Sjálfboðastarf Súsönnu í Suður-Afríku
-Súsanna Edith Guðlaugsdóttir vann með börnum sem búa við mikla fátækt -Starfaði líka í dýraathvarfi fyrir munaðarlaus og slösuð dýr
Þrettán ára gömul ákvað Súsanna Edith Guðlaugsdóttir að einn daginn færi hún til Afríku að hjálpa börnum. Í fyrra lét hún verða af því og fór til Höfðaborgar í Suður-Afríku í eins konar samfélagsþjónustu þar sem hún vann með börnum sem bjuggu við erfiðar aðstæður og mikla fátækt. Hún fór einnig til Jóhannesarborgar og vann í dýraathvarfi fyrir munaðarlaus og slösuð dýr, en hún segir þá reynslu hafa gert sér enn betri grein fyrir mikilvægi dýraverndar.
Súsanna með Ashalele, eins árs, sofandi í fanginu í Masi. „Ég náði vel til Ashalele en hún og tvíburasystir hennar eru báðar mjög veikar af nýrnasjúkdóm.“
„Ég man eftir að hafa horft á þátt um styrktarforeldra Unicef og verið mjög hissa á að foreldrar mínir væru ekki styrktarforeldrar. Ég tók málið í mínar hendur og hringdi inn fyrir hönd foreldra minna.“ Hún ákvað þá að hún skyldi einhvern tímann fara til Afríku og láta gott af sér leiða. Undir lok framhaldsskólagöngunnar, þegar flestir voru að safna fyrir útskriftarferð safnaði Súsanna fyrir ferðinni til Afríku, en hana hafði hún skipulagt í samstarfi við ferðaskrifstofuna Kilroy.
Súsanna valdi verkefnið „Heart for juniors Noordhoek“ sem er á vegum You 2 Africa samtakanna og er staðsett í Noordhoek, í um 40 mínútna fjarlægð frá Höfðaborg. „Verkefni okkar var að aðstoða börn á aldrinum 1 til 15 ára með að læra ensku, lesa og leika sér ásamt því að sýna þeim ást og umhyggju. Við byrjuðum alla morgna í bænum Ocean View, þar sem okkur var skipt niður á mismunandi verkefni. Það virkaði þannig að þeir sem voru lengst fengu yfirleitt erfiðustu verkefnin því það var mikilvægt að kynnast krökkunum og aðstæðunum vel. Verkefnin voru mjög misjöfn en mitt var að mæta á leikvöll á hverjum morgni sem er í miðju hverfinu og rölta í kringum hann til að finna þau börn sem komust ekki í skólann og voru þau á aldrinum 7 til 15 ára. Við lögðum mikið upp úr því að hafa alltaf gaman, fara í leiki, á bókasafnið að lesa eða kæla börnin niður með vatnsslöngum þegar það var alltof heitt úti. Mikið var haft upp úr því að halda börnunum uppteknum til að koma í veg fyrir að þau færu í slæman félagsskap.“
Eins og sést eru aðstæður í svokölluðum „Wetlands“ hverfum hrikalegar. Mjög reglulega kviknar í einhverjum kofanna þar sem mikill hiti myndast frá brennandi sólskininu.
Foreldrarnir þakklátir
Sjálfboðaliðunum var bent á að koma ekki með verðmæti með sér þar sem foreldrar og eldri systkini margra barnanna hafa þjálfað þau til að stela öllu sem þau koma höndum yfir. „En með tímanum kynntumst við börnunum, lærðum nöfnin þeirra og fórum í heimsókn heim til þeirra þar sem við sáum aðstæðurnar sem þau bjuggu við. Það var gaman að sjá hve þakklátir foreldrar þeirra voru,“ segir Súsanna. Seinni part dags fóru sjálfboðaliðarnir í bæinn Masiphumelele og var verkefni Súsönnu þar að fara í svokölluð „wetlands,“ eða hverfi með moldarkofum, engu rafmagni né rennandi vatni og vera til staðar fyrir börnin sem búa þar.
„Við vorum með tvo kofa. Í öðrum þeirra voru ungabörn og í hinum voru munaðarlaus börn á aldrinum 1 til 5 ára. Þegar ég kom þangað fyrst fékk ég létt hjartaáfall. Börnin höfðu eina fóstru en hún svaf allan daginn og þegar börnin reyndu að ná athygli hennar þá lamdi hún þau. Hún talaði ekki ensku svo við gátum ekki talað við hana né börnin. Ég og önnur stelpa í hjálparstarfinu töluðum við samtökin og útskýrðum að okkur þætti erfitt að horfa upp á þetta. Börnin fengu nýja fóstru sem talaði örlitla ensku og var tilbúin að vinna með okkur. Hvert verkefni hafði svokallaða ömmu sem allir kalla „mama,“ líka sjálfboðaliðarnir. Mama, ásamt fóstrunni sáu um að skipta á börnunum og hlúa að þeim ef þau slösuðu sig, en um 40 prósent íbúa bæjarins eru smituð af HIV. Í Masiphumelele, eða Masi eins og hann er kallaður, er einungis talað tungumálið Xhosa, svo við lögðum mikið upp úr því að kenna krökkunum að syngja lög á ensku, telja upp á tíu og læra um litina og dýrin. Áður en við komum héngu börnin inni í kofanum allan daginn og sum þeirra fengu ekkert að borða. Í framhaldi af því ákváðum við að byrja alla daga á því að syngja höfuð, herðar, hné og tær ásamt alls konar litaleikjum. Við fórum með börnin á leikvelli á hverjum degi til að leyfa þeim að fá útrás svo allir væru vel þreyttir fyrir lúr dagsins. Um leið og við sáum að sum barnanna fengu ekki að borða ákváðum við að byrja að smyrja nesti fyrir alla. Eitt af því sem við áttum mest erfitt með að meðtaka var að það voru engin klósett, enginn klósettpappír og flest barnanna voru aðeins með eina taubleyju allan daginn. Við reyndum að venjast þessu en enduðum á því að koma með klósettpappír með okkur á hverjum degi. Þar sem ég og sjálfboðaliðinn með mér í verkefninu vorum þarna í einn og hálfan mánuð langaði okkur að gera eitthvað meira. Við til dæmis máluðum kofann að innan, keyptum borð og stóla ásamt því að útbúa blöð með litum, dýrum, tölum og líkamanum sem hengd voru upp á vegg. Þetta hjálpaði okkur mikið við að kenna krökkunum líkamsparta og liti. Við ákváðum einnig að kaupa klósett og borga fyrir að leggja lagnir sem kostaði okkur litlar 15 þúsund krónur íslenskar.“
Salernisaðstaðan í Masi var ekki góð.
Skotárás á leikvelli
Súsanna dvaldi með hinum sjálfboðaliðunum í bænum Kommetjie í húsi sem hún segir líta að vissu leyti út eins og húsin á Íslandi nema þau eru opin, og bjóða því dýrum eins og slöngum, rottum, kakkalökkum og köngulóm í heimsókn. Hún vaknaði eitt skipti með kakkalakka á hálsinum og rakst stundum á rottur í herberginu sínu, sem henni fannst allt í lagi þangað til hún var komin aftur til Íslands og áttaði sig betur á hlutunum.
Aðspurð um muninn á borginni og fátæku smábæjunum segir hún það tvennt ólíkt og stéttaskiptingu mikla. „Ocean View er bær staðsettur í fjalli með íbúðarblokkum en engu rafmagni eða rennandi vatni, þar sem ríkið vill ekki styrkja svæðið. Bærinn varð til árið 1968 þegar ‘litað’ fólk var fjarlægt frá svokölluðum ‘hvítum’ svæðum í Höfðaborg. Heilu fjölskyldurnar búa saman í litlum íbúðum þar sem fjölskyldumeðlimir þurfa að skiptast á að sofa yfir sólarhringinn. Bærinn einkennist af ofbeldi og þjófnaði. Masi er mun fátækari bær en hann skiptist í tvennt, hús byggð úr steypu og svo álkofar í mold eða í mýrinni, ‘wetlands.’ Inni í kofunum eru bara rúm og þarf fólk því að notast við almenningssalerni sem eru kamrar og einn krani með rennandi vatni. Ég mun seint gleyma því þegar Mama bauð okkur inn til sín á meðan við biðum eftir farinu okkar heim. Hún átti fimm börn og kofinn hennar var álíka stór og þvottahús í hefðbundnu húsi á Íslandi. Þar hafði hún eitt rúm fyrir þau öll saman, tvo stóla, bolla og bala.“
Svokallaðir „shacks“ eða kofar í Masi.
