Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjóarinn síkáti næstu helgi
Laugardagur 26. maí 2012 kl. 12:33

Sjóarinn síkáti næstu helgi

Sjóarinn síkáti í Grindavík hefur fest sig í sessi sem öflugasta sjómannadagshátíð landsins. Á sama tíma og hefðbundin hátíðarhöld sjómannadagsins hafa víða verið lögð niður undanfarin ár hafa Grindvíkingar tekið þá stefnu af efla Sjóarann síkáta enn frekar enda Grindavík einn öflugasti sjávarútvegsbær landsins. Mikið er lagt upp úr því að Sjóarinn síkáti er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem fjölbreytnin er í fyrirrúmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistin skipar jafnframt stóran sess á hátíðinni. Margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar koma fram á Sjóaranum síkáta að þessu sinni. Auk Ragga Bjarna og Valdimar má nefna Hjálma, Pál Óskar, Helga Björns, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, Andreu Gylfadóttur, Ingó Veðurguð, Hreim, Skítamóral o.fl.

Reynt er að bæta umgjörð hátíðarinnar á hverju ári í samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem koma að undirbúningi hennar á hverju ári. Að þessu sinni verður stórt og mikið svið á hátíðarsvæðinu við Kvikuna alla helgina í stað vörubílspalls til að bæta aðstöðuna fyrir listafólkið og atriðin komast mun betur til skila fyrir áhorfendur. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur kemur myndarlega að hátíðinni, sérstaklega á Sjómannadeginum sjálfum þar sem Guðni Ágústsson verður ræðumaður dagsins og heiðursviðurkenningar og kappróður verður á sínum stað.

Fjórða árið í röð er svo bænum skipt upp í fjögur litahverfi og síðan verður litaskrúðganga á föstudagskvöldinu úr hverfunum fjórum að hátíðarsvæðinu við Kvikuna. Grindvíkingar hafa skreytt bæinn sinn hátt og lágt og tekið virkan þátt í hátíðarhöldunum. Við bjóðum jafnframt alla landsmenn velkomna á Sjóarann síkáta.

Fyrir yngri kynslóðina verða ýmis skemmtileg dagskráratriði eins og dorgveiðikeppni sem nýtur mikilla vinsælda, Brúðubíllinn sívinsæli, dans frá Danssmiðjunni í Reykjanesbæ og einnig hópur frá Grindavík, Skoppa og Skrítla, skemmtisigling fyrir alla fjölskylduna, sjópulsan vinsæla verður í höfninni, hægt að fá reiðtúr með mótorhjóli, fara á hestbak, Gókart, sprellleiktæki, hoppikastalar og trúðar verða á svæðinu og margt fleira.

Margt fleira er á boðstólum í Grindavík alla Sjómannadagshelgina og dagskrána er hægt að nálgast í heild sinni á www.sjoarinnsikati.is