SÍGANDI LUKKA ER BEST
Veigar Margeirsson er Keflvíkingur sem býr nú ásamt eiginkonu sinni Sigríði Rögnu Jónasdóttur, Sirrý, og ungri dóttur sinni Ragnhildi Veigarsdóttur, í borg englanna, Los Angeles. Veigar var þar í sérnámi í kvikmyndatónlist en er nú að hasla sér völl í landi tækifæranna. Áður en hann hélt til L.A. lék hann á trompet með vinsælli hljómsveit, Milljónamæringunum, fór í tónleikaferð til Asíu með Mezzoforte, spilaði með Bjögga Halldórs og fleiri góðum, lauk B.M. gráðu í trompetleik og masters gráðu í tónsmíðum og útsetningum frá háskóla í Miami á Flórída. Þrátt fyrir velgengni í starfi hefur sorgin líka knúið dyra hjá þeim Sirrý og Veigari en þau misstu nýfædda dóttur sína s.l. sumar.Ferðaðist með MezzoforteVeigar fæddist í Keflavík þann 6.júní 1972. Hann fór í Tónlistarskóla Keflavíkur, lærði þar á trompet og sló, sællar minningar, í gegn með hljómsveitunum Bleikum blöðrum og Svörtum pipar. Veigar varð stúdent af náttúrufræði- og tónlistarbraut frá FS í desember 1991 og tók burtfararpróf í trompetleik frá Tónlistarskóla Keflavíkur í maí 1992. Leiðin lá síðan í Tónlistarskóla FÍH en þar stundaði hann nám veturinn 1992-93. „Ég fór síðan í tónleikaferðalag með Mezzoforte til Asíu haustið 1993. Við ferðuðumst til Indónesíu, Malasíu og Singapore. Þegar ferðinni lauk flutti ég, ásamt Sirrý unnustu minni, til Boston þar sem ég fór í nám. Við fluttum aftur heim til Íslands haustið 1994 og skömmu síðar kom Ragnhildur Veigarsdóttir í heiminn“, segir Veigar og af upptalningunni má sjá að þessi tími hefur verið mjög viðburðaríkur í lífi litlu fjölskyldunnar.Fleiri tækifæri erlendisÆvintýrinu lauk ekki því Veigar fór á fullt í skemmtanabransanum á Íslandi og lék á trompet með mörgum af skærustu stjörnum okkar Íslendinga. Á milli þess sem hann tróð upp á sviðinu kenndi hann tónmennt og á trompet. „Ég spilaði með Bjögga Halldórs á Hótel Íslandi og aðra hverja helgi í Bingólottóinu og ferðaðist út um allt land með Páli Óskari og Millunum. Ég spilaði líka inn á fullt af plötum, það var alveg klikkað að gera hjá mér á þessum tíma“, segir Veigar og dæsir. Hann segist þó alltaf hafa ætlað í framhaldsnám og aldrei hafa séð eftir að gefa þetta líf uppá bátinn fyrir frekari tækifæri á erlendri grund. Sirrý og Veigar giftu sig og héldu af stað til Miami á Flórída haustið 1995. Þaðan lauk Veigar B.M.- gráðu í trompetleik í desember 1996 og Masters-gráðu í tónsmíðum og útsetningum í maí 1998. Þau vilja þakka Sparisjóðnum í Keflavík fyrir dyggan stuðning.Semur kvikmyndatónlist í L.A.„Sumarið 1998 keyrðum við af fellibyljasvæði Suður Flórída yfir til jarðskjálftasvæðisins í Suður Kaliforníu, nánar tiltekið Los Angeles. Ég fór í sérnám í kvikmyndatónlist við University of Southern California og lauk náminu s.l. vor. Síðan þá hef ég verið að hasla mér völl í vægast sagt geysiharðri samkeppni hérna úti. Fyrsta verkefnið sem ég fékk, var að semja tónlist við heimilda- og kennslumynd fyrir ameríska fanga“, segir Veigar. Hann segir að geysilega mikill tími fari í að kynna sjálfan sig og að finna verkefni. „Ísland er nánast eins og verndaður vinnustaður og samkeppnin með minnsta móti. Í L.A er mikil harka og í raun offramboð á fólki því allir vilja vera í Hollywood. Eftir að hafa hafa sáð fræjum s.l. ár er uppskeran byrjuð að láta á sér kræla“, segir Veigar en hann er t.d. nýbúin að gera útsetningar fyrir sinfóníuhljómsveitirnar í Oregon og Spokane. Hann er einnig í samvinnu við nokkra textahöfunda og er að semja tónlist við kvikmyndir og auglýsingar fyrir ýmsa aðila.