Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á Sjóaranum síkáta
Hátíðarhöld Sjóarans síkáta í Grindavík hafa gengið afar vel fram að þessu og farið einstaklega vel fram í einmuna veðurblíðu. Að sögn lögreglu var nóttin róleg og góð þrátt fyrir mikinn mannfjölda. Aldrei hafa fleiri gestir lagt leið sína til Grindavíkur á Sjóarnn síkáta og aðsókn á tjaldsvæðið hefur slegið öll fyrri met. Hápunktur Sjóarans síkáta er í dag, Sjómannadaginn.
Í morgun fór fram árleg dorgveiðikeppni og síðan tekur við fjölbreytt dagskrá sem stendur fram á kvöld en þá verða stórtónleikar með hljómsveitinni Valdimar í íþróttahúsinu.
Kl. 13:00 verður Sjómannamessa í Grindavíkurkirkju. Ræðumaður er Haukur Guðberg Einarsson sjómaður. Ritningarlestra lesa sjómannshjónin Þorgeir Guðmundsson og Hildur Hákonardóttir. Helga Guðný, dóttirþeirra, ber kransinn niður að minnisvarðanum Von. Karlakór Keflavíkur leiðir söng undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar. Organisti er Helga Bryndís Magnúsdóttir. Prestur: Sr. Elínborg Gísladóttir.
Kl. 14:00 verða hátíðarhöld við Kvikuna í tilefni Sjómannadagsins. Ávarp flytur Guðni Ágústsson. Heiðursviðurkenningar og verðlaunaafhending fyrir kappróður. Umsjón: Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur.
Karlakór Keflavíkur syngur nokkur lög. Kararóður, koddaslagur og flekahlaup verður á sínum stað við höfnina og sjópulsan verður á ferð um höfnina. Þá verður glæsileg barnadagskrá og fótboltamót hverfanna. Jafnframt verður Íslandsmót í sjómanni og kerlingahlaup. Þá verður sýning á fornbílum, furðufiskum og sýning á gömlum dráttarvélum, landbúnaðarækjum og bílum og margt margt fleira skemmtilegt.
Dagskrána er hægt að nálgast á www.sjoarinnsikati.is