Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sjálflærður kökuskreytari
Sunnudagur 21. júlí 2013 kl. 08:37

Sjálflærður kökuskreytari

Lærir af netinu og sjónvarpinu

Í Garðinum býr kökuskreytarinn og þriggja barna húsmóðirin Anna Lísa Jóhannesdóttir sem býr til kökur og skreytir þær þannig að viðeigandi væri heldur að kalla þær listaverk frekar en kökur. Anna Lísa gerir glæsilegar kökur við hvert tilefni fyrir vini og fjölskyldu og eins og sjá má á myndunum hefur hún gert köku í tilefni afmæla, brúðkaupa, Sólseturshátíðarinnar í Garðinum og einnig gerir hún kökur sem snúa að áhugasviði fólks.

Anna Lísa er sjálflærð í kökuskreytingum en hún hafði verið að skoða myndir af sykurmassakökum á netinu þegar hana langaði að prófa að gera slíka köku sjálf. Með hjálp youtube myndbanda lærði Anna Lísa að útbúa sykurmassa og fyrstu kökuna gerði hún fyrir þremur árum vegna afmæli dóttur vinkonu hennar. Eftir það varð ekki aftur snúið og eru kökur gerðar við hvert tækifæri sem gerst. „Allt sem ég kann hef ég lært af google og youtube. Einnig hef ég horft mikið á kökuþætti á Food Network sjónvarpsstöðinni og ef ég sé eitthvað flott sem mig langar að prófa í þáttunum þá leita ég af leiðbeiningum á netinu þangað til ég sé hvernig þetta er gert og prufa mig svo áfram,“ segir Anna Lísa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver kaka tekur sinn tíma en Anna Lísa tók þátt í Disney kökukeppninni í fyrra og bar sigur úr bítum. Ævintýrið um Mjallhvíti og dvergana 7 var innblástur Önnu að sigurkökunni en vinnan við hana tók um 2-3 sólahringa. Meðal kaka tekur um 6-8 klst. en stærri kökur eru allt að einn til tvo daga í bígerð.

Hér á landi er ekki í boði að læra kökuskreytingar og hefur Anna Lísa ekki áhuga á að læra
bakarann. „Það væri draumur að læra þetta og síðar meir starfa við þetta en það verður að bíða betri tíma þar sem námið erlendis er ekki lánshæft eins og er.“

Sjón er sögu ríkari og hægt er að sjá fleiri myndir af kökum Önnu Lísu á Facebook síðunni hennar Kökurnar mínar - https://www.facebook.com/kokurnar.minar

 

Víkurfréttum barst ábending frá Konditorsambandi Íslands:

„Hægt er að fara til Bandaríkjanna til að læra kökuskreytingar. Er þar boðið upp á marga mjög fína skóla sem kenna til dæmis á 3-6 mánuðum mjög flott námskeið í kökuskreytingum. Gallinn við þessa skóla er að þeir veita engin starfsréttindi í Evrópu. Á Íslandi sem og um stærstan hluta af Evrópu eru kenndar tvær iðngreinar, sem annast bakstur og skreytingar. Eru það bakaraiðn og kökugerð (konditor) og eru bakarar meira sérhæfðir í brauðum og bakkelsi, en konditorar í tertum og skreytingum. Hvergi í heiminum er hægt að læra eingöngu kökuskreytingar og fá viðurkennd starfsréttindi á Íslandi út á þau.“