Sjónvarp Víkurfrétta: Upplifun gesta í öndvegi
Ferðamál og þjónusta í þættinum í kvöld.
„Ég vinn við það að auka upplifun fólks sem hingað kemur. Ég bæti kreminu á kökuna,“ segir Bjartur Guðmundsson, gestgjafi í Bláa Lóninu. Starf gestgjafa var á sett á laggirnar í Bláa Lóninu fyrir tveimur árum. Í sumar starfa níu manns í fullu starfi á tólf tíma vöktum við að hafa ofan fyrir gestum lónsins. Meðal þess sem Bjartur og félagar gera er að vera til staðar, mæta þörfum fólks og komast að því hverjar eftirvæntingar þess eru. „Svo leitum við leiða til að finna út úr því. Við finnum hvað er í boði og bendum á möguleika. Við erum staðsett við innganginn og mætum gestum brosandi og bjóðum þá velkomna. Spyrjum þá hvort þeir ætli það ofan í eða finnum út hvort einhver viðburður sé í gangi, s.s. brúðkaupsafmæli, stórafmæli eða annað,“ segir Bjartur.
Frí myndataka
Þá er einnig boðið upp á fría þjónustu við að taka myndir af gestum með spjaldtölvum og senda þeim í tölvupósti. „Það er ótrúlegt hvað þessi einfalda þjónusta vekur mikla ánægju og hefur borið góðan ávöxt. Svo erum við í fræðslu, bjóðum upp á gönguferðir um lónið og tölum út frá jarðfræðinni og sögunni, segjum álfasögur og skemmtisögur,“ segir Bjartur, sem er menntaður er leikari og hann bætir við að aðrir gestgjafar séu sviðslistamenn og dansarar. „Aðal málið er þó að við séum opin og eigum auðvelt með að eiga samskipti við fólk. Þetta er sennilega mest gefandi vinna sem ég hef verið í. Í starfssamningi segir að ég verði að brosa allan daginn og það er magnað hvað bros og jákvæðni er eitthvað sem er alveg hægt að æfa sig í. Viðbrögð hafa verið gríðarlega góð, maður finnur það í viðmóti fólks og það verður glaðara og maður hefur bætt dag viðkomandi á einfaldan hátt,“ segir Bjartur í viðtali í Sjónvarpi Víkurfrétta.
Golfkúlu slegið á milli heimsálfa
Í nýjasta þættinum verður einnig fjallað um ferðaþjónustuna á Reykjanesi og skoðaðar verðar nokkrar af náttúruperlum á svæðinu. Rætt verður við Þuríði Aradóttur, verkefnastjóra hjá Markaðsstofu Reykjaness, sem segir að ferðaþjónusta á svæðinu sé í miklum blóma en hægt væri að gera enn betur með samvinnu ferðaþjónustuaðila. Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóra hjá Heklunni, fræðir okkur um verkefnið Jarðvang, sem miðar að því að bæta aðgengi, merkja staði og gefa út efni til upplýsinga fyrir þá sem vilja ferðast um svæðið. Þá segir ferðamálafrömuðurinn og leiðsögumaðurinn Helga Ingimundardóttir okkur frá því að ef Leifur heppni hefði mætt vingjarnlegra viðmóti indíána þegar hann fann Ameríku, þá væri líklega töluð íslenska um alla Norður-Ameríku í dag. Einnig mun Steinn Erlingsson slá golfkúlu á milli heimsálfa við hina margfrægu og samnefndu brú.
VF/Olga Björt og Eyþór Sæm.