér vel og mér líður ekki eins og ég sé helmingi eldri en þau. Ég er búin að kynnast samnemendum og kennurum. Stemmninginn er góð, við erum ekki mörg svo við fáum góða kennslu og erum dugleg að hjálpast að í tímum, kennararnir eru frábærir eins og áður sagði, það skiptir öllu máli að manni líði vel í skólanum. Það er alltaf gaman að læra eitthvað sem maður hefur áhuga á. Ef þú hefur áhuga á hjúkrun þá mæli 100% með sjúkraliðabraut í FS, hvort sem þú ætlar í framhaldsnám eða ekki, sjúkraliðinn er góður undirbúningur fyrir framhaldssnám, svo vantar alltaf sjúkraliða, það er auðvelt að fá vinnu.“
Langar að hjálpa öðrum
Neil Einar Christian Einarsson er nítján ára nemandi á sjúkraliðabraut við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
„Ég valdi þetta nám því ég hef áhuga á að hjálpa öðrum sem þurfa á því að halda, líka það að margir í fjölskyldunni hjá mömmu vinna sem heilbrigðisstarfsmenn og mig langaði að halda þeirri hefð gangandi. Ég er að útskrifast á þessari önn og mun fara í viðbótarnám. Sjúkraliðanámið við FS er fínt og lærdómsríkt. Það sem mér finnst spennandi við námið er að ég fæ að kynnast mörgu mismunandi fólki og læra eitthvað nýtt. Tæknilega hef ég ekki unnið á spítala en ég hef verið í starfsnámi og var að læra inn á mismunandi deildir til að afla mér reynslu og bæta við þekkingu mína. Ég er spenntur að vinna sem sjúkraliði en mun einnig halda áfram að læra og stefni á að fá réttindi sem hjúkrunarfræðingur sem sérhæfir sig í svæfingum. Ég læri svo margt í gegnum sjúkraliðanámið, það opnar líka mörg tækifæri fyrir framtíðina. Ég er búinn að eignast ágætlega marga vini í FS, stemmningin er fín og kennararnir líka. Það er gaman að læra.“