Siggi Guðmunds hjálpar til við hreingerningarnar
Jólatónar: Brynjar Leifsson
Hvaða lög komu Suðurnesjafólki í jólaskapið? Við á Víkurfréttum fengu nokkra tónelska til þess að velja eftirlætis jólalögin sín og deila því með lesendum okkar.
Brynjar Leifsson, Gítarleikari hljómsveitarinnar Of Monsters And Men, hlustar alltaf á jólaplötu Sigurðar Guðmundssonar við jólahreingerningarnar. Hann veit svo að jólin eru að koma þegar Ellý Vilhjálms byrjar að hljóma heima hjá foreldrum hans og smákökuilmur fyllir húsið. Eftirlætis jólalagið er svo með hljómsveitinni Raveonettes. (Hér að neðan má hlusta á lög Brynjars á Spotify en einnig er hægt að smella á heiti lagana sem eru rauðlituð og hlusta þannig)
Það eru að koma jól - Ellý Vilhjáms
Ég veit að jólin eru að nálgast þegar ég heyri þessa plötu heima hjá mömmu og pabba. Yfirleitt fylgir þessari plötu smákökuilmur úr eldhúsinu hjá mömmu.
The Ventures - Silver Bells
Fann þessa hrikalega fínu jólaplötu með The Ventures í búð í Ameríku einu sinni. Eftir þau kaup hefur þessi plata verið fastur liður yfir hátíðarnar. Nóg af gítar og jólaklukkum, hvers annars gæti maður óskað sér yfir hátíðarnar?
Sigurður Guðmundsson - Nú Mega jólin koma fyrir mér
Platan „Nú stendur mikið til“ er ein fallegasta jólaplata sem ég hef heyrt. Það er erfitt að velja eitt lag af plötunni en þetta lag er alltaf svo hrikalega gott í jólahreingerningunum.
Sniglabandið - Jólahjól
Þarf eitthvað að útskýra þetta?
The Raveonettes - The Christmas song
Þetta er uppáhalds hljómsveitin mín og jafnframt uppáhalds jólalagið mitt. Jólin koma ekki án þess að setja þetta nokkrum sinnum á með heitu súkkulaði.