Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjókokkurinn sem fór út í eigin veitingarekstur
Þorlákur Guðmundsson, eða Láki eins og hann er oftast kallaður.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 28. desember 2022 kl. 16:00

Sjókokkurinn sem fór út í eigin veitingarekstur

„Grindavík hefur vaxið sem ferðamannastaður og ferðamenn þurfa að borða. Mikil stemmning fyrir Geimfaraballinu 30. desember,“ segir Láki á Salthúsinu.

Þorlákur Guðmundsson eða Láki í Salthúsinu eins og Grindvíkingar og aðrir þekkja hann best, er matreiðslumaður og hefur rekið veitingastað í Grindavík síðan árið 2005. Láki hafði eins og svo margir grindvískir karlmenn, farið á sjóinn og vann síðustu árin sem kokkur en ákvað að söðla um árið 2005 og hefur ekki litið til baka síðan:

„Ég byrjaði ungur á sjónum, vann bæði sem messagutti og háseti en eldamennskan togaði alltaf í mig svo ég endaði sem kokkur síðustu tuttugu árin á sjónum. Ég kunni vel við það en þegar tækifæri gafst á að fara út í veitingarekstur árið 2005 þá stökk ég á það. Gamli Hafurbjörninn sem Árni Björn Björnsson rak við góðar undirtektir til fjölda ára, hafði breyst í Cactus þegar Hjálmar Erlingsson keypti staðinn en þegar annar veitingastaður í Grindavík, Sjávarperlan, var sett á sölu þá ákvað Hjalli að færa sig þangað og því gat ég keypt Cactus og breytti nafninu í Lukku Láka.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sjávarperlan breyttist í Salthúsið og nokkrum árum síðar bauðst Láka að kaupa staðinn.

„Áramótin 2008/2009 keypti ég Salthúsið og rak Lukka Láka samhliða fyrsta árið en einbeitti mér síðan bara að Salthúsinu. Auðvitað var og er um venjulegan opnunartíma veitingastaðar að ræða en mest hefur verið að gera í kringum hópa, þá aðallega ferðamannahópa. Grindavík hefur vaxið sem ferðamannastaður og hingað koma margar rútur allan ársins hring, fullar af ferðamönnum og þeir þurfa að borða. Ég hef myndað góð tengsl við fjölmarga ferðaleiðsögumenn og þeir koma aftur og aftur.“

Árin á Lukku Láka og fyrstu árin á Salthúsinu, gekk viðskiptamódelið líka út á að halda böll.

„Til að byrja með varð ég bjóða líka upp á dansleiki og má segja að hljómsveit hafi spilað hjá mér að lágmarki einu sinni í mánuði. Þegar veitingareksturinn fór svo að vefja upp á sig þá sá ég að það var erfitt að samtvinna þetta, að vera með dansleik langt fram á sunnudagsmorgun og með stóran hóp í hádeginu stuttu síðar gekk eðlilega ekki upp. Þess vegna dró ég úr því en er alltaf með eitt og eitt ball við sérstök tilefni, t.d. á sjómannahelginni og ég reyni líka að halda tónleika reglulega og þá helst blústónleika, ég elska þá tónlist.“

Eitt hefur haldið velli nánast undantekningarlaust síðan Láki hóf reksturinn á Lukka Láka árið 2005, grindvíska hljómsveitin Geimfararnir hefur alltaf haldið árlegt jóla- og áramótaball en þó hefur hljómsveitin legið í dvala síðan 2018.

„Ég kynntist þessum góðu drengjum strax á Lukku Láka árunum en grindvískt samfélag hefur alltaf verið svona, ef eitthvað grindvískt er í gangi þá mætir heimafólk. Þeir byrjuðu hjá mér á Lukka Láka en hafa svo verið hér í Salthúsinu síðan. Þeir tók sér nú pásu 2018 en ég fékk þá til að dusta rykið af hljóðfærunum og þeir ætla að trylla Grindvíkinga og vonandi, aðra gesti föstudagskvöldið 30. desember. Ég heyri á meðal grindvískra ungmenna að mikil stemning er fyrir þessu balli en ég á líka von á því að gömlu aðdáendurnir flykkist á Salthúsið og úr verði ekta frábær, grindvísk stemning,“ sagði Láki að lokum.