SIGFÚS KRISTJÁNSSON SKRIFAR: SÚLUDANSINN HELDUR INNREIÐ SÍNA Í REYKJANESBÆ
Ég hef, ásamt nokkuð mörgum íbúum Reykjanesbæjar, lýst mig í andstöðu við opnun á nýjum vínveitingastað í bænum, með nektarsýningum, súludansi og öllu því er þar kann að fylgja. Fjölmargir sem ekki vissu af þessum undirskriftum, hefðu gjarnan viljað setja nafn sitt þar. Þessi afstaða okkar fór illa fyrir brjóstið á blaðamanni og taldi hann að hér væri um einhvern sértrúarflokk að ræða, en svo er ekki. Í ítarlegu blaðaviðtali lýsti Jón Magnús Harðarson, eigandi Casino, að hann hefði lagt mikið fjármagn og alla sína framtíð til þess að hugsjón hans um nýjan vínveitingastað og nektarbúllu, næði fram að ganga. Þá var bara eitt sem vantaði, en það var leyfi til að selja áfengi, helst alla daga og langt fram á nætur. Við þessar aðstæður er ekki annað að gera en að leggja allt sitt traust á Bakkus gamla, því án hans fulltingis fer útgerðin með súludansmeyjunum á hausinn.En hvað þýðir fjölgun vínveitingastaða? Hagfræðideild Háskóla Íslands birti árið 1991 mjög ítarlega skýrslu um peningalegt tjón þjóðarinnar af völdum áfengisneyslu landsmanna árið 1988. Það reyndist vera 4,1 milljarður. Síðan hafa sveitarfélög keppst við að fjölga vínveitingastöðum í tugatali og vínsölumönnum sem hafa sitt lifibrauð af því að salan gangi vel. Þrátt fyrir bölvun eiturlyfjanna er þó eini löglegi vímugjafinn, áfengið, ennþá mesti skaðvaldur í krónum talið.Í Reykjanesbæ hefur verið sótt um vínveitingaleyfi fyrir Casino, Grófinni 8, sem hefur talsverða sérstöðu í þessu efni. Mér finnst að mörgum bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar hafi langað til að segja nei við þessari umsókn, en ekki þorað af því að einhverjir misvitrir lögfræðingar hafa sagt þeim að þeirra skylda væri að segja já, því annað væri lögbrot.Öllum ber saman um að það sé lagaskylda bæjarstjórna að taka umsóknir um leyfi til vínveitinga til umfjöllunar. Er þá nokkur glóra í því að önnur lög múlbindi allar sveitastjórnir landsins og skipi þeim að samþykkja allar umsóknir þess eðlis, og gefi þar með öllum umsækjendum vínveitingaleyfi fram í tímann, ef þeir hafa tilskilið húsnæði fyrir þessa starfsemi.Ég bar þetta undir nokkra fróða menn á þessu sviði, m.a. undir landskunnan og virtan hæstaréttarlögmann. Hann sagði að réttur bæjarstjórna til umfjöllunar og ákvarðana um hvort þær samþykktu eða höfnuðu vínveitingaleyfum, hefði aldrei verið frá þeim tekinn. Ótti manna við að stynja upp að þeir vilji segja nei, virðist því vera ástæðulaus.Að lokum vil ég enn beina athyglinni að framtíðarstaðnum Casino. Mörgum mun finnast það meinlaust þótt þetta stelpustóð forstjórans tjái einhverju stálröri ófullnægju sína. En hér vinna allir einhverja aukavinnu og það hljóta þær að gera líka, og þá sennilega eitthvað til að létt a lund karlpeningsins. Hús þessa skemmtistaðar er að sjá vel byggt og gluggar þess rúmgóðir. Í þessum gluggum telja sumir að súludansmeyjar muni í framtíðinni sitja skrautlýstar, og taka með blíðu á móti gestum staðarins.Sigfús Kristjánsson