Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sigvaldi nýtur lífsins á Hofsósi eftir gönguna miklu
Þriðjudagur 16. júní 2015 kl. 14:49

Sigvaldi nýtur lífsins á Hofsósi eftir gönguna miklu

Göngugarpurinn Sigvaldi Arnar Lárusson er kominn á leiðarenda til Hofsós og hefur þar með lokið Umhyggjugöngu sinni. Ferðalagið hófst að morgni 05. júní við lögreglustöðina í Reykjanesbæ og lauk níu dögum seinna, laugardaginn 13. júní sl. á Hofsósi. Víkurfréttir náðu tali af Sigvalda fyrr í dag þar sem hann hvíldi lúinn bein í gamla heimabænum sínum Hofsósi.

„Ég er kominn á leiðarenda eftir langa og stranga göngu og nýt þess nú að hvíla mig í veðurblíðunni hér á Hofsósi. Ég og fjölskyldan vorum að koma úr sundi í flottustu sundlaug landsins og nú er stefnan sett á ísbúðina enda er 19 stiga hiti og blankalogn hjá okkur.“ Sigvaldi sagði að þetta veður væri draumi líkast og algjörlega magnað eftir að hafa fengið alls konar veður á göngu sinni til Hofsós.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigvaldi hefur verið duglegur við að deila myndum á samfélagsmiðlum af bólgnum fótum sínum og því lék blaðamanni forvitni á að vita hvort hann væri gróinn sára sinna. „Nei sárin eru nú ekki gróin, en þau eru að gróa. Það eru hellings bólgur í ökklunum ennþá og töluvert mar en þetta svona kemur smátt og smátt. Ég get víst ekki sagt að þetta grói áður en ég gifti mig því að ég er búinn að gifta mig,“ sagði Sigvaldi hlæjandi og bætti því við í léttum tón að sárin yrðu sennilega gróin fyrir næstu göngu!