Sjónvarp: Magnaðir munir í skemmtilegu einkasafni
Þjóðminjasafnið í Garðinum
Í ónefndu húsnæði í Garði á Suðurnesjum hefur á síðustu misserum orðið til stórt og merkilegt safn muna úr ýmsum áttum. Safnið er einkasafn Hilmars Foss og fjölskyldu hans. Hilmar flutti í Garðinn fyrir nokkrum árum úr miðborg Reykjavíkur eftir að hafa verið tíður gestur hjá vini sínum, Ingvari Gissurarsyni, suður með sjó. Hilmar er á því að það sé betra veður í Garðinum en við Garðastræti í Reykjavík þar sem hann ól manninn. Fyrir nokkrum árum keypti hann sér íbúðarhús við innkomuna í Garðinn og annað húsnæði þar sem safnið er að verða til.
„Það er kannski hægt að segja að þetta sé geymsla án þess að vera með hillur á veggjum,“ segir Hilmar þegar hann er beðinn um að skilgreina rýmið sem þakið er munum af öllum stærðum og gerðum. Þar má finna ógrynni af dóti eins og Hilmar kallað það. Mikill hluti safnsins er tilkominn frá foreldrum hans og fjölskyldu en aðrir munir hafa hreinlega dagað uppi hjá honum. Hilmar leitast fyrst og fremst eftir því að hlutirnir grípi augað og séu snotrir. Hann viðurkennir að skynsamlegra væri að safna frímerkjum eða einhverju sem geyma mætti í möppum uppi í hillu. Safn Hilmars hefur orðið til á mörgum áratugum og enn bætist í. Það eru fyrst og fremst tæki sem grípa augað þegar gengið er inn í rýmið. Bílar, mótorhjól og flugvélar sem hanga úr rjáfum. Þó segist Hilmar ekki vera neinn tækjadellukarl.
Hlutirnir rata á sinn stað
Hlutirnir eiga sér flestir mikla en ólíka sögu en Hilmar þekkir sögu mjög margra muna á safninu og augljóslega hefur hann ástríðu fyrir sögunni og varðveislu muna. Við fyrstu sýn virðast margir hlutirnir hversdagslegir og ekki eiga heima á safni. Hilmari hefur hins vegar tekist að finna hlutum eins og stöðumælum, húsnúmerum og götuheitum gott heimili þar sem sögulegt gildi þeirra nýtur sín. „Ef maður veit sögu hlutarins þá fyllir það svolítið upp í tómarúmið í kringum hann. Hvar var hann? Hver átti hann? Til hvers var hann búinn til? Af hverju var hann keyptur? Svo að lokum, af hverju átti svo að henda honum?,“ segir Hilmar. Hann segist ekki verja miklum tíma í að stilla hlutunum upp heldur rati þeir oftast bara á sinn stað. Einkar vel hefur þó tekist til og virðast hlutirnir einstaklega ratvísir.
Sögulegir munir úr Keflavík
Meðal safnmuna í eigu Hilmars er Coke goskælir sem var á skemmtistaðnum Bergási í Keflavík og allir Keflvíkingar á miðjum aldri þekkja. Einnig er þar að finna glymskrattann af veitingastaðnum Olsen Olsen, barborð af Hressó en hluti þess er ennþá í notkun í sjoppu í Keflavík. Aðspurður hvort hann láti hluti frá sér af safninu þá viðurkennir Hilmar að hann selji frá sér bíla, en smærri hluti hefur hann ekki látið frá sér. Eins hefur hann ekki endalaust pláss og þarf því oft að velja og hafna. „Maður hleypur ekki á eftir hverju sem er og oft þarf skynsemin að ráða. Maður þarf stundum að halda sig frá einhverju sem gaman væri að eiga,“ segir safnarinn Hilmar að lokun.