Mannlíf

Sjónvarp: Með besta flæði landsins
Föstudagur 28. apríl 2017 kl. 09:22

Sjónvarp: Með besta flæði landsins

Kíló lætur að sér kveða í rappinu og á Snappinu

Keflvíski rapparinn Kíló hefur að undanförnu getið sér gott orð í tónlistinni auk þess sem hann er einn af vinsælustu snöppurum landsins. Kíló sem heitir réttu nafni Garðar Eyfjörð, er enginn nýgræðingur í rappinu en hann hefur verið að síðan um aldamótin síðustu og lifað tímana tvenna í bransanum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er mikil orka sem fylgir Garðari og það gustar af honum þegar hann mætir í viðtal. Þeir sem fylgja honum á Snapchat vita að hann er oftast kátur og hláturmildur en þannig virkar hann einnig í persónu. Garðar er einn af þeim sem uxu ekki upp úr rappinu, eins og hann orðar það kaldhæðnislega. Honum finnst æðislegt að hafa verið svona lengi að. „Ég eyddi samt mikið af tíma í bull og vesen en tók mig saman í andlitinu. Ég fór loks að taka þessu alvarlega núna um þrítugt,“ segir hann kíminn.

Gaman að vera rappari á Íslandi

„Eftir að Rottweiler urðu vinsælir vildu allir og amma þeirra gera rappmúsík. Það dó hins vegar út um 2005 og eftir það kom lægð. Það var svo ekki fyrr en Gauti og Úlfur Úlfur fóru að gefa út plötur, þá lifnaði þetta við.“ Garðar segir að það hafi einungis verið pródúsentarnir Redd lights og BLKPRTY sem hafi verið að gera álíka tónlist á þessum árum eins og tíðkast í dag. „Nú er ógeðslega gaman að vera í rapptónlist á Íslandi. Áður var YouTube ekki til og þú gast ekki gert myndband á Iphone-inum þínum á einum degi en ekki bara með einhverjum gæja sem hafði útskrifast úr kvikmyndaskólanum og átti græjur.“

Garðar segir það mikilvægt að geta búið auðveldlega til efni og myndbönd og skellt því svo bara á netið. „Það er enginn að taka mark á þér ef þú gerir ekki video, og það þarf að vera gott video. Þú þarft ekkert plötusamning. Ef þú bara nennir þessu og umkringir þig með rétta fólkinu, þá getur þú gert góða hluti.“ Þannig kemur hann sinni tónlist á framfæri auk þess að vera á Spotify, Instagram, Soundcloud og Snapchat.

Hvernig er þinn stíll?
„Ágengur (e. agressive). Ég er rappari af gamla skólanum sem rappar í nútímastíl. Ég er svona „punchline“ rappari og ég er alltaf að drepa ímyndaða óvini. Ég horfi á rapp sem íþrótt. Ég er að reyna að vera betri en næsti gaur. Ef þú kallar sjálfan þig rappara en ert ekki að reyna að betrumbæta þig, þá ertu ekki rappari.“

Garðar er sjálfur að bæta sig eftir því sem líður á ferilinn. „Flæðið mitt er mjög þróað. Ég held að það flæði enginn betur en ég á landinu. Það var einn sem sagði við mig að ég væri með flæði eins og Herra Hnetusmjör. Ég elska Herra Hnetusmjör en ég var að flæða svona þegar hann var í bleyjum,“ segir Garðar kokhraustur.

Er illaður í ensku

Garðar rappar núna eingöngu á ensku en hann prufaði sig áfram á íslensku um stund. Hann var búsettur í Bandaríkjunum í næstum áratug og því liggur enskan vel fyrir honum. „Ég er ágætur í íslensku en af hverju ætti ég að vera ágætur í einhverju þegar ég er illaður í ensku?“ Garðar er núna að öðlast smá frægð en þeir sem hafa fylgst vel með rappi hafa lengi vitað af honum. Áður fyrr var draumurinn hjá Garðari að meika það. „Nú er ég bara að njóta þess að gera tónlist og fá að spila. Bókstaflega að fá borgað fyrir að gera eitthvað sem ég hef gert frítt í 15 ár. Ég myndi ábyggilega gera það frítt enn þann dag í dag.“ Það er mikið að gera þessa dagana og Garðar nýtur hverrar stundar.

„Ég horfi á rapp sem íþrótt. Ég er að reyna að vera betri en næsti gaur. Ef þú kallar sjálfan þig rappara en ert ekki að reyna að betrumbæta þig, þá ertu ekki rappari“

Vinsældirnar á Snapchat hafa hjálpað nokkuð til í tónlistinni. Garðar byrjaði að snappa fyrir nokkru síðan þegar hann var að vinna á bílaleigu. Nafni hans og einn þekktasti snappari landsins, Gæi Iceredneck, var einmitt í sömu sporum en þeir félagar voru talsvert að fíflast saman á snappinu. „Hann reddaði mér mínum fyrstu hundrað vinum. Eftir það varð þetta gaman og mig langaði að halda áfram. Fyrsta árið talaði ég ekki í myndavélina og var bara að fíflast og bulla. Svo dett ég inn á lista á einhverri vefsíðu yfir skemmtilegustu snappara landsins. Eftir það fæ ég yfir 1000 fylgjendur,“ en í dag eru þeir yfir 5000 talsins.

Garðar byrjar flesta daga eins á Snapchat, vaknar við hressandi tóna og fær sér smók af veipinu sínu. „Allt flipp sem ég geri, það fæðist bara þegar mér leiðist,“ segir Garðar en hann fær mikið af skilaboðum og spurningum frá fylgjendum sínum á Snapchat.
„Ég sjálfur var aldrei að eltast við frægð jafnvel þó að ég sé frekar athyglissjúkur. Núna þegar maður er smá þekktur, þá er það gaman en um leið smá hræðilegt,“ segir snapparinn. Hann segir að það sé vissulega pressa á honum að vera frumlegur og skemmtilegur fyrir fylgjendur sína. „Það sama á við um tónlist eða snapchat, ég er aldrei að þvinga neitt eða reyna um of, það þarf að detta niður í hausinn á mér.“

Kíló er með mörg járn í eldinum. Þrjú tónlistarmyndbönd eru í vinnslu auk þess sem hann stefnir á að gefa út plötu í sumar sem á að innihalda 8-10 lög. Þar er um að ræða nýtt efni.

Fyrir þá sem vilja fylgja Garðari á Snapchat, þá gengur hann undir heitinu kilokefcity þar. Einnig má smella mynd af kóðanum hérna.