Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Síungur sjötugur Karlakór Keflavíkur
Karlakór Keflavíkur á sviðinu í Stapa íklæddir búningum frá hinum ýmsu tímabilum í sögu kórsins.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 18. nóvember 2023 kl. 06:08

Síungur sjötugur Karlakór Keflavíkur

Sjötugur Karlakór Keflavíkur bauð upp á afmælistónleika í Hljómahöll síðasta laugardag. Mikið var um dýrðir á þessu stórafmæli kórsins sem hafði æft vel afmælissöngdagskrá sem hófst á laginu Suðurnesjamenn og er óhætt að segja að það hafi verið við hæfi. Nærri fjögur hundruð manns mættu prúðbúnir á tónleikana og nutu skemmtilegrar dagskrár sem var ekki bara söngur heldur líka sögustund sem Hjálmar Árnason, fyrrverandi þingmaður og skólameistari, sá um. Saga kórsins er stórmerkileg.

Eftir upphafslagið Suðurnesjamenn stóð elsti félagi kórsins, Valgeir Þorláksson, fram og söng einsöng, lagið Ég bið að heilsa. Valgeir bakaði brauð og kökur í samnefndu bakaríí í Njarðvík í um fimmtíu ár. Nú er Valli bakari í framhaldsnámi í söng í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og því hvergi nærri hættur. Í næsta einsöngslagi þandi Haraldur Helgason, annar Njarðvíkingur, röddina en hann er menntaður matreiðslumaður. Kokkur og bakari gáfu því tóninn í upphafi skemmtilegra tónleika þar sem sungin voru á þriðja tug laga, þekkt karlakórslög en líka popplög eftir kunna tónlistarmenn og að sjálfsögðu eftir Hljóma úr Keflavík. Það var ljúft að heyra afmælisbarnið, þrjátíu söngvara á sviði Stapans, syngja lög eins og Íslenskir karlmenn eftir Stuðmenn, Söknuð eftir Vilhjálm Vilhjálmsson og Bláu augun þín eftir Hljóma, bara svo tekin séu örfá dæmi úr söngdagskrá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Karlakórinn hefur á langri ævi verið með marga stjórnendur. Sá fyrsti var Guðmundur Norðdahl en núverandi stjórnandi er Keflvíkingurinn Jóhann Smári Sævarsson en hann er þekktur óperusöngvari og bassi og starfaði í mörg ár sem atvinnusöngvari erlendis. Hann hefur undanfarin ár verið á heimaslóðum og staðið fyrir mörgum tónleikum og söngleikjum. Jóhann Smári hefur stýrt Karlakór Keflavíkur frá árinu 2017. Sonur hans, Sævar Helgi, var hljómsveitarstjóri á tónleikunum og píanóundirleikari en amma hans, móðir Jóhanns Smára, Ragnheiður Skúladóttir, var undirleikari kórsins í um fjörutíu ár.

Eftir hlé á tónleikunum var bryddað upp á búningasýningu en kórinn hefur í gegnum tíðina verið duglegur við að skipta um fatnað. Fjórir litir koma við sögu í búningavali kórsins; blár, rauður, grænn og svartur. Kórfélagar sýndu allar gerðir og komu í þeim inn á sviðið sem áhorfendur kunnu vel að meta. Hjálmar sögumaður sagði frá þróuninni í búningum og gestir höfðu gaman af.

Kórinn hefur á löngum ferli haldið fjölda tónleika, farið í margar tónleikaferðir en eitt stærsta verkefni hans var bygging félagsheimilis að Vesturbraut 17 í Keflavík. Fyrsta skóflustunga að félagsheimilinu var tekin 27. maí 1976. Kórinn gaf síðan Keflavíkurbæ neðri hæð hússins árið 1983. Kórfélagar byggðu húsið í sjálfboðavinnu og áður en yfir lauk voru vinnustundir þeirra fjörutíu þúsund. Kórinn á ennþá efri hæð hússins þar sem hann æfir en húsnæðið hefur einnig verið leigt út.

Afmælistónleikunum lauk með einu mest sungna lagi á Íslandi undanfarin ár, Ferðalok, Ég er kominn heim. Gestir tóku vel undir og sungu með kór og hljómsveit. Góður endir á frábærum tónleikum.

Til hamingju Karlakór Keflavíkur og takk fyrir ykkar framlag í söng og menningu Suðurnesja.

Páll Ketilsson.