Sjálfboðaliðar í Garði aðstoðuðu á Garðvangi
Í vetur hafa níu sjálfboðaliðar í Garði unnið með heimilisfólkinu á Garðvangi. Konurnar hafa unnið mikið og gott starf með eldri borgurum á Garðvangi. Þær hafa mætt þar þrisvar í viku og átt góða stund með heimilisfólkinu og starfsmönnum.
Garðvangur og Sveitarfélagið Garður færði þeim þakkir og bauð þeim ásamt mökum í mat á Tveimur vitum á Garðskaga og gaf jafnframt áritaða bók um sögu Gerðahrepps í 90 ár.
Þær konur sem unnu sjálfboðaliðastörf í vetur voru, Helga Hauksdóttir, Mona Ægisdóttir, Helga Tryggvadóttir, Jenný Aðalsteinsdóttir, Lilja Guðmundsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir, Sæbjörg Þórarinsdóttir, Sólveig Óskarsdóttir og Albína Jóhannesdóttir.
Mikill áhugi er á því að halda áfram með sjálfboðaliðastarfið á Garðvangi í haust. Þá er ætlunin að fá fleiri til liðs við sjálfboðaliðana og verðlaunin eru fyrst og fremst sú ánægja og gleði sem fylgir því að láta gott af sér leiða.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson