Síðbúin þrettándagleði í Vogum á morgun
	Haldin verður síðbúin þrettándagleði í Vogum á morgun. Dagskráin hefst með útnefningu á íþróttamanni Voga 2014 í Álfagerði. Athöfnin þar hefst kl. 15:30 og eru allir velkomnir.
	
	Andlitsmálun fyrir alla krakka verður í boði í félagsmiðstöðinni kl. 16 og klukkustund síðar hefst kyndlaganga með kóngi og drottningu í broddi fylkingar frá félagmiðstöðinni. Gengið verður niður Hafnargötu, inn á göngustíg í átt að skólanum og endað hjá brennunni við skólann. Brennan er í boði og umsjón Lions.
	
	Flugeldasýning á vegum björgunarsveitarinnar Skyggnis verður við brennuna. Eftir brennuna verður farið í Tjarnarsalinn, þar sem verður smá gleði, sungið og dansað. Allir 12 ára og yngri fá glaðning. Veitt verða verðlaun fyrir nokkra skemmtilega búninga.


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				