Þetta var vissulega ekki eina atvikið sem mun seint renna henni úr minni, en skotárás átti sér stað á leikvellinum þar sem hún vann um miðjan dag. „Í þessu hverfi býr ein hættulegasta mafía Höfðaborgar. Einn daginn vorum við að leika við börnin og heyrum foreldrana skyndilega kalla þau inn. Við skildum ekkert hvað var að gerast þar til eitt foreldrið útskýrir fyrir okkur að þetta sé reglulegur atburður. Þá lenti ungum krökkum saman og skotárás braust út í kjölfarið. Í dag er sjálfboðastarf ekki lengur leyft á þessu svæði,“ segir Súsanna. Annað sem hún rifjar upp er eitt skiptið þegar hún var að finna bók til að lesa fyrir börnin. Hún tók nokkrar bækur úr hillunni og sá svo fimm kakkalakka inni í einni þeirra. „Ég stökk á fætur og öskraði og allir horfðu á mig. Ég áttaði mig á því að þetta væri ekki rétti staðurinn til að öskra yfir kakkalakka og reyndi að halda „kúlinu“ frá og með þessum tímapunkti ferðarinnar.“
Súsanna með Ashalele litlu á bakinu
Hugsaði um ljón, gíraffa og fíla
Hinir sjálfboðaliðarnir komu frá hinum ýmsu Evrópulöndum auk Ástralíu og Brasilíu. Öll voru þau að ferðast ein svo þau kynntust hvert öðru og heldur Súsanna reglulegu sambandi við tvær þýskar vinkonur í dag. Hún kveðst hafa verið stressuð fyrir því að fara ein út þar sem hún hafði aldrei ferðast ein áður, og fyrir því að þurfa að tala ensku. „Um leið og ég kom út og hitti hina sjálfboðaliðana þá hætti ég að vera stressuð því öllum fannst þeir vera lélegir í ensku. Það fyrsta sem ég gerði var að kaupa símkort og ótakmarkað gagnamagn til að vera í sambandi við fjölskylduna og til að auka öryggi. Það var alltaf nóg að gera og við nýttum frítíma okkar vel í alls kyns skemmtanir. „Við höfðum öll kvöld laus ásamt helgunum en þá skoðuðum við okkur um, fórum í brimbrettakennslu, skipulagða ferð um strendur Höfðaborgar og svo voru samtökin dugleg að skipuleggja lautarferðir þar sem kvöldmaturinn var borðaður undir berum stjörnuhimni og söng.“
Súsanna og Jack, eini sebrahesturinn sem hægt var að snerta og tala við. „Jack átti erfiða æsku, var lagður í einelti og ólst upp með ösnum.“
Súsanna fór svo í sjálfboðavinnu í dýraathvarfinu Wildlife Sanctuary í Glen Afric, sem er staðsett á 750 hektara svæði sem tilheyrir svokallaðri Vöggu mannkynsins, eða The Cradle of Humankind, en það er á heimsminjalista UNESCO. Svæðið er vaktað að nóttu til þar sem trúarbrögð í Afríku eru mjög sterk og trúa sumir því að lækna megi veikindi með vissum líkamspörtum af dýrum. Stuttu áður en Súsanna kom í athvarfið hafði einhverjum tekist að brjótast inn á svæðið og skera hornið af nashyrningi, sem drapst í kjölfarið.
Í athvarfinu er tekið á móti munaðarlausum og meiddum dýrum og þeim veitt aðhlynning á meðan þau ná sér af þeim áföllum sem þau hafa orðið fyrir. Mikið var af kattardýrum og öðrum villtum dýrum eins og gíröffum, sebrahestum, nashyrningum, flóðhestum, ösnum, antilópum og vörtusvínum. Sum dýrin hafa hins vegar ekki þann möguleika á að vera sleppt lausum þar sem þau eru ekki vön því og kunna því ekki að bjarga sér í náttúrunni, eins og til dæmis dýr sem bjargað er frá sirkusum og dýragörðum. Það voru meðal annars fílar, ljón, tígrisdýr, híenur og blettatígrar.
Brúðkaup í skóginum
„Verkefni okkar sjálfboðaliðanna voru meðal annars að þrífa aðstöðuna hjá dýrunum og gefa þeim að borða. Við fórum í göngur með sum þeirra og fengum að vera með þeim dýrum sem voru vön fólki. Hefðbundinn dagur hjá fílunum inniheldur langa göngu frá sjö um morguninn til sjö að kvöldi í fylgd með þremur manneskjum. Svo var alltaf eitthvað skemmtilegt á dagskrá. Reglulega voru bókuð brúðkaup í miðjum skóginum. Þá keyrðum við bíl með pallinn fullan af mat og lokkuðum dýrin til okkar, svo þegar kom að athöfninni voru dýrin öll í bakgrunni.“
Spurð út í framtíðar ferðaplön segist Súsanna vilja kynnast Afríku betur og stefnir að því að heimsækja önnur lönd heimsálfunnar. „Ég hef áhuga á að sinna fleiri hjálparstörfum í framtíðinni, hvort sem það verður hér á landi eða annars staðar. Svo er ég að íhuga að fara aftur til Höfðaborgar um næstu jól með vinum. Mig langar að sýna þeim umhverfið sem ég starfaði í, fegurðina og fjölbreytileikann sem Höfðaborg hefur að bjóða og svo má ekki gleyma elsku börnunum.“