Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjoppur, aðgengismál fatlaðra og fræðsla
Berglín Sólbrá Bergsdóttir, fulltrúi Heiðarskóla í ungmennaráðinu 2015-2016 flutti ræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ.
Laugardagur 28. nóvember 2015 kl. 14:54

Sjoppur, aðgengismál fatlaðra og fræðsla

Ræða Berglínar Sólbráar Bergsdóttur í Ungmennaráði Reykjanesbæjar.

Kæra bæjarstjórn og aðrir gestir!
Ég vil byrja á því að kynna sjálfa mig. Ég heiti Berglín Sólbrá Bergsdóttir og er fulltrúi Heiðarskóla í ungmennaráðinu 2015-2016. Mig langar að taka undir ýmislegt sem þið hérna hafið komið á framfæri.

Sjoppur
Það er alveg hreint magnað hvað það er góð íþróttaiðkun hérna í Reykjanesbæ. Það leynir svo sennilega ekki á sér hvað krakkarnir hérna eru virkir, enda eigum við yfirleitt skóla í efstu sætum á skólahreysti. Í slíkum íþróttabæ eru þá margir krakkar sem þurfa orkumikla og góða fæðu eins og t.d ávexti, skyr, eða jafnvel hafrakökur. Hvað gerist þegar barn gleymir að taka nesti með í skólann?

Ég man að þegar ég var að byrja í grunnskólanum kom þetta nokkrum sinnum  fyrir. Ekki einungis hjá mér heldur einnig öðrum krökkum í bekknum. Ástæðurnar fyrir þessu voru mismunandi. Kannski hafði fjölskyldan sofið yfir sig þann daginn og gleymst hafi að gera nesti eða mamma hafði bara ekki komist í búð daginn áður og þannig séð var það svo sem ekkert stórvandamál að vera ekki með nesti því að allir gáfu með sér og maður fór aldrei svangur heim úr skólanum.
En núna hefur þetta talsvert breyst. Nú er ég á mínu síðasta ári í grunnskóla og ég man ekki öðruvísi eftir því en þegar að það vildi svo ,,óheppilega“ vildi til að ég gleymdi nesti eða ekkert var til heima þá hafi mamma alltaf getað sent mig með pening í skólann eða ég var sjálf með pening og gat ég þá keypt mér nesti í sjoppu matsalarins. Þetta var eitthvað sem margir nýttu sér ekki bara í mínum skóla heldur öllum skólunum. Sem eru sennilega fleiri en ykkur órar fyrir. Nú er engin sjoppa í skólunum.
Ef við skyldum gleyma nesti þarf að sitja út skóladaginn svangur eða svöng. Svo eru kannski íþróttir eða skólasund og þá er ekki gott að fara með tómann maga í þá tíma.

Ég skora á Reykjanesbæ að koma þessum sjoppum upp aftur. Það myndi svo sannarlega gleðja okkur unglingana. Einnig vil ég leggja til að 10. bekkur hvers skóla gæti notað sjoppuna fyrir fjáröflun fyrir t.d vorferðina sína eða aðra skemmtilega atburði í kringum skólann.

Aðgengismál fatlaðra
Við í 10. bekk í Heiðarskóla fengum fyrirlestur um daginn um fólk í hjólastólum. Mér brá þegar annar mannanna sagði að hér í Reykjanesbæ væru ekki nema 3 eða 4 veitingastaðir sem er með gott hjólastólaaðgengi, og þar af væru einungis 2 með klósett fyrir fólk í hjólastólum. Þetta verður að laga. Reykjanesbær, þessi frábæri bær ætti að vera aðgengilegur fyrir alla.

Rusl
Ég er viss um að nánast allir sem eru hér staddir í dag hafi heyrt talað um flokkun á rusli. Flest ykkar hafa sennilega hugsað ,,æ þetta er nú meira vesenið“ en satt best að segja þá er þetta svo langt frá því að vera flókið. Við lærum í náttúrufræði og samfélagsfræði um það hvernig við séum að skaða jörðina okkar og þá m.a með rusli. Ímyndum okkur nestistíma. Skyrdollur, Svalafernur, plastpokar, pappírspokar, og mjólkurfernur,  afgangar, allt þetta fer í sömu tunnuna sem farið er með í Kölku þar sem ruslið er vigtað og skólinn þarf að borga fyrir visst magn. Það er bæði ódýrara og betra fyrir umhverfið okkar að flokka ruslið. Þetta er alls ekki flókið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fræðslumál
Við viljum meiri fræðslu. Jú við lærum stærðfræði, ensku, dönsku, náttúrufræði - „allt sem þarf fyrir framtíðina,“ hvað með það sem við þurfum að kunna þegar við förum út í lífið? Fjármál -þjóðfélagsfræði - skyndihjálp - meiri fræðslu um andlega sjúkdóma. Já, sorglegt að segja það þá eru svo ótalmargir sem þjást af andlegum sjúkdómum. Sem betur fer hefur verið mikil athygli á þeim upp á síðkastið á t.d samfélagsmiðlum eins og Twitter. Samt ekki nóg. Mér finnst algjörlega vanta fræðslu um þetta í skólunum. t.d að gera fólki grein fyrir að 20% af ungmennum í heiminum eiga í höggi við andlega erfiðleika á hverju ári og það er ekkert til þess að skammast sín fyrir. Einn af hverjum fjórum munu upplifa þunglyndi áður en þau verða 24 ára. Konur eru tvisvar sinnum líklegri til að upplifa þunglyndi en karlmenn. Fólk sem er þunglynt eru miklu líklegra til að fá flensu, kvef og almenna minniháttar sjúkdóma. Geðhvarfasýki, kvíði og  þunglyndi eru faldir andlegir sjúkdómar og mjög algengir. Það eru fleiri en 350 milljón manns sem glímir við þunglyndi. Kvíðaröskun er mun alvarlegri en sá kvíði eða áhyggjur sem fólk finnur fyrir dags daglega. Þeir sem eru með almenna kvíðaröskun búast alltaf við að eitthvað hræðilegt gerist og hafa óeðlilega miklar áhyggjur, til dæmis af heilsunni, öryggi sínu eða annarra, heimilishaldi, fjármálum eða vinnu. Svona fræðslu þurfa allir á að halda.