Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Sjómennska á sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar
Laugardagur 16. janúar 2021 kl. 10:01

Sjómennska á sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar

Á sjó er pop-up sýning úr safneign listasafnsins og að þessu sinni er þemað sjómennskan, sem er tenging við sögu Suðurnesja og staðsetningu Duus Safnahúsa sem er við sjóinn og smábátahöfnina. Listasafnið á mikið safn verka sem sýna sjómenn að störfum, báta í höfn og sjósett skip.

Sýningin var sett upp í stuttan tíma í ágúst síðastliðnum og því sáu færri hana en vildu hafa í Reykjanesbæ. Á sjó stendur til 9. febrúar 2021 og sýningarstjóri er Helga Arnbjörg Pálsdóttir, listfræðingur, sem starfar hjá Listasafni Reykjanesbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sjó er sýning þar sem stefnt er saman listamönnum úr ýmsum áttum sem eiga það sammerkt að hafa flestir unnið að myndlist sinni um miðbik síðustu aldar, fyrir utan Jón Stefánsson og Finn Jónsson sem eru forverar þeirra. Þema sýningarinnar er sjómennskan og tengjast myndefni verkanna þessum atvinnuvegi Íslendinga á einn eða annan hátt. Með ótengdum listaverkum er reynt að setja fram sögu og má þar meðal annars sjá sjómenn að störfum, sjómannskonuna sem situr heima og bíður, báta við höfn og skip úti á hafi. Verkin eru öll úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar og minna vissulega á liðna tíma þegar Suðurnesjamenn fast sóttu sjóinn.

Listamenn

Áki Gränz (1925–2014) fæddist í Vestmannaeyjum og ólst þar upp en bjó stærsta hluta ævinnar í Njarðvík. Hann var málarameistari frá Iðnskóla Vestmannaeyja árið 1946 og samhliða þeirri vinnu var hann afkastamikill listmálari og myndhöggvari, gerði m.a. bæjarmerki Njarðvíkur. Áki tók virkan þátt í sveitarstjórnarmálum, var bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Njarðvík til 1986 og forseti bæjarstjórnar Njarðvíkur 1982–1986. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Njarðvíkur, var stofnfélagi í Lionsklúbbi Njarðvíkur og einn af stofnendum Sjálfstæðisfélags Njarðvíkur.

Ásta Árnadóttir (1922–2017) fæddist í Sandgerði, hún stundaði nám við Handíða- og myndlistaskóla Íslands 1942–1943 og var ein af stofnendum Baðstofunnar í Keflavík árið 1970. Þar naut Ásta tilsagnar Eiríks Smith, en vatnslitir voru hennar miðill í listinni og var hún félagi í Akvarell Ísland. Hún hélt nokkrar einkasýningar og tók þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Ásta rak verslunina Femínu í Keflavík í tíu ár, starfaði í Soroptimistaklúbbnum, Systrafélagi Keflavíkurkirkju og sat í nefndum m.a. var hún formaður listasafnsnefndar Keflavíkurbæjar.

Eggert F. Guðmundsson (1906–1983) fæddist í Stapakoti í Innri-Njarðvík en bjó lengst af í Reykjavík. Hann lærði teiknun hjá Ríkharði Jónssyni og Stefáni Eiríkssyni en mótun hjá Einari Jónssyni. Eggert stundaði listnám við listaskólann í München 1927–1931, ferðaðist víða og lærði m.a. myndlist í Róm. Hann hélt fjölmargar einkasýningar og tók þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Eggert starfaði sem teiknikennari við Iðnskólann í Reykjavík, hann var einn af stofnendum Kennarafélags Iðnskólans og fyrsti formaður þess, ásamt því að vera einn af hvatamönnum að stofnun Myndlistarfélagsins og sat í stjórn þess um skeið.

Eiríkur Smith (1925–2016) fæddist í Hafnarfirði og bjó þar mest alla ævi sína. Hann stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann 1946–1948, listnám í Kaupmannahöfn 1948–1950 og París 1950–1951, einnig lærði hann prentmyndasmíði við Iðnskólann í Hafnarfirði. Eiríkur hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í samsýningum. Hann var um tíma formaður sýningarnefndar Félags íslenskra myndlistarmanna og eins var hann heiðurslistamaður Hafnarfjarðar árið 2008.

