Sigrún Eldjárn heimsótti skólabörn í Grindavík
Lestrarsprettur stendur nú yfir hjá 1.-3. bekk.
Lestrarsprettur stendur nú yfir hjá 1.-3. bekk Grunnskólans í Grindavík. Mikilvægt er að ná tökum á lestri og er þátttaka foreldra lykilatriði í því ferli. Samkvæmt lestrarstefnunni skólans er lögð áhersla á að kynna rithöfund á vorönn og að þessu sinni kom sjálf listakonan Sigrún Eldjárn í heimsókn í skólann.
Sigrún kynnti bækur sínar fyrir börnunum, sýndi myndir og las úr nýjustu bókinni um Kugg, Málfríði og mömmu Málfríðar. Tvær tvær bækur með þeim, Listahátíð og Ferðaflækjur, eru væntanlegar í bókaverslanir í vor.
Börnin hlustuðu áhugasöm og fylgdust vel með myndum sem Sigrún varpaði á vegg. Nemendur hafa safnað á veggi skólans skotthúfum og strigaskóm en það sýnir hversu margar mínútur og/eða bækur þeir hafa lesið heima í þessum lestrarspretti.
Rithöfundurinn og myndlistarkonan Sigrún Eldjárn er einn af máttarstólpum íslenskra barnabókmennta. Eftir hana liggja ógrynni vinsælla bóka og hún er alltaf að. Fyrsta bók hennar kom út 1980 og nefnist hún Allt í plati.
Myndir: Grunnskólinn í Grindavík.