Sigurbjörg heiðruð fyrir óeigingjarn sjálfboðastarf
– bleikur föstudagur í dag
Eins og undanfarin ár heiðrar Krabbameinsfélag Suðurnesja konu á Suðurnesjum með því að afhenda henni fyrstu bleiku slaufuna í október. Sigurbjörg Þorleifsdóttir hlaut þann heiður í ár. Hún hefur unnið farsælt og óeigingjarn sjálfboðastarf fyrir Krabbameinsfélag Suðurnesja og Samhjálp kvenna, sem er stuðningsfélag þeirra sem greinst hafa með brjóstakrabbamein. Það var Sigríður Ingibjörnsdóttir, nýr starfsmaður félgsins, sem afhenti Sigurbjörgu slaufuna.
Krabbameinsfélag Suðurnesja er að hefja vetrarstarf sitt eftir sumarfrí. Félagið býður upp á fræðslu og upplýsingagjöf fyrir krabbameinssjúka og aðstandendur þeirra. Haldin verða námskeið og fyrirlestar fyrsta þriðjudagskvöld hvers mánaðar í húsi félagsins eins og verið hefur. Félagið býður upp á hópastarf þar sem krabbameinssjúklingar og aðstandendur þeirra geta hitt aðra í svipaðri stöðu, tekið þátt í handavinnuhóp, gönguhóp og fleira.
Bleikur mánuður er mikilvægur til að minna konur á að huga að heilsunni og mæta í kabbameinsleit í brjóstum og leghálsi. Bleika slaufan er seld nú í október til árverknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands. Fjöldi bygginga á Suðurnesjum eru lýstar upp með bleiku ljósi af því tilefni.
Föstudaginn 16. október beinir Krabbameinsfélagið því til allra að klæðast bleiku eða hafa bleikan lit í fyrirrúmi. Jafnframt eru fyrirtæki á svæðinu hvött til að vera með bleikt í fyrirrúmi. Með því sýnum við samstöðu í verki. Skólar gætu t.d. haft bleikt þema.