Finnur Jónsson (1892–1993) var fæddur á Strýtu í Hamarsfirði, hann lærði gullsmíði við Iðnskólann í Reykjavík og teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni og Ríkharði Jónssyni 1915–1919. Finnur stundaði listnám og gullsmíðanám í Kaupmannahöfn, Berlín og Dresden 1919–1925. Hann er einn af frumkvöðlum abstraktlistarinnar á Íslandi og var fyrstur til að sýna slík verk hérlendis. Finnur hélt einkasýningar og tók þátt í fjölmörgum samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Hann starfaði við gullsmíði og teiknikennslu í Menntaskólanum í Reykjavík og Flensborgarskóla, rak einnig eigin myndlistarskóla í Reykjavík ásamt Jóhanni Briem listmálara. Einn af stofnendum Félags íslenskra myndlistarmanna árið 1941 og fyrsti formaður Myndlistafélagsins 1961.

Jón Gunnarsson (1925–2020) bjó alla tíð í Hafnarfirði, hann stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum 1947–1949 og á ferli sínum vann hann bæði olíumálverk og vatnslitamyndir. Jón hélt fjölmargar einkasýningar og tók þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis. Hann stundaði lengi sjómennsku, sem kyndari og háseti, og starfaði við prentverk sem ofsetljósmyndari og klisjugerðarmaður.

Jón Stefánsson (1881–1962) fæddist á Sauðárkróki, lauk stúdentsprófi í Reykjavík árið 1900 og cand.phil. prófi í verkfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1901. Hann stundaði listnám við Teknisk Selskabs Skole 1903–1905, var í einkaskóla Kristians Zahrtmann til 1908 og lærði við einkaskóla Henri Matisse í París 1908–1910. Jón hélt sjö einkasýningar hér á landi og tók þátt í fjölda samsýninga á Norðurlöndunum. Hann var einn af brautryðjendum íslenskrar myndlistar á 20. öld og helsti frumkvöðull módernismans í myndlist á Íslandi.

Jónas Marteinn Guðmundsson (1930–1985) var listmálari, rithöfundur og sjómaður, einnig þekktur sem Jónas stýrimaður. Hann nam við Handíða-og myndlistaskólann 1949–1950 og lærði grafík hjá Weisshauser í München, Þýskalandi, haustið 1974. Jónas vann olíu- og vatnslitamyndir, hann hélt nokkrar einkasýningar, þar á meðal í Iðnaðarmannahúsinu í Keflavík árið 1975 og sýndi einnig erlendis, einkum í Þýskalandi.

Kjartan Guðjónsson (1921–2010) ólst upp í Þingholtunum í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1942. Hann stundaði nám við Handíðaskólann í Reykjavík 1942–1943 og fór til náms við Listaháskólann (Art Institut) í Chicago í Bandaríkjunum til 1945. Hann var einn af Septemberhópnum sem sýndi fyrst árið 1947 í Listamannaskálanum. Kjartan kenndi lengi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hélt þó nokkrar sýningar.

Óskar Jónsson (1910–1991) rennismiður og vélasmiður, starfaði lengstum sem framhaldsskólakennari og kenndi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann var sjálfmenntaður listamaður en málaði bæði olíumálverk, vatnslitamyndir og vann í málm, en á seinni árum helgaði hann sig listinni. Óskar var einn af stofnendum Lionsklúbbs Njarðvíkur 1958 og var formaður 1961–1962.

Steinþór M. Gunnarsson (1925) er fæddur á Ísafirði, bjó á Akranesi og síðan í Reykjavík. Árið 1945 hóf hann nám í málaraiðn og starfaði sem málarameistari. Steinþór hélt einkasýningar bæði hér á landi og í Noregi og tók þátt í samsýningum, þar má helst nefna einkasýningu hans á Kjarvalsstöðum árið 1975.

Sveinn Björnsson (1925–1997) listmálari fæddist á Skálum á Langanesi, starfaði sem lögreglumaður í Hafnarfirði 1954–1985 og yfirrannsóknarlögreglumaður þar frá 1965. Hann lauk stýrimannsprófi frá Sjómannaskóla Íslands árið 1947 og stundaði myndlistarnám við Det kongelige akademi í Kaupmannahöfn 1956–1957. Sveinn hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Sveinshús í Krýsuvík hýsir einkasafn hans.