Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjónvarp: Leiksýningar grunnur að góðu skólalífi
Fimmtudagur 23. apríl 2015 kl. 16:22

Sjónvarp: Leiksýningar grunnur að góðu skólalífi

– Moulin Rouge sýnd í Andrews menningarhúsinu á Ásbrú

Vox arena, leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja, frumsýndi í síðustu viku söngleikinn Moulin Rouge. Verkið er sett upp af leikstýrunni Gunnellu Hólmarsdóttur en hún vann handrit upp úr kvikmynd um rauðu mylluna. Handrit Gunnellu er bráðfyndið, spennandi og rómantískt. Hún íslenskaði einnig söngtexta. Í samtali við Víkurfréttir segir Gunnella að hún hafi haft sterka hugmynd og hugsjón um hvernig hún vildi hafa sýninguna og því ráðist í að skrifa handrit frá grunni í stað þess að finna eldri íslenska leikgerð. Hún segir að verkið sé fyrst og fremst grínleikrit, það sé mikill húmor í sýningunni. Þá er í sýningunni flottur söngur, dans og mikil gleði. Þá er sagan einnig sorgarsaga þess pars sem Moulin Rouge fjallar um. „Sýningin er smituð af því og við upplifum allskonar tilfinningar,“ segir Gunnella.

Ásta María Jónasdóttir, formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja, segir hörkuvinnu að setja upp sýningu eins og Moulin Rouge. Hópurinn sem standi að baki sýningunni sé stór og þéttur. „Við erum orðin mjög náin. Þetta er brjáluð vinna og ferlið er orðið langt en við byrjuðum að æfa í september á síðasta ári,“ segir Ásta María. Í haust voru haldin inntökupróf og settir á fastir æfingatímar einu sinni í viku.
Síðustu dagana fyrir frumsýningu fer allt á annan endann og allir leggjast á eitt við að koma sýningunni á koppinn. Þannig fer leikstjórinn í að mála leikmynd og sauma búninga og sviðsmyndavinna stendur langt fram eftir nóttu. Þrátt fyrir strangt æfingaferli þá mæta allir í skólann á réttum tíma. 30 leikarar taka þátt í uppfærslunni og 15 manns eru í ýmsum störfum á bakvið tjöldin.

Menningarlífið blómstrar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ásta María og Gunnella settu upp Dirty Dancing fyrir ári síðan. Hluti þeirra sem tóku þátt í þeirri uppfærslu eru einnig núna í Moulin Rouge. Þá eru margir að stíga sín fyrstu skref á sviði.

Gunnella segir starf leikfélagsins í skólanum vera mikilvægt. „Þetta er svo svakalega gefandi og ég er svo ánægð með að FS skuli loks taka á honum stóra sínum og setja upp svona sýningar og feta þar í fótspor skólanna í Reykjavík. Hjá flestum framhaldsskólum í Reykjavík eru það þessar stóru nemendasýningar sem gera skólalífið,“ segir Gunnella. „Þetta er eitthvað til að vera stoltur af þegar litið er til baka. Þó svo nemendur geti ekki mætt á réttum tíma í skólann í nokkra daga, þá er þetta svo mikill lærdómur á svo margan hátt“.

Næstu sýningar á Moulin Rouge eru: 5. sýning, miðvikudagurinn 22. apríl kl. 20, 6. sýning, fimmtudagurinn 23. apríl kl. 20, 7. sýning, föstudagurinn 24. apríl kl. 20 og 8. sýning, laugardagurinn 25. apríl kl. 20.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024