Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Síðasta vaktin hjá Þórkötlu
Fimmtudagur 31. desember 2009 kl. 16:59

Síðasta vaktin hjá Þórkötlu


Þórkatla Albertsdóttir mætti á sína síðustu vakt í íþróttahúsinu í Grindavík í gærmorgun en hún er orðin 67 ára og því komin á eftirlaun. Hún hefur starfað í íþróttahúsinu í rúm 23 ár. Samstarfsfólk Þórkötlu í íþróttahúsinu og sundlauginni kom henni á óvart í tilefni dagsins með því að slá upp veislu og færa henni gjöf. Þá færði Grindavíkurbær henni blómvönd og að sjálfsögðu fékk hún kossa og knús frá samstarfsfólkinu.

Þórkatla hóf störf í íþróttahúsinu 1986 eða ári eftir að það opnaði. Þórkatla segir að þetta hafi verið skemmtilegur tími og hún kveðji vinnustaðinn með söknuði enda skemmtilegt fólk sem þar vinnur.

Óhætt er að segja að lítil starfsmannavelta sé í íþróttahúsinu og sundlauginni, þar hefur verið meira og minna sama starfsfólkið í mörg ár og sumir unnið frá því að íþróttahúsið opnaði á sínum tíma. Samkvæmt lauslegri samantekt er samanlagður starfsaldur vel á annað hundrað ár og er þá aðeins miðað við starf hjá íþróttahúsinu og sundlauginni.

Á myndinni hér að neðan er starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar og sundlaugarinnar: Páll Axel Vilbergsson, Hermann Guðmundsson, Snorri Viðar Kristinsson, Sigríður Ágústsdóttir, Þórkatla Albertsdóttir, Þórhildur Rut Einarsdóttir, Ólína Þorsteinsdóttir, Fanný Laustsen og Ester Garðarsdóttir.

Myndir og texti: www.grindavik.is



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024