Sif stóð sig vel á aðalkvöldi Miss Universe
Víkurfréttir höfðu samband við Sif Aradóttur, fegurðardrottningu Íslands 2006, nú í morgun en þá var klukkan laust eftir miðnætti í Californiu. Sif er í Los Angeles þar sem fer fram Miss Universe keppnin. Í gærkvöldi var aðal kvöldið í keppninni þar sem fegurðardrottningarnar sýndu alls fjórum sinnum fyrir dómarana. Fyrst komu þær saman fram í opnunaratriði, þá komu þær fram í síðkjólum, eftir það í bíkíní, og loks í þjóðbúning sinnar þjóðar. Sif var í skautbúning sem er í eigu Reykjanesbæjar. Eftir kvöldið voru valdar þær tuttugu sem komast áfram en þó verður ekki tilkynnt um hverjar það eru fyrr en á komandi sunnudagskvöld.
Sif var hógvær og sagði að kvöldið hefði gengið ágætlega. Hún sagði að á morgun færu stelpurnar í viðtöl, og að þær fengju 30 sekúndur til að segja eitthvað við dómarana. Þar á hún að segja hvað hún er að gera í lífinu og af hverju hún tekur þátt í keppninni.
Sif segir að þetta sé búið að vera mjög skemmtilegt og að þetta sé sérstök reynsla sem gaman sé að fá að upplifa. Stelpurnar fá reyndar lítið frelsi til að gera það sem þær vilja, og þær mega ekki einu sinni fara út í sundlaugagarðinn við hótelið. En það er oft farið með þær í skipulagðar ferðir og þær eru búnar að skoða margt. Þó hefði verið gaman að sjá minna af hótelherberginu, viðurkennir Sif.
Annar sími á hótelherberginu hringdi meðan Sif var á línunni og ungfrú Tékkland, sem er herbergisfélagi Sifjar, svaraði í hann. Þær eru greinilega vinsælar í heimalöndum sínum og það er fylgst vel með þeim. En eftir þetta stutta viðtal kvöddum við Sif og leyfðum henni að fara að sofa enda eflaust þreytt eftir erilsaman dag.
Mynd/ www.missuniverse.com