Sigrún Elsa tendraði jólaljósin í Reykjanesbæ
Mikill fjöldi fólks fylgdist með þegar Sigrún Elsa Eyjólfsdóttir, 11 ára Keflavíkurmær úr 6. bekk í Heiðarskóla tendraði ljósin á stærsta jólatré Reykjanesbæjar við hátíðlega í gær á torginu við skrúðgarðinn.
Jólatréð er gjöf frá vinabænum Kristiansand en norski sendiherrrann Dag Werno Holter afhenti tréð og flutti ávarp. Hann sagði að þessi árlega gjöf frá norskum vinum íbúum Reykjanesbæjar væri tákn um góða vináttu þeirra og Norðmanna og Íslendinga í milli. Gunnar Þórarinsson forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þakkaði gjöfina.
Dagskrá var hefðbundin en fram komu blásarasveit tónlistarskólans, barnakór Holtaskóla og þá komu jólasveinar í heimsókn og sungu jólalög. Þá voru viðurkenningar veittar frá Skessudögum.
Nokkur hundruð manns, börn og foreldrar mættu á athöfnina og krakkarnir kunnu vel að meta heimsókn þeirra rauðklæddu sem komu að venju á slökkvibíl Brunavarna Suðurnesja.
Fleiri myndir má sjá í Ljósmyndasafni vf.is
Blásarasveit tónlistarskólans og barnakór Holtaskóla komu fram.
Nokkur hundruð manns mættu við tendrunina.
Jólasveinarnir tóku lagið á sviðinu og gengu svo í kringum jólatréð með krökkunum.
Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Gunnar Þórarinsson og Steinunn kona hans, norski sendiherrann og frú og Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar.