Sjóarinn síkáti er hafinn
Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti í Grindavík er hafin en hún er til heiðurs íslenska sjómanninum og fjölskyldu hans. Hverfin fjögur hafa skreytt hús og götur með glæsibrag og gaman að sjá hversu bæjarbúar eru öflugir og frumlegir. Stöðugur straumur gesta hefur verið á tjaldsvæðið frá því á miðvikudaginn. Líf og fjör var í bænum í gærkvöldi og fram á nótt en allt gekk vel fyrir sig.
Í dag verður ýmislegt um að vera hjá verslunar- og þjónustufyrirtækjum í bænum og þá koma yfir 100 eldri borgarar í heimsókn frá Gerðubergi. Kl. 17 verður sýningin Fiskveiðar og fiskvinnsla í Grindavík opnuð en hún er á vegum Þorbjarnar. Sýndir verða gamlir munir sem hafa safnast upp hjá fyrirtækinu í gegnum árin í sýningargluggum hjá Veiðarfæraþjónustunni ehf. við Ægisgötu. Einn sýningargluggi er svo að Hafnargötu 12.
Hápunktur dagsins er svo bryggjuballið. Kl. 18 verða götugrill um allan bæ og kl. 20 er litaskrúðganga úr hverfunum að hátíðarsvæðinu við Hafnargötu. Þar verður skemmtileg dagskrá þar sem verður svo bryggjuball með Ingó og Veðurguðunum. Jafnframt verða Hvanndalsbræður á Salthúsinu og Geimfararnir á Lukkuláka.
Með því að smella hér er hægt að nálgast allar nánari upplýsingar um sjómannadagshelgina í Grindavík.
Breyting: Ein breyting hefur verið gerð á staðsetningu unglingaathvarfsins, það hefur verið flutt í húsnæði björgunarsveitarinnar Þorbjarnar að Seljabót 10 eða skammt frá þar sem það átti að vera.