Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sísköpunarsprettur grunnskóla Reykjanesbæjar hefur göngu sína
Laugardagur 5. mars 2022 kl. 04:17

Sísköpunarsprettur grunnskóla Reykjanesbæjar hefur göngu sína

Rotaryklúbbur Keflavíkur færði grunnskólum þrívíddarprentara

Rótarýklúbbur Keflavíkur afhenti í síðustu viku öllum grunnskólum Reykjanesbæjar þrívíddarprentara að gjöf í tilefni þess að í ár hefur Sísköpunarsprettur grunnskólanna göngu sína. Sísköpunarsprettur er verkefni sem leitt er af þeim Hauki Hilmarssyni, Brynju Stefánsdóttur og Sveinbirni Ásgrímssyni. Þau eru kennarar við Stapaskóla en þau hlutu styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði Reykjanesbæjar skólaárið 2021–2022 til þess að setja á laggirnar nýsköpunarkeppni grunnskóla Reykjanesbæjar sem nú hefur fengið nafnið „Sísköpunarsprettur“ með það að markmiði að hvetja til hönnunar og sköpunar í gegnum endurvinnslu og endurnýtingu.

„Sísköpunarsprettur er hugmyndabanki fyrir grunnskólakrakka í Reykjanesbæ þar sem þeir geta sent inn hugmyndir, sem ég skapa sísköpun. Við erum að leita leiða til að horfa til náttúrunnar og endurnýta. Við erum að opna vettvang fyrir krakka til að hugstorma um hugmyndir og senda þær inn til okkar hugmyndir,“ segir Haukur Hilmarsson, kennari í hönnun og smíðum við Stapaskóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar er afar ánægður með þetta framtak.

„Þetta er frábært verkefni sem þau hafa frumkvæði að  í Stapaskóla. Við komum að þessu með stofnun nýsköpunar- og þróunarsjóðs sem settur var á stofn fyrir tveimur árum síðan og ýtir mjög undir nýbreytni og þróunarstarf í skólum, sem er mjög gjöfult og frjótt. Sjóðurinn ýtir undir það að svona verkefni hljóta brautargengi. Við erum gríðarlega stolt af þessu verkefni sem nú er verið að kynna,“ segir Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar.

Haukur segir að verkefnið eigi að verða uppspretta hugmynda hjá ungmennunum.

„Hugmyndin er að krakkar getið fundið leiðir til að endurnýta allskonar dót, hvort sem það eru pappahólkar af eldhúsrúllum og ýmiskonar plastafgangar. Ég hef ekki hugmynd um hvaða hugmyndir krakkar fá en krakkar eru endalaus uppspretta frábærra hugmynda. Þetta er vettvangur þar sem við ætlum að reyna ýta undir að krakkar geti skoðað umhverfi sitt og finni hugmyndir sem geta haft jákvæð áhrif á umhverfið.“

„Stapaskóli mun stýra ferðinni og við hjá fræðslusviði bæjarins verðum til stuðnings. Þetta verður ekki í keppnisformi, heldur meira hátíð og hugsað þannig að allir taki þátt. Það að þetta sé í nærumhverfinu og sjálfskapað hér ýti undir þátttöku skólanna. Við höfum lengi horft til þess að krakkarnir hér taki þátt í nýsköpunarkeppni grunnskólanna á landsvísu en ég hef þá trú og væntingar að við fáum góða þátttöku hjá krökkunum okkar og skólunum í þessu verkefni, þegar það er unnið svona í nærumhverfinu,“ segir Helgi.

Haukur segir að vegleg gjöf Rotary komi sé vel.

