Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Sjónvarp: Fann draumastarfið á fertugsaldri
Laugardagur 28. mars 2015 kl. 09:00

Sjónvarp: Fann draumastarfið á fertugsaldri

Edduverðlaunahafinn Kristín Júlla gerir Garðinn frægan.

Garðbúinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir var komin vel á fertugsaldur þegar hún fann draumastarfið eftir að hafa skellt sér í förðunarskóla. Hún hlaut í vetur Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti, en hún hefur einnig tekið að sér verkefni eins og The Secret Life of Walter Mitty og íslensku þættina Hraunið. Kristínu Júllu finnst skemmtilegast að búa til persónur og starf hennar snýst um annað og meira en að dvelja á vinnustofu innan um hárkollur og förðunarvörur. Hún hefur eignast marga kæra vini í bransanum sem segja hana með einstaka nærveru. Olga Björt elti Kristínu Júllu einn vinnudag hennar fyrir skömmu. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kristín Júlla ásamt Baldvini Z. og búningahönnuðunum Evu Völu Guðjónsdóttur og Ólöfu Benediktsdóttur. 

Kristín Júlla hefur komið sér fyrir með vinnuaðstöðu í húsnæði Saga Film ofarlega á Laugavegi í Reykjavík, bækistöð margra í sjónvarps- og kvikmyndabransanum. „Starfið mitt er mjög persónulegt. Nánustu tengslin verða á milli sminkunnar og leikarans ef litið er til þess hversu nærri fólki maður gengur. Það þarf að kunna að lesa aðstæður og kynnast fólki náið. Stundum þarf að þegja saman en einnig er ansi mikið talað og manni er trúað fyrir ýmsu,“ segir Kristín Júlla og bætir við að sminkuherbergið sé staðurinn þar sem fólk getur aðeins látið líða úr sér eða rætt eitthvað sem gengur á. Mörgum af sínum nánustu vinum hefur hún kynnst í vinnunni, m.a. tónlistarmanninum Páli Óskari og leikstjóranum Baldvini Z. Bransinn er ekki stór á Íslandi en það getur þó liðið ótrúlega langur tími á milli þess sem maður hittir einhvern úr hóp sem maður vann með. Það er alltaf spenna sem fylgir því að sjá hverjir verða með í næsta ‘crewi’.“ 

Umsjón með hári er vandasamur hluti af starfinu. 

Vill ekki gera árshátíðarfarðanir

Í æsku fannst Kristínu Júllu gaman að fara í hlutverkaleiki og hún telur að áhugi á persónusköpun hafi jafnvel byrjað þá. „Þetta var samt ekki eitthvað sem ég ætlaði mér að gera í framtíðinni. Ég var orðin 34 ára þegar ég skráði mig fyrir algjöra tilviljun í förðunarskóla No name, bara af því að ég var leið og langaði að læra eitthvað. Fékk svo einhverja bakþanka og vildi hætta við en skólastjórinn Kristín Stefánsdóttir bannaði mér það því hún vildi endilega fá fleiri eldri nemendur. Fólkinu í kringum mig fannst ég reyndar eitthvað vera að klikkast því ég var ekki þekkt fyrir það að vera mikið máluð. Mamma hvatti mig óspart til að láta á reyna,“ segir Kristín Júlla og bætir við að námið hafi verið mjög skemmtilegt. „Ég gerði þó allt öðruvísi en aðrir; gat aldrei hlýtt kennaranum. Hef alltaf farið mínar eigin leiðir. Ég fór t.d. ekki í námið til að vera heima og gera árshátíðarfarðanir. Það kom aldrei til greina. Ég ætlaði mér að skapa manneskjur.“ Þegar hún útskrifaðist bauð hún Kvikmyndaskóla Íslands upp á fría vinnu fyrir lokaverkefni, sem urðu þrjú. „Þar með var ég komin inn í bransann. Ég lenti á frábærum hópi í kvikmyndaskólanum sem útskrifaðist sama vor og það fólk fór allt í mikilvæg störf í bransanum. Ég fór svo bara að vinna með þeim.“ 

Ásamt góðvini sínum Páli Óskari og Moniku í Útskálakirkju. 

Metur öll verkefni vel 

Það er nóg að gera hjá Kristínu Júllu því hún er nánast bókuð í verkefni fram á næsta ár. Spurð um hvort verkefnin komi til vegna einhvers konar tengsla segir hún ekki telja svo vera. „Ég hef gert mikið og ég held að ég sé bara valin fyrir það sem ég er og af vinnunni minni. Ég er líka með það prinsipp að ég skoða öll verkefni vel sem ég er beðin um að gera. Ef mér finnst eitthvað fara yfir siðferðismörk eða rangt að einhverju leyti þá geri ég það ekki. T.d. spyr ég alltaf fyrir hvern auglýsing er því ég tek t.d. ekki þátt í auglýsingum fyrir smálánafyrirtæki því mér finnst þau vera ólögleg.“ 

Um þessar mundir er Kristín Júlla að undirbúa tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Réttur 3 sem Saga filma framleiðir og Baldvin Z leikstýrir. Einnig er hún að hanna fyrir stuttmynd sem heitir Regnbogapartý. „Venjulegur dagur hjá mér í svona undirbúningsvinnu gengur einhvern veginn þannig fyrir sig að ég vakna með unglingnum á heimilinu, kaupi mér nesti hjá Joey & the Juice í flugstöðinni og ek svo til Reykjavíkur á vinnustofuna þar sem ég stend í karakterpælingum með hinum og þessum, fer í heildsölur og sit svo langa fundi.“

Miklu meira en skeggið á Móra

Skemmtilegast við starfið segir Kristín Júlla að sé að fá að hanna og búa til karaktera, sérstaklega þegar um er að ræða algjörar andstæður manneskjanna sjálfra. „Það snýst ekki bara um útlit. Karakterinn breytist svo mikið með útlitinu, klæðnaðinum, hárinu og fasinu. Á hverjum tíma hefur þó allt verið skemmtilegt; vinna við auglýsingar, kvikmyndir, sjónvarpsþættir og annað. Maður þroskast og mótast og nýir hlutir verða meira spennandi. Í dag finnst mér skemmtilegast að gera bíómyndir. Maður fær svo mikið að skapa.“ Hún segir að gjarnan viti fáir út á hvað starf hennar gengur. „Til dæmis öll pappírsvinnan og aragrúi af fundum. Núna erum ég, leikstjóri, búningahönnuður og jafnvel leikarar að skapa persónur fyrir þáttaröðina Réttur 3. Þá brjótum við niður handritið senu fyrir senu. Leikari verður að vera alveg eins og hann var í einni töku og svo annarri sem kannski fer fram nokkrum vikum eða mánuðum síðar.“ Sem dæmi nefnir Kristín Júlla hugarfóstur hennar, Móra í Vonarstræti. „Við Steini [Þorsteinn Bachmann] vorum saman í 2-3 tíma í rútunni á hverjum morgni allt tökutímabilið. Gervi er miklu meira en t.d. bara skegg. Það voru t.d. 11 atriði sem þurfti að gera bara við andlitið á honum.“ 

VF/Olga Björt