„Þó að þetta sé erfitti á köflum þá er þetta mjög skemmtilegt starf því fjölbreytnin er mikil og ég veit aldrei hvað kemur næst.“ Veigar hefur ekki sagt skilið við Ísland þó hann sé önnum kafinn erlendis, því hann gerði nokkrar útsetningar fyrir Stórsveit Reykjavíkur s.l. sumar og lék inn á geisladiska með íslenskum tónlistarmönnum. HollywoodÞegar fólk heyrir minnst á Hollywood sér það e.t.v. fyrir sér kvikmyndastjörnur á hverju horni og ævintýraheim. Veigar segir að raunin sé allt önnur. „Við höfum reyndar rekist Tom Hanks og Eddie Murpy og ég hef einnig hitt James Horner sem samdi tónlistina fyrir Titanic og Jerry Goldsmith, sem eru átrúnaðargoðin mín. Þetta eru bara ósköp venjulegir menn sem ganga um í órakaðir í gallabuxum og strigaskóm.“ Veigar segir að mannlífið sé svolítið sérstakt í þessari háborg skemmtanaiðnaðarins. „Það er ekki mikill kærleikur og hamingja sem fylgir þessu. Hér er margt fólk sem svífst einskis. Fólk er alltaf að leita að einhverju efnislegu, en svo er ekkert hér inni“, segir Veigar og leggur höndina á brjóstið. Hann segist hafa farið til L.A. vegna þess að hann vildi vinna við kvikmyndatónlist og þá er þetta rétti staðurinn til að vera á.Kvikmyndatónlist heillandiVeigar segist alltaf hafa stefnt á að verða trompetleikari en þegar hann stóð uppá sviði í fyrsta sinn og stjórnaði hljómsveit þá breyttist allt. „Ég fékk bara svo rosalega mikið kikk út út því að standa þarna uppá pallinum og stjórna, miklu meira en þegar ég spila á trompetinn. Ég fann líka fljótt að þetta lá frekar fyrir mér, þ.e. samspil myndar og tónlistar.“ Veigar segir að hlutverk kvikmyndatónskálds sé að gera myndina betri en hún er og það finnist honum mjög heillandi. Veigar vann þrjár tónsmíðakeppnir þegar hann bjó á Flórída og var í öðru sæti í einni og það hafði líka töluverð áhrif á ferilinn. „Að vinna svona keppnir er mjög gott fyrir felisskrána, þá sér fólk að maður getur eitthvað og dyr opnast. Ég hafði meiri áhuga á dramatískri tónlist frekar en poppi og djassi og vettvangurinn fyrir slíka tónlist er í kvikmyndum, þess vegna er ég þar sem ég er í dag“, segir Veigar.InnblásturHvernig verður tónlistin til? „Myndin er barn leikstjórans og hann hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig hann vill hafa tónlistina. Ég horfi á myndina og yfirleitt kviknar þá einhver hugmynd. Stundum gerist það ekki og þá hlusta ég yfirleitt á einhverja tónlist“ og Sirrý bætir við að þá geri þau yfirleitt eitthvað allt annað, eins og að fara í bíó. Veigar hefur einnig fengist við að semja auglýsingastef og hann segir að það eigi vel við hann að vinna undir pressu sem fylgir slíkri vinnu. „Þegar maður semur fyrir auglýsingar þá verður maður að hafa í huga að maður er að reyna að selja eitthvað og tónlistin þarf að virka á ákveðinn hátt. Þetta form hentar mér vel því mér finnst gott að hafa ákveðinn ramma og að vita nákvæmlega hvað fólk vill.