Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sigruðust á blöðrum, veðurofsa og beljandi jökulám - myndir
Laugardagur 31. júlí 2010 kl. 11:21

Sigruðust á blöðrum, veðurofsa og beljandi jökulám - myndir

Kristín Jóna Hilmarsdóttir úr Reykjanesbæ og tvær vinkonur hennar, þær Margrét Hallgrímsdóttir og Anna Lára Eðvarðsdóttir hafa nýlokið heilum mánuði á göngu þvert yfir Ísland, frá Reykjanestá að Fonti á Langanesi. Vegalengdin er um 650 kílómetrar. Þær eru hluti af gönguhóp 14 kvenna sem hefur tekist á við hin ýmsu gönguverkefni sl. fimm ár. Víkurfréttir tóku hús á Kristínu Jónu, fengu að skoða nokkrar myndir úr ferðinni og forvitnuðust um hvernig hafi gengið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Stór ákvörðun
Kristín Jóna sagði ferðalagið hafa verið stóra ákvörðun og aðallega vegna þess hversu langan tíma það taki að ganga þessa leið. Hver um sig var með 70 lítra bakpoka og voru við upphaf ferðar að bera um 20 kg. af farangri á bakinu. Þær voru með eitt 3ja manna tjald sem skipt var á tvær og sú þriðja bar eldunarbúnað. Þá var fyrstu 10 dagana ekkert vatn að hafa þannig að þær urðu að bera það allt með sér einnig. Göngugarparnir fengu matarsendingar með fimm daga millibili og skipulögðu hverja dagleið mjög vel. Þá var fyrirfram ákveðið að taka einn frídag í viku. Skipulagið gekk nánast upp ef undan er skilið þegar hópurinn varð veðurtepptur á Gæsavötnum í þrjá sólarhringa eftir að hafa hreppt slæmt veður með vindi, kulda og slyddu.

Vöktu athygli
Þær stöllur vöktu talsverða athygli fyrir stóra bakpoka við upphaf ferðarinnar. Þær voru oft stoppaðar og spurðar á hvaða ferðalagi þær væru. Kristín Jóna sagði að þær stöllur hafi skipt ferðinni upp í áfanga. Fyrsta markmiðið var að komast á Þingvelli sem tókst á sex dögum. Næsti áfangi var að komast í Kerlingafjöll og svo koll af kolli.
Blöðrur á fótum
Önnur barátta í ferðalaginu, alveg frá degi tvö, var baráttan við blöðrurnar. Hjúkrunarfræðingurinn í hópnum sá hins vegar um meðhöndlun þeirra. Kristín Jóna sagði að öll þau ár sem þær hafi labbað saman hafi blöðrur ekki verið vandamál. Nú hafi hver dagleið hins vegar verið lengri og þungir bakpokar aukið álag á fætur.

Jökulárnar erfiðastar
Vinkonurnar voru ekki í neinum eiginlegum fjallgöngum á ferðalagi sínu, þó svo oft hafi ferðin verið upp í móti. Þá þurfti að fara yfir jökul og vaða jökulár og þar var að sögn Kristínar það erfiðasta í ferðinni. Þar nutu þær leiðsagnar reyndra aðila, enda hefðu þær ekki ráðið við það einar og þurft að leggja stóra lykkju á leið sína til að komast framhjá jökulánum. Upptök Þjórsár voru líkamlega erfiðasti kafli ferðarinnar. Andlega sagði Kristín Jóna að ferðin hafi ekki verið erfið. Þær hafi þekkst vel enda gengið mikið saman undanfarin ár. Hún segir að það þurfi nett kæruleysi til að takast á við svona verkefni og alls ekki að velta sér mikið upp úr ferðalaginu fyrirfram. Verkefnið sé erfitt en vel hægt að sigrast á því. Þær voru heppnar með veður alla leið í Kerlingarfjöll en þá elti þær leiðinlegt veður í 10 daga.

Mývatnssveitin fallegust
Aðspurð hvað væri fallegasti hluti leiðarinnar, sagði Kristín Jóna að Mývatnssveitin væri mjög falleg en hins vegar væri eriftt að gera upp á milli svæða. Þau væru öll falleg og sérstök á sinn hátt. Öxarfjarðarheiðin er hins vegar ekki ofarlega á vinsældarlistanum. Hún hafi verið löng og leiðinleg og ekki hafi bætt úr skák að þar hafi verið mikil umferð og þær því að kafna í ryki allan daginn.


Á ferðalaginu fengu þær stöllur boð frá Bláa lóninu um dekur og lúxus nudd í lóninu. Á erfiðum dögum hugsuðu þær mikið til þessa boðs og ætla láta verða af því að mæta á næstu dögum. Þá voru þær með snyrtitöskur frá Bláa lóninu með sér í ferðinni með andlitslínu, kremum og hreinsir sem kom að góðum notum.
Þær stöllur ætla að halda áfam gönguferðum. Þessi leið verður ekki farin aftur en án efa verður fljótlega sest niður og skipulögð önnur ævintýraferð um Ísland eða fjarlæg lönd.

[email protected]

MYNDASAFN MEÐ MYNDATEXTUM