Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 29. janúar 1999 kl. 07:00

SIGRÍÐUR JÓHANNESDÓTTIR

Nú eru aðeins tæpar tvær vikur eru í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjanesi og er þegar orðið ljóst að hart verður barist eins og tíðkast í prófkjörum. Staða mín í þessu prófkjöri er nokkuð flókin. Ég hefi setið á þingi í um það bil 3 ár eftir að Ólafur Ragnar Grímsson varð forseti Íslands og hefi ég lagt mig fram um að inna þingstörf mín vel af hendi. Það vill samt svo til 7 að frambjóðendur eru í þingsæti Alþýðubandalagsins hér í kjördæminu þannig að vissulega er hætta á því ef fólk uggir ekki að sér að dreifingin á frambjóðendur verði mikil og ekkert okkar fái góða kosningu. Það verður nú væntanlega ekki listanum í heild til góðs ef Alþýðubandalagið er ekki presenterað þar í efstu sætum með sannfærandi hætti. Ég hefi áður lýst því yfir að ég tel að Alþýðuflokkurinn eigi að eiga efsta mann á Reykjaneslistanum en Reykjanesskjördæmi hefur lengi verið þeirra sterkasta kjördæmi. Á sama hátt finnst mér eðlilegt að fulltrúi Alþýðubandalagsins skipi 2.sæti listans. Til að hann nái kosningu í það sæti þurfa kjósendur listans almennt að setja hann í það sæti og huga þannig að því að listinn verði um leið trúverðugur fyrir kjósendur þeirra flokka sem að honum standa. Einnig væri æskilegt að reynt yrði að ná samstöðu um hvaða Alþýðubandalagsmenn á að leggja áherslu á í síðari sæti en Alþýðubandalagið ætti að öllu eðlilegu að eiga 2 fulltrúa meðal 5 efstu ef litið er til niðurstöðu síðustu kosninga. Kvennalistinn býður einnig fram 5 frambjóðendur í þessum kosningum og æskilegt væri að fá það fram hvaða frambjóðenda þær leggja einkum áherslu á svo hægt verði að tryggja þeirra frambjóðenda kosningu á listann en um þær gildir auðvitað það sama að það er ekki góð ásýnd á því að það þurfi að draga inn fyrir girðinguna þeirra frambjóðenda og setja um leið annan niður. Þessi aðferð til að velja fólk á framboðslista þ.e. opið prófkjör, þegar um sameiginlegt framboð þriggja flokka er að ræða gerir kröfu til þess að þeir sem mæta í þetta prófkjör hugsi lýðræðislega,reyni ekki endilega að hygla sínum flokki eða byggðarlagi heldur raði á listann eins og hann þarf að líta út til að fólk treysti honum sem öflugum valkosti sem fólk getur óhrætt treyst fyrir atkvæði sínu í komandi Alþingiskosningum. Ég hefi ákveðið að leggja mitt að mörkum til að styðja við slíka lýðræðislega hugsun með því að gefa kost á mér í 2.sæti þessa framboðslista. Ekki síst tel ég það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að prófkjörið snúist upp í einvígi Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sem að mínum dómi væri afar óheppilegt upphaf að farsælu samstarfi innan Samfylkingarinnar. Ég hefi orðið vör við að þessi ákvörðun mín mælist vel fyrir meðal kjósenda og margir stuðningsmenn hinna Samfylkingarflokkanna hafa þegar komið að máli við mig og tekið undir minn málflutning í þessum efnum. Ég vona að þessi ákvörðun mín muni mælast vel fyrir meðal kjósenda og bið því um öflugan stuðning þeirra í komandi prófkjöri þann 5. og 6. febrúar n.k. Sigríður Jóhannesdóttir alþingismaður
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024