Sjómannslíf í Sandgerði
Það er oft mikið líf í Sandgerðishöfn og margir fiskibátar sem róa þaðan út á miðin. Við tókum bryggjurúnt en þennan morgun var bræla úti á sjó, svo við gátum náð tali af nokkrum mönnum sem voru að gera línubátinn Huldu klára fyrir næstu veiðiferð.
Ólafur Svan Ingimundarson, skipstjóri á Huldu GK 17:
Maður veit aldrei hvort það verði mokfiskerí eða bras
„Ég er með pungapróf sem dugir á þessa báta upp í þrjátíu tonn. Ég fór í Vélskólann í Reykjavík, hef alltaf verið fyrir útivist og hef mjög gaman af veiðimennsku. Ég held það blundi í mörgum af kynslóð minni að vera til sjós en ég er fæddur árið 1965. Ég fór fyrst fimmtán ára gamall á sjó og byrjaði á fraktara en ævintýramennskan rak mig af stað í það. Svo fór ég í Vélskólann í Reykjavík og í framhaldinu í fiskimanninn. Ég er ekki eins heillaður af skrúfuvinnunni og vil frekar vera í hasarnum. Línuveiðin er þannig og mikil vinna frá því að farið er frá landi og helvíti gaman þegar vel fiskar. Línuveiðin okkar er með beitningavél og þá er öll vinnan úti á sjó. Mennirnir sjá um allt. Þetta er spennandi starf því maður veit aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér, hvort það verði mokfiskerí eða bras. Auðvitað getur þetta verið hættulegt starf en ánægjan er miklu meiri, menn reyna að fara varlega. Ég er með íslenska unga stráka um borð og þeir eru alveg uppveðraðir af þessu starfi, svo áhugasamir um þetta sem við erum að gera. Þetta er líkamlegt starf. Við róum í tvær vikur og þeir fá hvíld í tvær vikur en þá kemur önnur áhöfn um borð og leysir af. Þeir fá mjög góð laun fyrir tveggja vikna vinnu en sumir eru samt einnig að vinna í landi í fríunum sínum, smíða og svona. Við förum yfirleitt af stað klukkan tvö um nóttina og komum heim um kvöldmat. Það er best að leggja í myrkri en veiðarfærin okkar eru um tuttugu kílómetrar á lengd. Það er yfirleitt einhver pása inn á milli um borð meðan verið er að bíða. Ég er bóndastrákur úr Aðaldal í Þingeyjarsýslu en hef búið lengi hér í Sandgerði. Ég kann vel við sjómennsku og mér finnst ég fá sterkari upplifun af náttúrunni úti á sjó. Sólarupprásin er falleg á sjónum. Svo erum við að fylgjast með hvölunum og fuglunum. Súlan er búin að vera alveg vitlaus í línunni hjá okkur og er greinilega að undirbúa sig fyrir varpið í vor. Já, það er dálítið annað líf að vera á sjó en í landi.“
Hafþór Þórðarson, vinnur hjá Mison ehf:
Það vantar mun fleiri í svona starf
„Í starfi mínu sé ég um að gera við og setja vélbúnað frá Mustad í Noregi en ég er að setja upp beitningavélar í báta. Ég byrjaði um fermingaraldur á sjó og þegar ég var búinn að vera í fjörutíu ár til sjós þá fannst mér kominn tími til að breyta til. Mér var boðið til Noregs og vann þar í smá tíma. Ísfell er umboðsaðili en ég er viðgerðaraðili þeirra hér á Íslandi. Starf mitt er mjög fjölbreytt. Stundum fer ég í vinnuferðir til Póllands, Danmerkur, Grænlands eða Nýfundnalands í sömu erindagjörðum og ég er hér um borð í dag. Þetta er bráðskemmtilegt og maður hittir marga. Launin eru góð. Það vantar fleiri hérlendis í samskonar starf og ég sinni í dag. Vélskóli er lykill að þessu starfi en þar er mikil tæknimenntun og mjög fjölbreytt nám, bæði í vélgreinum og rafgreinum. Handbeitningar eru að detta út. Margir af þeim gömlu sem voru fljótir að beita eru dánir og erfitt að fá nýtt fólk í það starf. Það eru breyttir tímar. Nú eru beitningavélar komnar í stærri báta en þessar vélar kosta margar milljónir og eru alltaf í þróun. Þær vinna mun hraðar en mannshöndin og þessum vélum þarf að halda við. Það gerum við.“
Hafþór.
Jóhann Viðar Jóhannsson, eigandi Stuðlastál ehf:
Hvetjum fleiri nemendur í iðngreinar
„Ég er vélvirki að mennt og rek vélaverkstæði. Starf mitt er fjölbreytt og vinn ég við ýmislegt, fer ofan í báta eins og í dag. Ég laga ýmislegt, sjóða og smíða, sé um viðhaldsvinnu, hönnunarvinnu og svona sitt lítið af hverju. Það vantar miklu fleiri iðnaðarmenn. Það er alltaf verið að búa til pappírsvinnumenn sem fá svo kannski enga vinnu þegar þeir eru búnir að læra, á meðan okkur vantar fleiri í verkmenntun. Það þarf að hvetja ungt fólk til að prófa og gá hvort það hafi verklag. Sumir hafa þetta í höndunum og geta notað hendurnar til að sjóða og smíða. Svona vinna er mjög fjölbreytt, maður hittir fullt af skemmtilegu fólki. Mér finnst alltaf verið að koma öllum í háskólanám og svo kunna þau jafnvel ekki að skipta um ljósaperu eftir allt námið. Það þarf að kynna iðnmenntun betur fyrir ungu fólki því þau störf eru nefnilega mjög vel launuð. Það vantar líka miklu fleiri iðnaðarmenn, við sjáum það á öllum þeim útlendu starfsmönnum sem verið er að flytja inn til landsins. Við þurfum að læra af Þjóðverjum en þeir leggja mikið upp úr iðnmenntun. Ég hef skoðað aðstöðuna í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hún er mjög fín til þess að verða sér úti um iðnmenntun.“
Jóhann Viðar.