“ Hingað til hefur Veigar aðallega samið tónlist fyrir styttri myndir, auglýsingar og hljómsveitir en eftir áramót fer hann að semja tónlist við fyrstu kvikmyndina í fullri lengd. „Ég fékk þetta verkefni eftir að hafa sent um 200 manns bréf, svona verkefni koma ekki uppí hendurnar á mér, ég verð að hafa fyrir hlutunum.“Misstu barnið sitt„Það er ekki ofsögum sagt að lífið hér er ekki alltaf dans á rósum og s.l. sumar var mjög erfitt á köflum við að koma sér áfram. Það voru okkur því gleðifréttir þegar við vissum að von væri á fjölgun hjá okkur. Okkur þótti það vera tilvalinn tími þar sem Ragnhildur okkar var orðin fimm ára gömul og byrjuð í skóla. Okkur brá því mikið þegar Sirrý greindist með alvarlega meðgöngueitrun eftir rúmlega fimm mánaða meðgöngu og fæðing var eina úrræðið til að bjarga lífi Sirrýar. Þann 26. júlí fæddist okkur lítil stúlka sem við gáfum nafnið Rannveig. Hún lifði aðeins í nokkrar mínútur og vegna þess hve mikill fyrirburi hún var, var ekki unnt að bjarga lífi hennar. Þetta var okkur mikið áfall og erfiður tími tók við. Vinur okkar Hafliði Kristinsson, sem er prestur og er hér í námi, var okkur ómentanlegur á efiðum tímum. Það er ómetanlegt að hafa trausta vini þegar svona áföll dynja yfir. Maður finnur svo mikið fyrir því hversu langt í burtu maður er frá fjölskyldunni þegar sorgin knýr dyra. Móðir Sirrýar kom strax út til okkar og var okkur til halds og trausts“, segir Veigar.Neita að gefast uppÞegar Veigar bjó á Íslandi hafði hann meira en nóg að gera og hann segir skrýtið að koma á stað þar sem hann þarf að sannfæra fólk um ágæti sitt. Hann segist samt hafa haft gott af því að vita hvernig það er að vera bara eitt af mörg þúsund sílum í sjónum. „Lykilatriðið er að trúa á sjálfan sig til að komast áfram. Það var búið að segja mér að þetta yrði erfitt og maður verður bara að neita að gefast upp. Ef maður neitar að gefast upp þá tekst þetta fyrr eða síðar. Stundum velti ég fyrir mér hvort ég sé að gera rétt. Við ákváðum að fjárfesta í sjálfum okkur og ég vissi að ég ætti að fara út í frekara nám þó að ég væri í góðum vinnum hér heima. Ég verð að viðurkenna að ég stefni ekkert lágt“, segir Veigar og Sirrý tekur undir og bætir við að þau hefðu eflaust aldrei farið út ef þau hefðu vitað hvernig þetta yrði. „Við höfðum ranghugmyndir um Bandaríkin eins og fleiri Íslendingar“, segir Veigar. „Við ímynduðum okkur þegar við fluttum til Boston að við ættum eftir að búa í stóru, fallegu húsi en við bjuggum þar í miður geðslegri íbúð þar sem voru bæði kakkalakkar og mús.“Kostar blóð, svita og tárMaður sér að þarna fara samhent hjón og þau hafa svo sannarlega þurft að berjast fyrir því að láta drauminn rætast. Veigar segir að hann hafi stundum heyrt fólk segja að þau séu svo heppinn en sannleikurinn er sá að það hefur þurft meira en heppni til að komast þangað sem hann er í dag. „Við lögðum allt undir og höfum lent í alls konar áföllum eftir að við fluttum út til Bandaríkjanna. Ég missti pabba minn, bróður minn og svo misstum við barnið okkar í sumar. Það er búið að kosta okkur blóð svita og tár að láta drauminn rætast en nú sjáum við fyrir endann á þessu.“