Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Síðasta sýningarhelgi hjá Gunnhildi
Miðvikudagur 23. október 2013 kl. 16:22

Síðasta sýningarhelgi hjá Gunnhildi

Nú fer hver að verða síðastur til að skoða sýninguna Áframhald sem opnuð var í Listasafni Reykjanesbæjar á Ljósanótt þann 5. september sl. og er einkasýning Gunnhildar Þórðardóttur.

Á sýningunni eru ný verk öll unnin á þessu ári en titill sýningarinnar vísar í áframhaldandi þróun á verkum Gunnhildar og til þeirra efna sem verkin eru gerð úr. Á sýningunni eru tvívíð og þrívíð verk sem ýmist eru unnin úr fundnum hlutum eða tilfallandi efni og afskurði eins og timbri, bárujárni og textíl enda sjálfbærni ofarlega í huga hennar. Gunnhildur sækir innblástur til bernskuáranna í Keflavík, hluti tengda sjómennsku, náttúru og mannvirkja á Reykjanesinu.

Sýningin hefur verið vel sótt og boðið hefur verið upp á fjölskyldusmiðju og listamannaspjall í tengslum við hana. Þá hafa um 700 nemendur fengið sérstaka leiðsögn um sýninguna.

Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður.

Gunnhildur lauk BA (Honours) í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama skóla árið 2006. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars Minningar í kössum í Flóru á Akureyri sl. vor auk þess að taka þátt í samsýningu í Listasafni Íslands í maí sl. Þá tók hún þátt í myndbandsgjörningi í Tate Britain á síðasta ári sem stjórnað var af Tracly Moberly myndlistarmanni.

Sýningin stendur til 27. október en safnið er opið virka daga kl. 12.00-17.00 og um helgar kl. 13.00-17.00. Að venju er aðgangur ókeypis.

Sjá nánar um sýninguna á vefsíðu Listasafns Reykjanesbæjar www.reykjanesbaer.is/listasafn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024