Sjö ára keppnisbann við tæklingu!
Íbúar í norður og suðurhluta Sandgerðisbæjar munu útkljá annan hugsanlegan nágrannanúning með því að etja kappi í knattspyrnuleik á Sandgerðisvelli í dag í tilefni af Sandgerðisdögum sem nú standa yfir.
Áhorfendur eru beðnir um að mæta snemma á svæðið til að tryggja sér sæti í stúkunni, en liðin verða kynnt til leiks rétt fyrir fyrstu leikina sem hefjast stundvíslega kl. 16:00. Athygli er vakin á því að veitingar verða seldar á staðnum til stuðnings góðu málefni.
Keppendur eru hins vegar beðnir um að mæta ennþá fyrr eða kl. 15:00 til að stilla saman strengina fyrir baráttu dagsins. Myndataka á hverju liði mun fara fram áður en leikir hefjast.
Keppendur eru minntir á að flestir ætla að mæta í vinnu á mánudaginn kemur og því er blátt bann við tæklingum og öðrum tilburðum sem stofnað geta heilsu leikmanna í hættu. Dómararnir eru við öllu búnir þegar kemur að refsingum, heyrst hefur að strangasta refsingin felist í 7 ára keppnisbanni í Norðurbær-Suðurbær ásamt útlegð á Jan Mayen.
Að þessu sinni er keppendum skipt í 3 aldurshópa, 2 lið í hverjum aldurshópi. Spilaður er 7 manna bolti á hálfan keppnisvöll.
Sá bæjarhluti sem hlýtur flest stig út úr þessum 3 viðureignum fær stórglæsilegan farandbikar sem aldursforseti bæjarhlutans tekur við í lokahófi í Reynisheimilinu í kvöld. Bikarinn verður varðveittur í Íþróttamiðstöð Sandgerðisbæjar á milli móta. Að loknum leikjunum fer fram vítakeppni á milli þeirra aðila sem ekki treysta sér í spriklið. Vítakóngur ársins verður krýndur í lokahófinu um kvöldið.
Lokahófið fer fram í kvöld í sal Reynisheimilisins og opnar húsið kl. 19:30.