Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjónvarp: 11 ára uppfinningamaður
Á myndinni má sjá sýniseintak af glugga með sjálfvirkum opnara fyrir ketti og verðlaunagripina sem Björn Þór hlaut í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.
Laugardagur 11. júní 2016 kl. 06:00

Sjónvarp: 11 ára uppfinningamaður

- Hannaði sjálfvirkan gluggaopnara fyrir ketti

Björn Þór Hrafnkelsson, nemandi í 5. bekk í Stóru-Vogaskóla, vann til tvennra verðlauna í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna sem fram fór í lok maí. Verðlaunin hlaut Björn fyrir hugmynd sína MurrinnX sem er sjálfvirkur gluggaopnari fyrir ketti. „Ég og pabbi vorum bara að reyna að finna einhverja hugmynd. Svo stakk pabbi upp á því að gera eitthvað fyrir dýr. Þá horfði ég á köttinn minn, hann Murra, og datt í hug gluggaopnari fyrir ketti. Þannig byrjaði þetta,“ segir Björn um hugmyndina sniðugu.

Sjónvarp Víkurfrétta kíkti í Voga og kynnti sér Murrann. Innslagið mér sjá í spilaranum hér fyrir  neðan.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Á Nýsköpunarkeppni grunnskólanna hlaut Björn önnur verðlaun fyrir hugmyndina í sínum aldursflokki. Þá hlaut hann einnig Guðrúnarbikarinn sem veittur var þeim hugmyndasmið sem talinn var hafa skarað fram úr fyrir hugmyndaríki, dugnað, að vera fylginn sér, kurteis og samviskusamur. Guðrúnarbikarinn er veittur í minningu Guðrúnar Þórsdóttur, sem var einn af frumkvöðlum Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda og innleiðingu nýsköpunarmenntar í grunnskólum. Alls bárust 1.750 hugmyndir í keppnina og voru 27 hugmyndir valdar til þátttöku í úrslitakeppni. Það var því mikið afrek bara að komast í úrslitakeppnina. Björn segir það svo hafa komið sér skemmtilega á óvart að vinna til tvennra verðlauna. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin. „Ég var mjög sáttur við að fá bara Guðrúnarbikarinn. Svo þegar forsetinn sagði að ég hefði líka lent í öðru sæti varð ég mjög hissa,“ segir hann.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin á Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.

Vill að kötturinn komist sjálfur út
Gluggaopnarinn er nefndur eftir kettinum Murra sem býr á heimili fjölskyldu Björns í Vogum. Opnarinn virkar þannig að skynjari er settur á ól kattarins og við hliðina á glugganum er annar skynjari. Í staðinn fyrir lausafag er svo pumpa á glugganum. Þegar kötturinn nálgast gluggann nemur skynjarinn það og opnar gluggann svo kötturinn komist út eða inn. Hann Murri, köttur fjölskyldunnar á, eins og svo margir aðrir kettir, stundum í vandræðum með að komast út og er opnarinn því kærkomin lausn. „Oft hoppar Murri upp í gluggakistuna og mjálmar þangað til við komum og opnum fyrir honum,“ segir Björn.

Er aðeins byrjaður að forrita
Við undirbúning á hönnun á gluggaopnaranum naut Björn hjálpar frá pabba sínum. Þeir gerðu smá könnun á búnaði fyrir þessa lausn áður en hugmyndin var send inn í keppnina. Svo var hugmyndin hans Björns Þórs valin ásamt 27 öðrum hugmyndum og hugmyndasmiðunum boðið í þriggja daga vinnusmiðju og þar bjó Bjössi til sýniseintak af glugga og plakat til útskýringar á hugmyndinni. Á næstunni ætla þeir feðgar svo að setja upp skynjara í glugga heima. „Ég er búin að segja frá því í sjónvarpinu að við ætlum að gera þetta, bæði hjá Rúv og Víkurfréttum svo við verðum að gera það,“ segir Björn. Hrafnkell Sigurðsson, pabbi Björns, er forritari og er Björn ekki í nokkrum vafa um að hann ætli að feta í fótspor hans og verða líka forritari í framtíðinni. „Þetta er eiginlega í ættinni. Pabbi minn er forritari og afi minn var það líka. Ég sé að það er skemmtilegt starf og ætla því líka að verða forritari,“ segir Björn sem er aðeins byrjaður að forrita.

Kötturinn Murri var heimilislaus þegar Hafrún Hrafnkelsdóttir, eldri systir Björns, fann hann fyrir fimm árum. Hún hafði falið hann inni hjá sér í þrjá daga þegar foreldrar hennar komust að því. Fyrst ætluðu þau með köttinn í Kattholt en áður en af því varð hafði hann heillað þau upp úr skónum og varð strax einn af fjölskyldunni. Þau kalla hann þó ekki köttinn sinn, því hann er mjög sjálfstæður. Heldur segja þau að hann búi hjá þeim. Murri er úti að leika sér flesta daga en kíkir heim rétt til að borða og hvíla sig. Þá er gott að hann geti sjálfur opnað gluggann.