Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Sjötíu ára bíll betri en nýr
Sunnudagur 26. mars 2017 kl. 06:00

Sjötíu ára bíll betri en nýr

- Unnu bílinn í happdrætti árið 1946 - Er nú uppgerður og hinn glæsilegasti

Guðni Ingimundarson keypti happdrættismiða hjá SÍBS fyrir sjötíu árum og gaf Sigurjónu dóttur sinni sem þá var þriggja ára. Heppnin var með þeim því þau unnu nýjan Renault Juvaquatre. Bíllinn hefur verið í eigu fjölskyldunnar síðan þá og undanfarin misseri hefur Ásgeir Hjálmarsson, eiginmaður Sigurjónu, gert bílinn upp og er hann hinn glæsilegasti. Guðni ók bílnum töluvert fyrstu árin og segir hann jafnvel betri en nýjan núna eftir lagfæringarnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðni Ingimundarson í bílnum sem nú hefur verið gerður upp af Ásgeiri Hjálmarssyni, tengdasyni Guðna. VF-mynd/hilmarbragi

Guðni var að rífa hermannabragga á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli árið 1946 og á leiðinni til baka þurfti hann að koma við á skrifstofu til að fá leyfi til að fara út af vellinum. Þar voru stúlkur að selja happdrættismiða og hann keypti tvo, einn fyrir sig og einn fyrir eiginkonu sína. Þeim miðum stakk hann í veskið. „Svo fór ég út en þá tók ég eftir því að það þurfti að binda betur draslið á bílnum úti. Þá kemur ein stúlkan og býður mér að kaupa síðasta miðann. Ég sagði eitthvað á þá leið að ég ætti fullt af þessum miðum heima. Þá segir hún að mig muni ekkert um að bæta einum við,“ segir Guðni. Þriðja miðanum, sem ætlaður var Sigurjónu, stakk Guðni svo í brjóstvasann og kom vinningurinn á þann miða.

Örfáir bílar í Garðinum fyrir 70 árum
Fyrir sjötíu árum síðan voru aðeins örfáir fólksbílar í Garði, þrír eða fjórir og var Guðni því oft kallaður til þegar fólk þurfti á bíl að halda. „Bíllinn var sérstaklega duglegur í snjó og ég var hissa á því. Það kom oft fyrir að leigubílstjórarnir hjá Aðalstöðinni hringdu til mín því þeir treystu sér ekki út af snjó. En Renaultinn flaug yfir þetta allt saman og ég var rígmontinn af honum,“ segir Guðni sem fannst ekki mikið til bílsins koma þegar hann sá hann fyrst. „Þegar ég sótti hann til Reykjavíkur og keyrði hann suður, þá fannst mér hann svo grannur og veigalítill. Ég man alltaf eftir því að ég var alveg ákveðinn í því að þegar fram liðu stundir þá myndi ég bara keyra hann þangað til hann væri búinn og þá myndi ég skilja hann eftir. Ég taldi það bara alveg sjálfsagt að keyra hann út í einni ferð. En hann skilaði okkur heim.“ Guðna minnir að fyrstu langferðina á bílnum hafi þau farið á Þingvöll. Eftir það ferðuðust þau víða á bílnum, til dæmis vestur í Dali.

Bíllinn kallaður Tíkallinn

Ásgeir, tengdasonur Guðna, hefur varið mörgum klukkutímum í endurgerð bilsins sem nú hefur verið skráður á nafn Sigurjónu sem vann hann í happdrættinu fyrir sjötíu árum. Bílar af þessari tegund voru nokkuð algengir hér á landi um miðja síðustu öld og segir sagan að þeir hafi jafnvel verið um 350 talsins. Fyrir misskilning voru í einni sendingunni sendir 195 bílar til landsins en umboðið hafði aðeins leyfi til að flytja inn fjóra. Ríkið gerði bílana því upptæka og voru þeir geymdir við bæinn Haga í Vesturbæ Reykjavíkur og voru eftir það kallaðir Hagamýsnar. Bíll Sigurjónu hefur þó alltaf verið kallaður Tíkallinn því happdrættismiðinn góði kostaði tíu krónur.

Guðni er nú kominn á tíræðisaldur og er heiðursborgari í Garði. Starfsævin hans var löng og átti hann kranabíl og búnað sem hann beitti af mikilli lagni við ýmsar framkvæmdir á Suðurnesjum. Vélasafn hans er nú varðveitt hjá Byggðasafninu í Garði.

[email protected]
 

Hjónin Sigurjóna og Ásgeir. Hún vann bílinn í happdrætti þegar hún var þriggja ára. Ásgeir hefur undanfarin misseri varið ófáum klukkustundum við að gera bílinn upp.