„Já, við erum heldur betur heppin. Rotaryklúbbur Keflavíkur er ótrúlega gjafmildur að gefa öllum skólunum þrívíddarprentara sem mun alveg örugglega opna enn meira fyrir sköpun þegar krakkarnir fá vöruna beint í hendurnar og gert frumgerðir í stað þess að vera bara að teikna og pæla. Við erum Rotaryklúbbnum ótrúlega þakklát fyrir þennan geggjaða stuðning. Ég vil einmitt að skólarnir eigi bara verkfærin til að grípa sköpun barnanna. Við vorum svo heppin þegar Stapaskóli opnaði að geta hoppað beint inn í 21. öldina og erum einmitt að þróa þetta, að kenna krökkum að hugsa í þrívídd og tölvutækt. Að nota spjaldtölvur og tölvur. Og síðan að geta skilað vörunni í hendur, jafnvel samdægurs. Þetta hefur gengið ótrúlega vel hér í Stapaskóla og krakkarnir eru endalaust og teikna, pæla og alltaf að 3D-prenta. Þetta er langvinsælasta verkfærið hjá yngstu krökkunum. Þau eru steinhætt að saga og pússa, þau vilja bara 3D-prenta,“ segir Haukur.

Þetta er gott dæmi um að við erum á tölvu- og tækniöld. Liggur þetta vel við ungmennunum?

„Já, þetta liggur vel við krökkunum. Þau hafa ímyndunaraflið og erum forvitin. Það er okkar hlutverk að ýta undir það og skapa umhverfi og að þau fái notið sín. Þar kemur búnaður til sögunnar en fyrst og fremst mannauðurinn. Kennararnir búa til þetta umhverfi börnin. Þá skiptir umhverfið líka höfuðmáli. Þá vil ég nefna að þetta verkefni smellpassar við nýja menntastefnu Reykjanesbæjar, sem er framsýn og um leið sígild. Áherslur í þessu verkefni smellpassa við áherslur menntastefnunnar,“ segir Helgi.

Grunnskólar í Reykjanesbæ hafa verið framsýnir í nýtingu á tækni í skólastarfi. Heiðarskóli ruddi brautina með innleiðingu á spjaldtölvum í kennslu og hinir skólarnir í bænum hafa fylgt í kjölfarið að vera með skólastarfið í takti við tímann og þróun í samfélaginu.

Haukur segir að nemendur Stapaskóla séu fljótir að tileinka sér alla þá tölvutækni sem beitt sé í náminu og segir að það komi á óvart hvað hóparnir séu alltaf að verða yngri og yngri sem tileinki sér tölvutæknina í náminu. Hann hafi haldið að unglingarnir yrðu leiðandi, en það séu frekar yngstu nemendurnir sem sýni tölvutækninni mestan áhuga.

Okkar leið til að örva sköpunarhugsun hjá krökkum

Rotaryklúbbur Keflavíkur afhenti í síðustu viku öllum grunnskólum Reykjanesbæjar þrívíddarprentara að gjöf. Prenturunum er ætlað að örva sköpunarhugsun hjá nemendum skólanna núna þegar Sísköpunarsprettur er að hefjast hjá grunnskólakrökkum í Reykjanesbæ.

„Við hjá Rotaryklúbbi Keflavíkur vorum að leita okkur að verkefni fyrir þetta starfsár. Við plægðum akurinn og sögðum við sjálf okkur að þetta ár ætluðum við ekki að fara í gróðursetningu, heldur gera eitthvað annað. Við lásum í gegnum Sóknaráætlun Suðurnesja og þar kom þessi áhersla varðandi sköpun og hönnun í ljós. Svo erum við svo heppin að Haukur Hilmarsson, sem er kennari í Stapaskóla, er einnig í Rotaryklúbbi Keflavíkur og hann benti okkur á þessa hugmynd að taka þátt í, að styrkja Sísköpunarsprettinn. Þetta þróaðist út í það að þetta væri sniðuga leiðin fyrir okkur, að kaupa þessa þrívíddarprentara í skólana, til að örva þessa sköpunarhugsun hjá krökkunum,“ segir Hannes Friðriksson, formaður Rotaryklúbbs Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir.