Sjónvarpið sem sprengdi internetið
- Stórt sjónvarp og lítill bíll fá okkur til að brosa
Þetta video er ennþá jafn gott og þegar við frumsýndum það snemmsumars 2016. Þegar gamla sjónvarpið gefur upp öndina þá verður að fá nýtt. Hjá Heimilistækjum og Tölvulistanum í Reykjanesbæ fást risastór sjónvörp með UHD myndgæðum, eitthvað sem ætti að vera til á öllum heimilum í dag.
Þessi ofurháskerputæki eru líka í risastórum kössum sem eiga að verja þau fyrir öllu hnjaski í flutningum frá verslun og heim í stofu.
Þegar þú ferð og kaupir stærsta sjónvarpið í búðinni þá er gott að hafa bíl sem rúmar allar tommurnar. Litlir grænir smábílar með bílstjóra og tveimur farþegum eru kannski ekki hentugasti mátinn til að flytja ofursjónvörp - og þó!
Við viljum strax koma á framfæri afsökunarbeiðni til þessa unga fólks sem gerði sitt besta til að koma risastórum kassanum inn í bílinn. Þau virtust skemmta sér vel við aðfarirnar. Þetta sjónvarp þeirra varð algjört bíó fyrir okkur á Víkurfréttum. Úr þessu öllu varð til stuttmynd sem við kjósum að kalla „Stórt sjónvarp - Lítill bíll“. Aðfarirnar voru bara of góðar til að sleppa við að fara á netið…